Beint í efni

Mjólk og kjöt bætir heilastarfsemi!

19.02.2011

Samkvæmt nýrri danskri rannsókn hefur neysla á dýrapróteini jákvæð áhrif á virkni heilans. Ekki er þó vitað hvort skýringanna sé að leita jákvæðum áhrifum próteinanna eða annarra næringarefna sem fylgdu með neyslu þeirra, en próteinin komu úr kjöti og mjólk. Þetta er m.a. niðurstaða rannsóknar sem Jens Kondrup, prófessor við næringarfræðideild Háskólans í Kaupmannahöfn, stóð fyrir. Rannsóknin var gerð á 23 karlmönnum á aldrinum 19-31 árs og var þeim skipt í tvo hópa þar sem annar hópurinn fékk mun meira magn af

dýrapróteini að borða (3 gr/kg líkamsþunga/dag) en hinn hópurinn ráðlagðan dagsskammt. Rannsóknin stóð í þrjár vikur og kom í ljós að þrátt fyrir að enginn munur reyndist vera á vöðvabyggingu þátttakendanna í rannsókninni, reyndist sk. „cognition“ virkni eða „virkni til hugsunar“ marktækt meiri í hópnum sem fékk meira af mjólk og kjöti.

 

Að sögn Jens er ekki hægt að fullyrða um ástæður þessarar niðurstöðu, þ.e. hvort þetta skýrist af meiri neyslu á amínósýrum [byggingarefni próteins] eða meiri neyslu á þeim fjölmörgu vítamínum sem eru í kjöti og mjólk. Þó er talið líklegra að skýringuna megi finna í amínósýrunum þar sem magn þeirra mældist umtalsvert meira í blóði þeirra sem fengu meira dýraprótein, en amínósýrur eru taldar hafa áhrif á boðefni líkamans og þar með á virkni heilans.
 

Áhugasamir um þessa rannsókn geta lesið nánar um hana með því að smella á meðfylgjandi hlekk: http://nyheder.ku.dk/alle_nyheder/2011/2011.1/proteiner_goer_dig_klogere/