Lofandi útflutningur til Bandaríkjanna
13.09.2006
Undanfarin misseri hefur verið unnið mikið markaðsstarf í Bandaríkjunum fyrir íslenskar mjólkurafurðir og eru seldar í verslunum Whole Food Markets á austurströnd Bandaríkjanna. Sú afurð sem hefur vakið hvað mesta athygli er skyrið en einnig er verið að selja desertosta og smjör. Töluverður kostnaður fylgir útflutningi á afurðum til Bandaríkjanna m.a. flugfrakt fyrir skyrið og desertostana og ýmislegt annað umfram það sem við þekkjum hér innanlands. Þrátt fyrir þetta er skilaverð þessara afurða allt að 90% af heildsöluverði samsvarandi afurða hér innanlands sem er mjög ásættanlegt og stendur undir fullu afurðastöðvaverði á mjólk til bænda.
Góð sala innanlands undanfarið hefur orðið til þess að ekki hefur verið hægt að sinna þessum útflutningsmöguleika sem skyldi en mikill áhugi er á að fjölga verslunum sem þessar afurðir eru seldar til. Þá má geta þess að einnig er lofandi markaður í Færeyjum sem iðnaðurinn hefur ekki getað sinnt vegna framleiðslustöðunnar. Það er mat þeirra sem best til þekkja að þessir tveir markaðir gætu tekið við allt að 6-8 milljónum lítra árlega ef hægt verður að sinna þeim af alúð á næstu misserum.