Beint í efni

Ný nautaskrá

16.12.2010

Innan skamms verður ný nautaskrá send til allra kúabænda en hún er nú þegar aðgengileg á vefnum (sækja pdf). Í skránni eru nú 25 naut úr nautaárgöngum 2002-2004. Nautum úr árgangi 2002 fer nú fækkandi en sá árgangur var mjög öflugur í samanburði við flesta aðra. Árgangur 2003 gaf ekki mörg úrvalsnaut þó allnokkur séu líkleg til kynbóta, en árgangur 2004 er aftur á móti mjög öflugur. Úr árgangi 2002 eru ennþá 9 naut, en vert er að vekja athygli á að litlar birgðir eru til úr flestum þeirra. Þá eru áfram 5 naut úr árgangi 2003. Úr árgangnum 2004 koma nú 11 ný naut.

Nautsfeður eru nú 7 talsins. Ófeigur 02016 frá Þríhyrningi‚ Gyllir 03007 frá Dalbæ I og Tópas 03027 frá Króki verða áfram nautsfeður og nýir sem bætast í hópinn eru Ás 02048 frá Sumarliðabæ, Stássi 04021 og Stíll 04041, báðir frá S-Bægisá, og Ári 04043 frá Stóra-Ármóti. Rétt er að vekja athygli á miklum skyldleika Stássa 04024 og Stíls 04041. Báðir eru þeir undan Stíg 97010 frá Oddgeirshólum, Stíll er undan Steypu 223 og Stássi undan Stássu 304, sem aftur er undan Steypu 223.

Við val á nýjum nautum í skrána og framhaldsnotkun þeirra hefur verið lögð megin áhersla á góða júgur- og spenagerð svo og mjaltir. Í skránni nú eru því mjög mörg naut sem bæta munu júgur, spena og mjaltir auk þess að bæta afurðasemi. Nautastofninn sem nú er til notkunar er um margt mjög álitlegur og gefur bændum margvíslega valmöguleika. Mikilvægt er að bændur íhugi vandlega hvernig einstök naut falla að ræktunarstarfi búsins þannig að sem mestur ræktunarárangur náist.

Nautaskrá - haustið 2010

/Magnús B. Jónsson