
Deildafundir 2025 – Fréttaveita
28.02.2025
Deildafundir 2025 eru hafnir hér á Hilton Nordica Hótelinu við Suðurlandsbraut. Fulltrúar búgreina streyma að og eru byrjaðir að koma sér fyrir á meðan nefndir og stjórnir leggja lokahönd á fundargögn sem unnið verður með í dag.
Í þessari fréttaveitu munum við segja frá því helsta sem stendur upp úr frá deginum hérna á deildafundum búgreina. Fylgstu með til að sjá aðalatriði Deildafundanna 2025.
Deildirnar funda eftir því sem hér segir:
- Loðdýrabændur 13:00
- Hrossabændur 12:30
- Eggjabændur 11:00
- Alifuglabændur 11:00
- Garðyrkjubændur 11:00
- Skógarbændur 11:00
- Nautgripabændur 11:00
- Landeldisbændur 9:30
- Geitfjárbændur 13:00
- Svínabændur 10:00
- Sauðfjárbændur 11:00
14:30
Deildir sauðfjár- og nautgripabænda slíta sínum fundum
Og þar með er Deildafundum búgreina 2025 slitið. Við þökkum öllum fulltrúum sem mættu á fundina í ár og lögðu sitt að mörkum í hagsmunabaráttu íslenskra bænda.
Takk fyrir samfylgdina.
13:30
Kosið hefur verið í stjórn nautgripabænda.
Stjórn Nautgripabænda: Reynir Þór Jónsson Sigurbjörg Ottesen Jón Örn Ólafsson Sigrún Hanna Sigurðardóttir
Bessi Freyr Vésteinsson hættir störfum en hann hefur starfað í stjórn síðan 2016. Er honum sérstaklega þakkað fyrir vel unnin störf undanfarin ár
Varastjórn:
- 1. varamaður: Erla Rún Guðmundsdóttir
- 2. varamaður: Atli Már Traustason
- 3. varamaður: Davíð Logi Jónsson
Rafn Bergsson er áfram formaður deildarinnar þar sem hann var kjörinn til tveggja ára á síðasta deildarfundi.

11:30
Hafdís Sturlaugsdóttir hættir í stjórn deildar sauðfjárbænda.
Þökkum henni fyrir vel unnin störf.

11:30
Kosið hefur verið í stjórn sauðfjárbænda.
Formaður: Eyjólfur Ingvi Bjarnason,
Meðstjórnendur: Ásta Fönn Flosadóttir, Birgir Þór haraldsson, Magnús Helgi Loftsson, Sigurborg Hanna Sigurðardóttir
Varamenn: Sigríður Ólafsdóttir, Sveinn Úlfarsson, Jónmundur Magnús Guðmundsson
08:30
Bændur hefja störf á ný.
Nautgripabændur og sauðfjárbændur eru mættir aftur eftir góða kvöldstund saman í gær og eru nú tilbúnir að klára afgreiðslu mála sem og kjör á búnaðarþingsfulltrúum. Aðrar deildir luku sínum störfum í gær.
Svipmyndir frá fyrri degi Deildafunda.
17:00
Kosið var í stjórn deildar hrossabænda.
Formaður: Nanna Jónsdóttir, Guðný Helga Björnsdóttir, Jón Vilmundarson, Ólafur Sigurgeirsson, Agnar Þór Magnússon
Varamenn: Sonja Líndal Þórisdóttir, Þórdís Ingunn Björnsdóttir, Ragnhildur Loftsdóttir.
16:30
Hákon á Svertingsstöðum er nýr formaður deildar geitfjárbænda.
Hákon tekur við af Brynjari í Gilhaga sem hefur unnið góð störf fyrir deildina undanfarin ár. Við þökkum honum kærlega fyrir sitt framlag og tökum vel á móti Hákoni.

15:50
Birkir Ármansson hættir sem varamaður í stjórn deildar garðyrkjubænda
Birkir, kartöflubóndi í Þykkvabæ, hefur látið af störfum sem varamaður í stjórn hjá garðyrkjubændum. Hann tók virkan þátt í félagsstarfi garðyrkjubænda og við þökkum honum kærlega fyrir vel unnin störf.

Sérfræðingar Bændasamtakanna kynna LVL og nýjar leiðir til að reikna félagsgjöld.
Loftslagsvegvísir bænda er tekinn til umræðu á öllum deildafundum þetta árið þar sem markmiðið er að fulltrúar kynni sér málið og skili inn athugasemdum áður en hann verður tekinn fyrir á Búnaðarþingi.
Unnið er að nýjum grunni til að reikna félagsgjöld í Bændasamtökin. Markmiðið með þesssari vinnu er að finna skilvirkari leið til að reikna félagsgjöld og í leiðinni styrkja gagnagrunn bænda í sínum búrekstri.

15:35
Steinþór Logi Arnarsson skrifar pistil á vísi.is
Steinþór, sem er bóndi í Dalasýslu og formaður ungra bænda, skrifaði pistil um efnahagslegan veruleika bænda á Íslandi og hvernig hlutfall á milli innlendrar framleiðslu og innfluttning á matvælum er að breytast.
Þar skrifar hann:
Það þykir eflaust í huga margra rómantískur blær yfir því að vera bóndi. Umvafinn náttúru, dýrum og sveitamenningu. Vinnan er erfið, í raun endalaus og kaupið er lágt sem ekkert en lífið er of stutt til að gera ekki það sem maður lifir fyrir, þannig sagði bóndi einn eitt sinn:
„Ég sé engan skaða í því, þó ekki hafi allir allt til alls, því einu mennirnir á Íslandi sem eitthvert frelsi býr í ennþá eru fátækir bændur. Ríkir menn eru aldrei frjálsir því þeir verða þrælar eigna sinna."

14:05
Fulltrúafjöldi
| Búgrein | Fjöldi fulltrúa |
|---|---|
| Hrossabændur | 25 |
| Geitfjárbændur | 6 |
| Sauðfjárbændur | 49 |
| Landeldisbændur | 5 |
| Svínabændur | 8 |
| Loðdýrabændur | 10 |
| Garðyrkjubændur | 15 |
| Alifuglabændur | 3 |
| Nautgripabændur | 39 |
| Skógarbændur | 27 |
| Eggjabændur | 3 |
14:00
Nokkrar myndir úr fundarsölum






13:15
Fundir halda áfram
Eftir góðan hádegisverð snúa fulltrúar aftur til fundarstarfa hjá sínum deildum.
12:00
Hádegishlé
Nú fara fulltrúar í hádegismat þar sem boðið er upp á fjölbreytt hádegishlaðborð með íslenskum matvælum.



11:00
Fundi landeldisdeildar hefur verið slitið.
"Landeldi er búgrein í uppbyggingu og leggja landeldisbændur áherslu á að sanngirni ráði ríkjum í opinberum gjöldum og skattheimtu. Þar er sérstaklega verið að horfa til fasteignagjalda en það ríkir óvissa um hvernig ýmsir innviðir verði skilgreindir og hvernig fasteignagjöld verða lögð á. Þá eru úrgangsmál stórt viðfangsefni í greininni en þar þarf að setja upp heildræna nálgun utan um þau fyrir landeldið sem er ekki íþyngjandi fyrir uppbygginginu greinarinnar. Þá þarf að horfa til jafnræðis við aðrar atvinnugreinar."








































