Beint í efni

Mun kornið ná þroska í ár?

11.08.2011

Korn sem er seint á ferðinni

Ef kornið hefur ekki verið skriðið um síðustu mánaðamót, þá eru litlar líkur á að það gefi nýtilega kornuppskeru. Þumalfingursreglan okkar segir að frá skriði þurfi kornið sex vikur í skurðarhæft korn, níu vikur í fullmatað korn og tíu vikur í sáðkorn.

Byggið byrjar að flytja sterkju upp í kornið eftir um þrjár vikur frá skriði. Þeir flutningar geta staðið næstu sex vikur þar frá. En þessir flutningar fara einungis fram við góðan hita (lágmark 10°C segja sumar heimildir). Svo mikið er víst að hérlendis stöðvast þessir flutningar að öllu jöfnu um miðjan september, líka þótt kornið sé ekki fullmatað.

Korn sem skríður ekki fyrr en um mánaðamót júlí og ágúst getur því í besta falli skilað um hálfri kornuppskeru og þó er ekkert öruggt með það. Fyrsti kostur er að taka það sem grænfóður nú þegar. Annar kostur er að láta það standa fram um næstu mánaðamót og taka það sem heilsæði með byrjandi kornfyllingu. Nokkur áhætta er því samfara, til dæmis frost og til að nýta það á því stigi þarf einhvers konar söxun. Þriðji kostur er að láta það standa og taka því sem að höndum ber. Hér er ekki mælt með því.

Ákvörðun verður að taka með tilliti til gróffóðurstöðu búsins. Ef hún er tæp er sjálfsagt að taka síðskriðið korn sem grænfóður nú þegar eða hugsanlega sem heilsæði síðar.

Korn eftir frost
Undanfarið hefur gert næturfrost nokkrum sinnum, einkum norðanlands. Korn er þar í hættu. Það sem gerist við frostið er að sáldvefurinn, sem færir korninu vatn og næringu, eyðileggst. Kornið – og þá á ég við stakt korn – þornar því og visnar og bætir ekki við sig eftir það. Í vætutíð verða dauðu kornin síðar brún og fúin.

Áhrif frosts á korn eru mismikil og ekki gott að skýra, hvernig á því stendur. Stundum geldist axið alveg, þ.e. hvert einasta korn deyr. Það er einkum, ef frýs á kornið nýskriðið. Akurinn getur þá verið eðlilegur tilsýndar og gulnað með haustinu, en axið er bara tómt. Oftar skemmist svona annað hvert korn. Þá visna þau, en heilbrigðu kornin tútna út og axið verður skörðótt. Þau dauðu verða brún með tímanum. Þannig korn skilar uppskeru.
Stundum finnast aftur á móti engar skemmdir eftir frost. Þannig var það til dæmis eftir frostið 25. júlí 2009. Þá nótt var hart frost á Suðurlandi og gjörféll hvert einasta kartöflugras milli Hellisheiðar og Markarfljóts. En hvergi sá á korni og var kornið þó á allra viðkvæmasta stigi, nýskriðið, og hefði mátt búast við að allir akrar á svæðinu yrðu ófrævir og visnir.
Lítið er við frostinu að gera eftir á. Menn ættu þó að ganga á akrana einhvern næstu daga ef þurrkur helst og skoða hvort kornin skreppa saman í þurrkinum. Ef allt bendir til að akurinn sé aldauður, þá er rétt að taka kornið í grænfóður núna frekar en láta það verða að hálmi án korns.

Jónatan Hermannsson, LBHÍ