Beint í efni

Erpsstaðir hljóta landbúnaðarverðlaunin 2023

30.03.2023

Landbúnaðarverðlaunin árið 2023 fá hjónin á Erpsstöðum í Dalabyggð, þau Helga Elínborg Guðmundsdóttir og Þorgrímur Einar Guðbjartsson. Þau hafa búið á Erpsstöðum í 25 ár og alla tíð ástundað búskap sinn af forsjá og áhuga. Á þessum árum hafa þau eflt búið verulega, aukið ræktað land, fjölgað kúm og framleiðslu afurða. Auk þess hafa þau stundað fjölþætta aðra starfsemi í landbúnaði. Til dæmis voru þau með fyrstu bændum sem gerðu samning við Vesturlandsskóga um skógrækt á bændabýlum. Byggt var nýtt fjós 2008 og heimavinnsla mjólkurafurða hófst árið eftir. Á Erpsstöðum er nú tekið á móti og þúsundum ferðamanna árlega sem koma í heimsókn, kynna sér íslenskan landbúnað og bragða á vörum þeirra sem framleiddar eru undir vörumerkinu Rjómabúið á Erpsstöðum. Samhliða er einnig boðið upp á gistiþjónustu á bænum.

Helga og Þorgrímur eiga fimm börn, en hafa einnig tekið börn í fóstur á búinu, bæði til skemmri og lengri tíma. Til viðbótar hafa þau um langt árabil tekið á móti nemum í starfsnám frá landbúnaðarskólum í Evrópu. Ennfremur hafa þau tekið virkan þátt í félagsstörfum  svo sem með setu í sveitarstjórn, stjórnum búnaðarfélaga, æskulýðsfélaga og annarra samtaka í nærsamfélaginu auk forystu í samtökum framleiðenda beint frá býli á landsvísu.

Matvælaráðherra veitir landbúnaðarverðlaun árlega í tengslum við Búnaðarþing. Ráðherra landbúnaðarmála veitti landbúnaðarverðlaun fyrst árið 1997 og þau hafa verið veitt flest ár síðan eða alls 24 skipti. Á árinu 2023 var í fyrsta sinn auglýst eftir tilnefningum opinberlega í Bændablaðinu.  Alls bárust sex tilnefningar. Í gegnum árin hefur fjöldi verðlaunahafa verið breytilegur en að þessu sinni er einn verðlaunahafi.