Beint í efni

Bændur þurfa meirapróf til að mega aka dráttarvél nái breytingarnar fram að ganga

16.10.2025

Bændasamtökin hafa nú veitt umsögn varðandi drög á breytingu á reglugerð um ökuskírteini. Með vísan til boðaðra breytinga er ljóst að bændur og aðrir þeir sem starfa við landbúnað nú þegar, og þeir sem munu starfa eða nema við hann í framtíðinni, þurfa að taka meirapróf. Með öðrum orðum – bændur munu þurfa meirapróf til að aka dráttarvélum nái breytingarnar fram að ganga.

Til að öðlast meiraprófsréttindin þarf bæði bóklegt nám og verklegt. Bóklega námið tæki frá 62 klst. til 82 klst., allt eftir flokkum, og verklega námið væri frá 10 klst. til 19 klst.  Samtals myndi því skyldunámið til að öðlast meirapróf taka frá 72 klst. upp í 99 klst. Þá getur beinn kostnaður til að afla réttindanna numið allt að 700.000 kr.

Auk kostnaðarins við öflun réttindanna hjá viðurkenndum ökuskóla fellur annar kostnaður beint á bændur umfram aðrar atvinnugreinar. Til að setja þetta í samhengi og miðað við að almenn dagvinna án neysluhléa sé 37,5 klst. á viku, og vitanlega er ekki tekið tillit til vinnutímastyttingar enda er ógerningur að hennar sé notið við meðal bænda, þá tæki námið alls tæplega tvær til þrjár vikur. Þannig er óumflýjanlegt að bændur þurfi að fá afleysingu í sínum bústörfum fyrir þann tíma er færi í skyldutíma námsins og slíkur kostnaður getur numið verulegum fjárhæðum. 

Verði drögin samþykkt mun frumnámskeið til vinnuvélaréttinda ekki nægja nemendum sem eru við það að hefja verknám í búfræði. Þá geta nemendur ekki hafið verknám fyrr en ýmist við 18 ára eða 21 árs aldur – í stað 16 ára aldurs eins og núverandi reglur kveða á um.

Breytingarnar kveða því á um verulega íþyngjandi kostnað fyrir þá sem starfa eða nema við landbúnað. Bændasamtök Íslands mótmæla boðuðum breytinga harðlega í umsögn.