Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Mettuð fita í fóðri eykur mjólkurfituna

05.10.2013

Nú þegar kallað er eftir allri mjólk sem kúabændur landsins geta kreyst úr kúm sínum er viðbúið að bændur ausi kjarnfóðri í kýrnar sem aldrei fyrr. Oft er það svo að með aukinni kjarnfóðurgjöf þá lækkar hinsvegar fita í mjólk, þar sem með kjarnfóðurgjöf eykst hlutfall própíonsýru í vömb á kostnað ediksýru og smjörsýru sem eru aðal byggingarefni mjólkurfitu.

 

Örverur vambarinnar geta ekki nýtt sér fitusýrur úr fóðrinu sem orkugjafa en geta hins vegar nýtt þær við uppbyggingu á eigin fitu. Fitu má hinsvegar vernda gegn niðurbroti í vömbinni og er það einmitt ein af færum leiðum til þess að hafa áhrif á hlutföll fitusýra í mjólkurfitunni. Í september sl. birtist í tímaritinu Journal of Dairy Science grein um áhrif þess að bæta í fóðrið mettaðri fitu en um var að ræða palmitínsýru (C16).

 

Tilraunin var gerð í Bandaríkjunum á Holstein kúm sem voru hálfnaðar með mjaltaskeið sitt.  Kýr þessar fengu 2% palmitínsýru í fóðrinu sem hafði þau áhrif að fituhlutfallið hækkaði úr 3,88 í 4,16 og jókst dagleg mjólkurfituframleiðsla kúnna úr 1,23 kg í 1,32 kg eða um heil 7,3%! Jafnframt minnkaði át kúnna um 1 kg af þurrefni á dag og þar sem mjólkurfituframleiðslan jókst hafði þessi breyting á innihaldi fóðursins jákvæð áhrif á fóðurnýtinguna einnig og nam munurinn 8%. Þess má geta að áhrifin af palmitínsýrugjöfinni komu beint fram í mjólkinni sjálfri en samsetning mjólkurfitunnar sjálfrar breyttist við fóðurbreytinguna og jókst til að mynda hlutfall palmitínsýru um 27%.

 

Rétt er að benda lesendum á það að með einfaldri leit á veraldarvefnum má komast í afar mikið og fróðlegt úrval greina um áhrif fóðrunar á efnainnihald mjólkur. Fyrir þá sem ekki treysta sér í að lesa erlendar greinar, þá eru til nokkrar íslenskar um efnið einnig m.a. fín yfirlitsgrein frá Ráðunautafundi árið 2000 um efnainnihald í mjólk. Þó svo að nokkuð sé um liðið frá árinu 2000 þá standa skrifin ágætlega fyrir sínu, en væntanlega hefur bæst í þekkingarbrunn fóðursérfræðinga landsins frá þeim tíma þó svo að ekki sé mikið til á prenti/SS.