Beint í efni

Fá vel greitt fyrir stjórnarsetu!

28.05.2013

Stjórnarstörf í félagasamtökum eru oft vanmetin og vinnuframlag þeirra sem leggja hart af sér í þágu félagsmanna oft ekki metið. Hjá Arla er þetta þó alls ekki þannig en nýverið samþykkti fulltrúaráðsfundur ný launakjör kjörinna fulltrúa. Hæst laun fær stjórnarformaðurinn sjálfur eða 28 milljónir íslenskar krónur á ári og er þá miðað við að hann fái hvorki dagpeninga né nokkuð annað aukalega. Þessi upphæð svarar til 2,3 milljóna íslenskra króna á mánuði sem hljóta að teljast góð laun!

 

Þá fær varaformaðurinn 19 milljónir króna í laun á ári eða um 1,6 milljónir á mánuði en aðrir stjórnarmenn fá 9,5 milljónir króna á ári í laun eða um 790 þúsund krónur á mánuði. Samkvæmt nýja launakerfinu falla út allar aukalegar greiðslur til stjórnarmanna. Auk þessa ákvað fundurinn að greiða fulltrúum í stjórnum landsdeilda Arla 6 milljónir í laun á ári eða hálfa milljón á mánuði og þá fá fulltrúaráðsmeðlimir 200 þúsund krónur fyrir sína vinnu árlega.

 

Hinn hálfíslenski Kjartan Poulsen, formaður danskra kúabænda, var harðorður eftir að breyting á launakjörum stjórnarmanna var samþykkt og sagði tíðindin slæm fyrir hugsjón framleiðenda samvinnufélaga þar sem ljóst væri að nú skiptu laun fyrir stjórnarsetu miklu máli fyrir þá sem þangað veljast. Á móti kæmi reyndar að hægt væri að gera þá kröfu til stjórnarmanna að þeir þekktu til alls reksturs Arla.

 

Þess má geta að Arla er með 20.000 starfsmenn og um 10.000 eigendur/SS.