Beint í efni

Landbúnaður ekki tryggður í ESB-tillögu

14.07.2009

Í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er fjallað sérstaklega um meginhagsmuni Íslands ef til aðildarviðræðna kemur. Meðal þess sem fjallað er sérstaklega um eru landbúnaðar- og byggðamál. Þó lögð sé áhersla á mikilvægi íslensks landbúnaðar í umsögn nefndarinnar er vart hægt að segja að slegnir séu þeir varnaglar sem veitt gætu landbúnaðinum skjól ef til aðildar kæmi. Farið er orðum um mikilvægi sjálfbærrar þróunar í matvælaframleiðslu, byggðatengd sjónarmið og umhverfisþætti en ekki er hægt að sjá að í neinu tilfelli sé gengið svo langt að setja fram skýlausar kröfur um niðurstöður aðildarviðræðna til varnar landbúnaði.

Tollvernd forsenda fyrir óhögguðum landbúnaði
Í umsögninni er lögð áhersla á að: „skýr stuðningur við mjólkurframleiðslu og annan hefðbundinn búskap verði eitt af samningsmarkmiðum Íslands. Það á t.d. við um afnám tolla þar sem tollverndin hefur verið ein af stoðum íslensks landbúnaðar, ekki síst hefðbundins landbúnaðar. Er því mikilvægt að leita allra leiða til að búa svo um hnúta að stuðningi við landbúnað verði sem minnst raskað þótt ljóst sé að ákveðin breyting í uppbyggingu styrkjakerfisins muni eiga sér stað með aðild að sambandinu.“  Ekki er ljóst af þessum orðum hvort meirihluti utanríkisnefndar telur að Ísland geti viðhaldið tollvernd til handa innlendum landbúnaðarafurðum ef gengið verður í sambandið, þó rætt sé um að slíkt verði eitt af samningsmarkmiðum Íslands. Ekkert land sem gengið hefur í Evrópusambandið hefur fengið undanþágur frá frjálsu og óhindruðu flæði vöru milli landa, enda eru slík tollalaus og óheft viðskipti ein af grunnstöðum Evrópusambandsins. Í aðildarsamningum Finna við sambandið lögðu Finnar mikla áherslu á að ná fram undanþágu sem leyfa myndi áframhaldandi tollvernd, í það minnst um stundarsakir. Það tókst Finnum ekki. Oft hefur verið sagt að Finnar hafi náð hvað hagstæðustum samningum ríkja við Evrópusambandið en í ljósi þess að þeim tókst ekki að fá undanþágur frá því að tollvernd félli niður má ætla að slíkt séu harla óraunhæf markmið fyrir Ísland. Bændasamtökin hafa í málflutningi sínum lagt áherslu á að tollverndin sé landbúnaðinum í það minnsta jafn mikilvæg og stuðningur ríkisins við búgreinarnar. Falli tollvernd niður má því leiða líkum að því að íslenskur landbúnaður hlyti þung högg sem valda myndu því að hann legðist af í þeirri mynd sem er í dag.

Ekki fjallað um landbúnað í heild
Í umsögn meirihluta nefndarinnar er hvergi fjallað um mikilvægi starfa tengdra íslenskum landbúnaði, til að mynda er hvergi minnst á úrvinnsluiðnaðinn. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá síðasta vetri hafa tíu þúsund manns beina atvinnu af íslenskum landbúnaði, þeir sem starfa beint við hann og þeir sem eru í beinni úrvinnslu afurða. Þá eru ótalin þau störf sem eru frekar afleidd af íslenskum landbúnaði. Jafnframt skortir tilfinnanlega að fjallað sé um landbúnaðinn í heild í umsögninni, en megináhersla er lögð á mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Ekki er fjallað að neinu marki um aðstæður svínabænda og kjúklingabænda, en færð hafa verið rök fyrir því að þær greinar muni verða fyrir mestum skakkaföllum við inngöngu.

Ekki hægt að fullyrða um varanlegar undanþágur
Meirihluti nefndarinnar telur jafnramt mikilvægt að landbúnaðinum verði skapað svigrúm til aðlögunar að ESB sérstaklega með tilliti til ólíks styrkjakerfis og hnattrænnar stöðu. Mikilvægt sé að: „Ísland nýti sér og skoði eftir atvikum hvort nauðsyn beri til að útvíkka gildandi reglur ESB til að ná fram heimildum fyrir Ísland til að tryggja sem best stöðu íslenskra bænda. Fordæmi þau sem sköpuð hafa verið í aðildarsamningum ríkja eins og Finnlands munu án efa verða mikill styrkur fyrir Ísland þar sem ástæða er til að ætla að m.a. verði unnt að skilgreina allt landið sem svæði norðurslóðalandbúnaðar og sem harðbýlt svæði. Það gæti skapað grundvöll til að styrkja íslenskan landbúnað, t.d. með framleiðslutengdum styrkjum, umfram það sem almennar reglur ESB kveða á um og á það skal leggja þunga áherslu.“  Velta má fyrir sér hvers vegna ekki er sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði að Ísland allt verði skilgreint sem harðbýlt svæði og að landið allt fái norðurslóðastuðning. Hér er jafnframt tæpt á samningum Finna við Evrópusambandið. Í samningi Finna er málum svo háttað að Finnlandi er skipt í tvö svæði, suðursvæði sunnan 62. breiddargráðu og norðursvæði norðan sömu breiddargráðu. Í norðurhlutanum er samkvæmt samningi Finna og Evrópusambandsins leyfilegt að veita áfram framleiðslutengdan stuðning í landbúnaði og er sú undanþága varanleg. Finnar fengu einnig undanþágu til að styðja við landbúnað í suðurhlutanum umfram það sem Evrópusambandið gerir sem heild. Deilt hefur verið um það milli Finna og Evrópusambandsins hvort sú undanþága sé varanleg eða ekki. Finnar líta þannig á að svo sé en Evrópusambandið ekki. Evrópusambandið er breytilegt og því ljóst að erfitt er að staðhæfa að undanþágur muni standa til framtíðar. Hvað sem öllu líður er það pólitísk ákvörðun innlendra stjórnvalda hvort stutt er sérstaklega við landbúnað, þó að heimild sé til þess. Innlendur stuðningur við finnskan landbúnað hefur á undanförnum árum farið snarminnkandi og því er ljóst að pólitískan vilja þarf til að nýta undanþágur sem þessar, fengjust þær í samningi Íslands við Evrópusambandið.

Eðlilegt að krafa sé gerð um áframhaldandi bann við innflutningi dýra og ófrosins kjöts
Í umsögninni er jafnframt nefnt að meirihluti nefndarinnar telur að halda eigi áfram á lofti þeirri kröfu að Ísland frá undanþágu frá innflutningi lifandi dýra til landsins. Í álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands frá 3. september 2008 sem unnin var fyrir Bændasamtök Íslands vegna umsagnar um matvælafrumvarp ríkisstjórnarinnar, kemur fram að beita megi 13. grein EES-samningsins til að leggja á bann við innflutningi á innflutningi vöru með tilliti til m.a. verndar lífs og heilsu manna eða dýra. Færðu skýrsluhöfundar rök fyrir því að hægt væri að beita ákvæðum 13. greinarinnar til að banna innflutning á hráu, ófrosnu kjöti til landsins auk lifandi dýra. Ákvæði 13. greinar EES-samningsins er efnislega samhljóða 30. grein Rómarsáttmálans og hefur meðal annars reynt á þau ákvæði fyrir dómi. Því má teljast í hæsta máta undarlegt að ekki sé gerð skýlaus krafa í umsögn meirihluta utanríkismálanefndar um að viðhaldið verði banni við innflutningi lifandi dýra til landsins. Sömuleiðis má telja furðulegt að ekki sé minnst kröfur um að bann verði áfram lagt við innflutningi hrás, ófrosins kjöts til landsins, ekki síst í ljósi þess að í nýrri útgáfu matvælafrumvarpsins sem nú liggur fyrir Alþingi er því banni viðhaldið með vísan í 13. grein EES-samningsins. Vekur þetta sérstaka furðu í ljósi þess að í umsögn meirihluta utanríkismálanefndar kemur fram að: „hér á landi eru búfjárstofnar afar viðkvæmir fyrir mögulegum utanaðkomandi sýkingum og mikilvægt er að íslensk stjórnvöld geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til verndar íslenskum búfjárstofnum enda hefur náðst markverður árangur hér á landi í dýraheilbrigðismálum og matvælaöryggi.“ Það liggur því í augum uppi að  í samningum um mögulega aðild að Evrópusambandinu ætti áfram að vera tekið fyrir innflutning af þessu tagi með vísan í 30. grein Rómarsáttmálans.

Engar ófrávíkjanlegar kröfur settar fram
Ef litið er til þess sem komið hefur fram hér að framan má segja að lýst sé vilja til þess að vernda íslenskan landbúnað í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hins vegar eru ekki settar fram skýlausar kröfur um samningsniðurstöður og segja má að sé rýnt í umsögn meirihluta utanríkisnefndar sé fátt sett fram sem ófrávíkjanlegt í samningaviðræðunum. Bændasamtökin hafa ítrekað lýst andstöðu sinni við Evrópusambandsaðild og hafa fært fyrir því rök að með slíkri aðild myndi íslenskur landbúnaður í núverandi mynd leggjast af. Þau rök hafa ekki verið hrakin og ljóst má vera að umsögn meirihluta utanríkisnefndar fer víðsfjarri því að tryggja að hagsmunum landbúnaðar verði borgið í aðildarviðræðum, ef til þeirra kemur.