
MS vill áfrýja til Hæstaréttar
30.03.2020
Á föstudaginn staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Mjólkursamsölunni ber að greiða 480 milljónir króna til ríkisins vegna brota á samkeppnislögum. Meðferð málsins hefur nú staðið í átta ár. Í kjölfarið tilkynnti Ari Edwald, forstjóri MS, að fyrirtækið muni leita eftir heimild til áfrýjunar til Hæstaréttar. Annað sé óhjákvæmilegt.
Niðurstaðan kemur mjög á óvart
„Þessi niðurstaða Landsréttar kemur Mjólkursamsölunni mjög á óvart, enda telur fyrirtækið sig hafa farið að öllu leyti að lögum við framkvæmd á samstarfi til að hagræða og lækka verð á mjólkurvörum til neytenda,“ segir Ari Edwald í samtali við Morgunblaðið. „Að mínu mati er alveg ljóst að túlkun Landsréttar á ákvæðum búvörulaga skapar mikla óvissu um heimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að hagræða og lækka vöruverð með verkaskiptingu. Slík verkaskipting fær ekki staðist nema með jöfnun framlegðar milli þeirra sem taka þátt í verkaskiptingunni. Að öðrum kosti er enginn tilbúinn að taka að sér að framleiða þær vörur sem gefa minnst af sér. Mjólkursamsalan telur því óhjákvæmilegt að Hæstiréttur Íslands fjalli um þetta mál og mun leita eftir heimild til áfrýjunar þangað.“
Málið á sér langa sögu
Málið á sér nokkuð langa sögu og kom upphaflega upp þegar Mjólkurbúið KÚ sendi athugasemd til Samkeppniseftirlitsins árið 2012 um mun á verði sem KÚ þyrfti að greiða fyrir hrámjólk samanborið við KS. Rannsókn eftirlitsins stóð til september 2014, en þá var Mjólkursamsölunni gert að greiða 370 milljónir í stjórnvaldssekt vegna málsins. Var ákvörðunin kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi þá ákvörðunina úr gildi og var Samkeppniseftirlitinu gert að rannsaka málið frekar. Þegar frekari skoðun lauk lagði Samkeppniseftirlitið aftur stjórnvaldssekt á Mjólkursamsöluna, en nú upp á 480 milljónir samtals. Aftur kærði Mjólkursamsalan ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og aftur felldi nefndin sektina niður, utan þess að Mjólkursamsalan skyldi greiða 40 milljónir vegna brota á upplýsingarskyldu. Samkeppniseftirlitið nýtti þá heimild í lögum og höfðaði dómsmál gegn MS.