Beint í efni

LK 20 ára – Fjölskylduhátíð í Smáralind!

05.04.2006

Landssamband kúabænda á 20 ára afmæli um þessar mundir og af því tilefni verður fjölskylduhátíð í Smáralind í Kópavogi næstkomandi laugardag, 8. apríl, frá kl. 13-15. Tilgangur hennar er fyrst og fremst að vekja athygli landsmanna á kúabændum og framleiðslu þeirra.

Sjónvarpsmaðurinn góðkunni, Gísli Einarsson, verður kynnir en meðal skemmtiatriða verður Benedikt búálfur sem tekur nokkur lög og spjallar við börnin. Þá syngur Jónsi Evróvisjónkappi nokkur vel valin lög og gestum og gangandi býðst að fá sér súkkulaði og kalda mjólk um leið og hægt er að ræða við kúabændur um íslenska nautgriparækt.

Kálfar í Smáralind og vikudvöl í sveit!

Í tengslum við þessa uppákomu verður sett upp stía fyrir kálfa inn í Smáralind og gefst börnum og fullorðnum kostur á að kynnast þeim, sem og að taka þátt í hinni frábæru keppni: Hvað er kálfurinn þungur? Í verðlaun verða stór páskaegg frá Nóa-Síríus. Þá geta börn á aldrinum 6-10 ára átt möguleika á að vinna vikudvöl í sveit.

 

365 kýr!

Meðfram dagskránni á sviðinu verða sýndar myndir úr sögu mjólkurframleiðslunnar á Íslandi og á sérstökum sýningarstöndum verður hægt að virða fyrir sér 365 kúamyndir úr safni Jóns Eiríkssonar bónda og ljósmyndara á Búrfelli en þær eru í eigu Landsvirkjunar.

 

Að sjálfsögðu eru allir velkomnir á hátíðina þar sem gefst kærkomið tækifæri til að kynnast því hvernig mjólkin verður til og hvernig lífi er lifað í íslenskum sveitum.