
MS heldur Ostóber hátíðlegan
02.10.2020
Upp er runninn október en þriðja árið í röð heldur Mjólkursamsalan mánuðinn hátíðlegan undir yfirskriftinni Ostóber – tími til að njóta osta. Ostóber er tími til að fagna gæðum og fjölbreytileika í íslenskri ostagerð og vill MS með þessu framtaki hvetja landsmenn til borða sína uppáhaldsosta, smakka nýja og prófa sig áfram með ostana í matargerð. Hvað er betra en að hafa það huggulegt heima í skammdeginu, kveikja á kertum og gæða sér á íslensku ostagóðgæti?
Á uppskriftarvefnum gottimatinn.is er að finna heilan hafsjó af uppskriftum þar sem íslenskir ostar koma við sögu og ber þar hæst að nefna uppskriftir með Óðalsostum, Dalaostum, rjómaostum og rifnum ostum, en nýverið bættust í safnið uppskriftir sem innihalda Goðdala ostana Feyki, Gretti og Reyki sem eru sælkeraostar úr Skagafirði. Það mun allt iða af lífi á samfélagsmiðlum og geta heppnir fylgjendur Gott í matinn á Facebook tekið þátt í laufléttum leik og unnið veglegar gjafakörfur með úrvali af íslenskum ostum frá MS.
Sérstakir Ostóber ostar
Fólk er hvatt til að fylgjast vel með á næstunni þegar fyrirtækið kynnir sérstaka Ostóber osta sem framleiddir voru sérstaklega fyrir þetta tilefni.