Beint í efni

Fréttatilkynning frá deild sauðfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands 

31.07.2025

Afurðaverð haustsins veldur vonbrigðum

Deild sauðfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands lýsir yfir vonbrigðum með þau afurðaverð sem kynnt hafa verið fyrir komandi haust. Reiknuð hækkun miðað við innlegg ársins 2024 er 2,2% fyrir dilkakjöt og 1% fyrir fullorðið. Verðin endurspegla ekki þær væntingar sem voru uppi um áframhaldandi bætta afkomu og rekstraröryggi til framtíðar. 

Á síðustu árum hefur tekist að vinda ofan af þeim mikla skaða sem varð þegar afurðaverð til sauðfjárbænda lækkaði verulega á árunum 2016–2017. Leiðrétting afurðaverðs síðustu þrjú ár var mikilvægt skref í að bæta stöðu greinarinnar og endurheimta traust. Núverandi verð fylgja vart þróun almenns verðlags og valda því vonbrigðum.  

Sauðfjárbændur gera þá kröfu að rekstur sauðfjárbúa skili eðlilegri afkomu. Það er forsenda þess að hægt sé að halda búrekstri áfram, greiða mannsæmandi laun og fjárfesta til framtíðar. 

Afkoman þarf að standast eðlilegar forsendur 

Verð fyrir dilkakjöt stendur ekki undir þeim kostnaði sem fellur til við framleiðsluna, jafnvel þegar tekið er tillit til stuðningskerfa. Í öllum atvinnugreinum gengur rekstur ekki nema tekjur standi undir kostnaði. 

Sauðfjárrækt krefst mikillar vinnu og ábyrgðar. Það er sanngjörn krafa að bændur geti greitt sér laun sem endurspegla þá vinnu sem lögð er í búreksturinn. Það er forsenda þess að greinin haldist sjálfbær og að fólk vilji starfa við hana til framtíðar.

Byggja þarf upp rekstur með framtíðarsýn 

Sauðfjárbændur þurfa að geta fjárfest í búum sínum, innleitt nýja tækni og hagrætt í rekstri. Það verður hins vegar ekki gert ef grundvöllur rekstrarins er veikur. Til þess þarf greinin að njóta rekstrarskilyrða sem gera það kleift. Að skapa þau skilyrði er sameiginlegt verkefni bænda, afurðastöðva, stjórnvalda og neytenda. 

Fyrir hönd deildar sauðfjárbænda 

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður stjórnar.