Beint í efni

Engin ályktun flokksráðs VG um landbúnað

26.06.2010

Í dag lauk flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs og voru á fundinum samþykktar 14 ályktanir, sem lesa má í heild hér fyrir neðan. Flokksráðið ályktaði m.a. um efnahagsaðgerðir, um meðferð tillögu um aðildarumsókn að ESB, um stjórnmálasamband við Ísrael, um frið og afvopnun, um ráðningu stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur í fullt starf, um ákærur fyrir árás á Alþingi, um skipan dómara ofl. Engin ályktun snýr að stöðu landbúnaðar, en flokkurinn

fer sem kunnugt er með stjórn þess málaflokks. Stefnu flokksins í málaflokknum má lesa neðst í greininni.

 

Ályktun um efnahagsaðgerðir
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík dagana 25.-26. júní 2010, fagnar þeim aðgerðum stjórnvalda sem litið hafa dagsins ljós í skuldamálum heimilanna og þeim árangri sem náðst hefur í efnahagsmálum undir stjórn ríkisstjórnar VG og Samfylkingar. Jafnframt hvetur fundurinn til samstöðu á Alþingi um þau erfiðu verkefni sem takast þarf á við í uppbyggingu samfélagsins.
Nauðsynlegt er að bæta stöðu þeirra sem verst standa og flokkráðsfundur hvetur því til um áframhaldandi aðgerða og skuldaleiðréttingar. Sértækar aðgerðir eiga að vera í þágu illra staddra heimila en ekki í þágu fjármálafyrirtækja. Flokksráðsfundur ítrekar fyrri afstöðu um að afnema eigi verðtryggingu í þeirri mynd sem hún hefur verið, samhliða því að sett verði þak á fjármagnskostnað.


Flokksráðsfundur leggur á það ríka áherslu að á meðan tekist er á við alvarlegustu afleiðingar efnahagshrunsins verði áfram stuðst við blandaða leið tekjuaukningar og niðurskurðar á opinberum útgjöldum. Niðurskurður má hins vegar ekki koma þannig niður á grunnþjónustu að hún beri varanlegan skaða af. Standa verður vörð um afkomu þeirra sem treysta á velferðarkerfið. Grunnþjónusta á að vera rekin á félagslegum grunni og með lýðræðislegu aðhaldi. Það á jafnt við um velferðar- og menntakerfið, sem um aðra þætti, svo sem fjármálaþjónustu, samgöngur og fjarskipti.

Ályktun um auðlindir í almannaeigu
Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010 leggst eindregið gegn sölu eða langtímaframsali á orkuauðlindum og orkufyrirtækjum. Arður af auðlindum landsins á að renna til almennings, ekki til einkaaðila. Tryggja verður sameign þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar.


Nefnd um erlendar fjárfestingar verður að taka kaup Magma á HS-Orku aftur til umfjöllunar en málið var áður afgreitt út úr nefndinni í miklum ágreiningi. Fulltrúi VG í nefndinni taldi líkur á að samningurinn væri ólögmætur og að almenningur ætti að njóta vafans.
 

Til að tryggja yfirráð almennings yfir orkufyrirtækjum og vinda ofan af kaupum Magma á HS-Orku er mikilvægt að hér verði sett lög sem fela í sér óskoruð yfirráð hins opinbera á orkufyrirtækjum. Flokksráðsfundur brýnir ráðherra og þingmenn VG að hraða gerð slíks frumvarps og hvetur jafnframt til þess að gripið sé til allra ráða þannig að HS-Orka komist aftur í almenningseigu í samræmi við fyrri samþykktir flokksráðs og annarra stofnana flokksins. Þar á meðal verða eignarnámsaðgerðir ekki útilokaðar.

Skýrsla rannsóknarnefndar
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010, fagnar skýrslu rannsóknanefndar Alþingis um orsakir og aðdraganda falls íslensku bankanna. Skýrslan er þungur áfellisdómur yfir þeirri pólitísku hugmyndafræði sem réð ferð í íslensku samfélagi um langt árabil og því viðskiptalífi, stjórnsýslu og tíðaranda sem hún gat af sér. Vinstrihreyfingin – grænt framboð getur verið stolt af málatilbúnaði sínum og framgöngu í aðdraganda hrunsins, varnaðarorðum, tillöguflutningi og eigin fjármálareglum og upplýsingagjöf sem öðrum þykja nú eftirbreytni verðar. Eftir sem áður þurfa Vinstri græn að draga sína lærdóma af rannsóknarskýrslunni eins og allir aðrir og skoða það sem betur má fara í starfsháttum og vinnubrögðum.

Sú pólitíska ákvörðun sem tekin var um einkavæðingu bankanna reyndist stórskaðleg. Ákvörðun um helmingaskipti stjórnmálaflokka á ríkisbönkunum á þannig bersýnilega sinn ríka þátt í hvernig fór. Efnahagsstjórnin sem hér var rekin í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins var til þess fallin að veikja enn frekar undirstöður ríkisins, auka þenslu og draga mátt úr stjórnkerfinu. Þannig varð íslenska ríkið vanmáttugt til að bregðast við þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp frá því fyrir miðjan áratuginn og fram að hruni.

Mikilvægt er að samfélagið allt dragi lærdóm af því sem hér fór úrskeiðis. Þjóðmálaumræðan verður að vera móttækileg fyrir nýrri hugsun, nýjum gildum og rökstuddri gagnrýni. Allir þurfa að vera tilbúnir að líta í eigin barm og takast á við þá ábyrgð sem þeir bera sem þátttakendur í samfélagi.

Fyrir höndum er það vandasama en jafnframt eftirsóknarverða verkefni að byggja íslenskt samfélag upp. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er nú sem fyrr reiðubúin til að axla þá ábyrgð og endurmóta samfélagið á grunni félagslegra gilda, jafnréttis og heiðarleika.

Vinnulag innan flokksins
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010, beinir því til stjórnar VG að skipa starfshóp sem fer yfir almennt og sértækt vinnulag innan flokksins. Felur það í sér m.a. yfirferð á skipulagi flokksins, samskiptaleiðum, starfsemi svæðisfélaga og málefna. Þá skal hópurinn einnig huga að hvernig fjölga megi nýliðum, virkja félagsmenn enn frekar og vinna málstað vinstri grænna víðtækari stuðning. Starfshópurinn skal gera tillögur að úrbótum á starfi flokksins og fjalla um hvernig megi efla það til muna. Þá skal starfshópurinn kanna hvernig staðið er að kynningu á stefnu og starfsemi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og eftir atvikum leita leiða til þess að efla kynningu á stefnu flokksins. Skal starfshópurinn ekki einskorða könnun sína við kynningu kosningastefnuskrár heldur jafnframt með hvaða hætti stefnu vinstri grænna er unnið fylgi á milli kosninga.

Þá skal hann kanna kosti þess að innan flokksins sé starfandi kynningarnefnd (í nánu samstarfi við framkvæmdastýru/stjóra og stjórn) sem hafi það að markmiði sínu að koma málstað vinstri grænna að sem víðast. Starfshópurinn skal skila áfangaskýrslu fyrir næsta flokksráðsfund.

Ályktun um ákærur fyrir árás á Alþingi
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010, mótmælir harðlega ákærum á hendur níu mótmælendum fyrir að hafa 8. desember 2008 rofið friðhelgi og fundarfrið Alþingis (sbr. 100. gr. og 122. gr. almennra hegningarlaga) og einnig ákærum um húsbrot (sbr. 231. gr. sömu laga).

Í dómsmálinu sem hér um ræðir er kært fyrir árás á Alþingi. Það er ákvæði sem hefur aðeins einu sinni verið virkjað – í kjölfar mótmæla vegna inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 30. mars 1949. Þann dag kröfðust mótmælendur og verkalýðsfélögin í Reykjavík þess að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Til átaka kom við Alþingishúsið og í kjölfarið var hópur manna dæmdur til harðra refsinga á óljósum grundvelli. Menn í hópnum misstu til að mynda kosningarétt og kjörgengi svo árum skipti, auk þess sem margir hlutu fangelsisdóma.

Dómarnir yfir mótmælendunum 30. mars 1949 voru slæmir að öllu leyti. Þeir voru almennt álitnir pólitískir og gerðu því það eitt að draga úr tiltrú hluta fólks á réttarkerfinu sem hlutlausri stofnun. Þá, líkt og nú, leit enginn mótmælenda svo á að um væri að ræða árás á þingið – þvert á móti töldu báðir hópar sig vera að verja þingið.

Skipan dómara
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010, fagnar nýjum lögum um skipan dómara. Lögin eru mikilvægur áfangi til að koma í veg fyrir þá pólitísku spillingu sem hefur einkennt skipan dómara við íslenska dómstóla.

Flokkráð væntir þess að með nýskipan þessara mála verði fagleg sjónarmið, reynsla og þekking látin ráða við val á dómurum og að sú skipan muni styrkja íslenskt réttarfar og auka tiltrú almennings á því. Flokksráð minnir á að hlutföll kynja á meðal dómara á báðum dómstigum eru mjög skökk og væntir þess að þau verði jöfnuð með nýjum vinnubrögðum.

Stjórnmálasamband við Ísrael
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010, hvetur íslensk stjórnvöld til að undirbúa slit á stjórnmálasambandi við Ísrael.

Í allt of langan tíma hefur alþjóðasamfélagið horft aðgerðalaust á skelfilega og ómannúðlega meðferð Ísraelsstjórnar á palestínsku þjóðinni. Ofan á allar þær hörmungar sem Ísraelsstjórn hefur lagt á palestínsku þjóðina í gegnum tíðina hefur hún nú haldið 1,5 milljón Palestínumanna í herkví á Gasasvæðinu og takmarkað allan inn- og útflutning nema á helstu nauðþurftum í þrjú ár. Afleiðingar þessa eru skelfilegar og hefur lífskilyrðum á svæðinu, sem ekki voru góð fyrir, hrakað gríðarlega. Ísraelsstjórn hefur engan vilja sýnt til þess að láta af umsátrinu og undirstrikaði þann ásetning sinn með árás á skipalest sem reyndi að flytja hjálpargögn á svæðið fram hjá herkvínni.

Alþjóðasamfélagið getur ekki setið aðgerðarlaust gagnvart þessu ofbeldi Ísraelsstjórnar lengur. Íslensk stjórnvöld geta stigið fyrsta skrefið með því að slíta stjórnmálasambandi sínu við Ísrael og hvetja önnur ríki til að gera slíkt hið sama.

Friður og afvopnun
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010, fagnar þeirri ákvörðun Alþingis að leggja niður Varnarmálastofnun. Vinstri græn mæltu á sínum tíma gegn því að stofnuninni væri komið á laggirnar og bentu á að verkefni hennar væru ýmist tilgangslaus, skaðleg eða betur komin í höndum borgaralegra stofnanna.

Fundurinn minnir á að lítið gagn er í að leggja niður stofnanir ef starfsemi þeirra heldur óbreytt áfram undir öðrum hatti. Íslendingar eru vopnlaus þjóð og eiga ekki að standa í hernaðarstarfsemi af neinu tagi, þar með talið að hýsa, skipuleggja eða þjónusta heræfingar annarra ríkja.
Flokksráðið minnir á ákvæði stjórnarsáttmálans um að Ísland skuli tala máli friðar og afvopnunar í heiminum.

Jafnframt hvetur fundurinn ríkisstjórnarflokkana til að hrinda hið fyrsta í framkvæmd friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum, líkt og gert er ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum.

  

Málsmeðferðartillaga um ESB
Flokksráðsfundur VG samþykkir að vísa tillögu um að aðildarumsókn að Evrópusambandinu til málefnaþings, sem haldið verður á haustmánuðum.


Forsendur ESB umsóknar eru breyttar og í því ljósi er mikilvægt að málið verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Jafnframt felur flokksráð stjórn flokksins að skipa hið fyrsta undirbúningshóp til að halda utan um meðferð málsins fram að málefnaþinginu vegna fyrirhugaðs málefnaþings.


Flokksráð ítrekar andstöðu VG við aðild að Evrópusambandinu og vísar til fyrri samþykkta í þeim efnum.

 

Nýting sjávarauðlinda
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010, áréttar stefnumið hreyfingarinnar og ríkisstjórnar Íslands, að:
„Íslendingar áskilja sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala, verði endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands.“

Flokksráðsfundurinn bendir á að hvalaskoðun hefur unnið sér sess sem mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu og fyrir ímynd landsins. Ennfremur, er nauðsynlegt að allar upplýsingar um efnahagslegar forsendur hvalveiða og hvalaskoðunar liggi fyrir þegar frumvarp um hvali verður lagt fyrir Alþingi á ný.

Ályktun um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík dagana 25.-26. júní 2010, skorar á ríkisstjórnina að leggja fram efnahagsáætlun sem tryggir félagslegan jöfnuð, efnahagslegan stöðugleika, forræði þjóðarinnar yfir auðlindum landsins og sjálfbæran vöxt efnahagslífsins. Í efnahagsáætluninni eiga m.a. að koma fram aðgerðir sem leysa þjóðina undan samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og fljótt og auðið er.

Ályktun um hjúskaparlög
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010, fagnar hjúskaparlögum sem taka gildi 27. júní 2010. Eftir áralanga baráttu hefur loks tekist að fá samþykkt ein hjúskaparlög í landinu. Íslendingar eiga að vera í fremstu röð í mannréttindamálum, þar með talið þegar kemur jöfnum rétti og jafnri stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra.

Orkuveita Reykjavíkur
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 25.-26. júní 2010, mótmælir harðlega þeirri ákvörðun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur að ráða stjórnarformann Orkuveitu Reykjavíkur í fullt starf og gera hann þannig að hluta af daglegri yfirstjórn yfir rekstri hennar. Ákvörðunin dregur úr lýðræðislegu eftirliti með rekstri fyrirtækisins og sýnir að meirihluti borgarstjórnar hefur ekkert lært á þeim ósköpum sem gengið hafa yfir íslenskt samfélag á undanförnum árum.

Þessi ráðstöfun er fordæmalaus í íslenskum almenningsfyrirtækjum og í miklu ósamræmi við það lýðræðislega eftirlitshlutverk sem stjórnarformanni eins og stjórninni allri ber að sinna gagnvart stjórnendum Orkuveitunnar í þágu almennings. Reynsla undanfarinna ára hefur leitt í ljós að óskýr mörk milli stjórnar og fyrirtækja og stjórnenda leiða ekki til góðs.

Má geta þess að með nýsamþykktum lögum um fjármálafyrirtæki eru starfandi stjórnarformenn bannaðir. Er það gert til þess að herða á eftirlitsskyldu og ábyrgð stjórna fjármálafyrirtækja. Það forkastanlegt að þegar slíkt framfaraskref er tekið í lagumhverfi fjármálafyrirtækja skuli lýðræðislega kjörnir fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur ákveða að færa stjórnarfyrirkomulag stærsta almenningsfyrirtækis landsins til þess sem reyndist jafn illa og raun ber vitni í hinum hrundu fjármálafyrirtækjum.

Í kjölfar efnahagshrunsins hefur starfsfólki borgarinnar fækkað, laun hafa lækkað og álag á hvern og einn hefur aukist til muna. Það eru því kaldar kveðjur sem nýr meirihluti í borgarstjórn ákveður að senda með ákvörðunum um að fjölga um einn hálaunaðan starfsmann í annars fjölmennri yfirstjórn Orkuveitunnar.

Ályktun um stjórnlagaþing
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í júní 2010 fagnar væntanlegu stjórnlagaþingi og bindur vonir við að breytt stjórnskipan muni treysta innviði íslensks samfélags, leiða til betra stjórnarfars, efla lýðræði og mannréttindi og tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum hennar.

 

 

Þar sem engin ályktun er um landbúnað, fylgir hér með Landbúnaðarstefna VG eins og hún er kynnt á vef flokksins.

 

Landbúnaðarstefna VG

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lítur svo á að kraftmikill landbúnaður sé nauðsynlegur til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Einnig er landbúnaðurinn brýnt samfélags- og umhverfismál. Framtíð þessa atvinnuvegar á Íslandi veltur á því að víðtæk sátt ríki um starfsskilyrði landbúnaðarins og það fjölþætta hlutverk sem hann gegnir í landinu, þar á meðal að framleiða holl matvæli á viðráðanlegu verði, treysta búsetu í dreifbýli, viðhalda umhverfisgæðum, tryggja fæðu- og matvælaöryggi, styðja ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar.

 

Stefna skal að sjálfbærni landbúnaðar á Íslandi. Framleiða skal innanlands eins og kostur er það eldsneyti og þau áburðarefni sem nauðsynleg eru við matvælaframleiðslu þjóðarinnar.

 

Stefna skal að því að fæðuöryggi þjóðarinnar verði með þeim hætti að framleitt verði það mikið af matvöru í landinu að sú framleiðsla nægi til þess að sjá landinu farborða hvað fæðu varðar.

 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að landbúnaðurinn og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun þannig að vistvænir búskaparhættir og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi. Fjölskyldubúið verði áfram sú framleiðslueining sem halda skal í heiðri og stuðningskerfi landbúnaðarins verði skipulagt út frá þeirri einingu.

 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir eindregnum vilja til að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði, m.a. með lánasjóði til handa nýliða í greininni til jarðakaupa, og hindra að verslun með bújarðir hnekki byggð í sveitum landsins. Brýnt er að endurskoða jarðalög með þetta í huga og tryggja að eignarhaldi á jörðum fylgi bæði réttindi og skyldur gagnvart umhverfi og samfélagi.

 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill beita sér fyrir lagasetningu um hámarkshlut einstakra aðila af heildarframleiðslurétti eða –magni innan hverrar búgreinar. Í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu verði miðað við 1% af heildargreiðslumarki. Jafnframt verði réttur til framleiðslustuðnings bundinn við búsetu á lögbýlum en ekki aðeins eignarhald.

 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir vilja sínum til að stuðla að upplýstri og sanngjarnri umræðu um matvælaframleiðslu og matarverð á Íslandi.

 

Aðgerðir í landbúnaðarmálum:

 • Vexti verður að lækka án tafar.
 • Stefnt verði að byggingu áburðarverksmiðju hið fyrsta.
 • Auka þarf kornbirgðir landsins og stefnt skal að byggingu birgðastöðva fyrir korn.
 • Efla skal rannsóknir og þróun á hveitirækt á Íslandi og stefna að því að landið verði sjálfbært hvað hveiti varðar eins skjótt og auðið er.
 • Raforkukostnaður í dreifbýli verður að lækka til jafns við það sem gerist í þéttbýli.
 • Tryggja verður afhendingaröryggi rafmagns og ríkið skal koma að 3 fösunar átaki þannig að iðnaður í hinum dreifðu byggðum standi jafnfætis öðrum svæðum.
 • Efla skal rannsóknir á sjálfbærum orkugjöfum til landbúnaðarnotkunar og stefna að nýtingu þeirra hið fyrsta.
 • Koma skal í veg fyrir sjálfskipaðan rétt verslana til þess að skila ferskri kjötvöru aftur til afurðastöðva. Beita skal lagasetningu ef með þarf.
 • Allar landbúnaðarafurðir verði upprunamerktar og auðkenndar með tilliti til framleiðslulands, bæði íslenskar og innfluttar.
 • Að rannsakað verði hvort hægt sé að nýta úrgang annarra atvinnugreina til áburðargerðar t.d. úrgang frá fiskiskipaflotanum. Að sama skapi verði skoðaðir möguleikar á nýtingu annarra hráefna til áburðarframleiðslu.
 • Gera reglur um fullvinnslu afurða þannig úr garði að heimaunnin matvæli verði raunhæfur kostur þeirra bænda sem kjósa að selja sína vöru sjálfir
 • Að hugað verði að landnýtingu og reynt að tryggja í almennu skipulagi að ræktarland fari ekki undir aðra starfsemi en landbúnaðarframleiðslu.
 • Að kortlagt verði með skipulögðum hætti hvernig Ísland getur reitt sig á innlenda matvælaframleiðslu með umfangsmeiri hætti en nú er. Sérstaklega þarf að vera tryggt að fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar verði tryggt.
 • Efla stuðning við lífrænan búskap, til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, og styrkja rannsóknir á því sviði
 • Stuðla að aukinni þátttöku bænda í landgræðslu, skjólbeltarækt og skógrækt.
 • Tryggja fullnægjandi merkingar á afurðum og aðföngum, innlendum jafnt sem innfluttum, m.t.t. notkunar erfðabreyttra lífvera við framleiðsluna.
 • Endurskoða löggjöf um dýravernd á heildstæðan hátt.
 • Að eftirlits- og leyfisgjöld í landbúnaði verði lækkuð þannig að þau endurspegli raunverulegan kostnað vegna slíkrar starfsemi í þeim mæli sem hennar er þörf
 • Að bændur verði aðstoðaðir að virkja metan til notkunar í vélakost sinn
 • Grípa þarf til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að áburðarnotkun dragist saman með tilheyrandi framleiðslusamdrætti.