Beint í efni

Ávörp gesta á aðalfundi LK

21.08.2001

Á aðalfundi LK í dag fluttu eftirtaldir ávörp: Magnús B. Jónsson, rektor Landbúnaðarháskólans, Bjarni Guðmundsson, formaður Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri landbúnaðarráðuneytisins og Ari Teitsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

          Magnús B. Jónsson, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

             Þakkaði boðið á fundinn og samstarfið við LK á liðnu ári. Samstarf Landbúnaðarháskólans og LK er nú orðið ennþá nánara við flutning skrifstofu sambandsins upp á Hvanneyri. Fagmenntun í nautgriparækt er í verkahring Landbúnaðarháskólans og LK hefur sýnt starfi skólans mikinn áhuga. Markviss fagmenntun er lykilatriði til þess að landbúnaðurinn fái staðist samkeppni í nútíma atvinnurekstri. Hún eykur mönnum víðsýni og framsýni til að leita nýrra tækifæra í því umhverfi sem samfélagið skapar atvinnurekstrinum á hverjum tíma.  Landbúnaðarháskólinn gerir sitt ítrasta til þess að þeir nemendur sem þar nema öðlist með menntun sinni verkfæri sem nýtist þeim í búskap sínum.  Í þessari viðleitni sinni hefur skólinn lagt áherslu á að byggt verði nýtt og fullkomið kennslu- og rannsóknafjós á Hvanneyri. Náin tengsl þurfa að vera á milli rannsókna og kennslu, en við núverandi aðstæður á Hvanneyri er erfitt fyrir skólann að uppfylla kröfurnar um rannsóknir í nautgriparæktinni. LK hefur stutt þessi áform skólans í hvívetna. Samkvæmt verkaskiptasamningi milli stofnana landbúnaðarins er Landbúnaðarháskólanum falið stórt hlutverk í rannsóknum bæði á sviði sauðfjárræktar og nautgriparæktar. Að síðustu óskaði hann aðalfundinum velfarnaðar í störfum.

 

          Ávarp Bjarna Guðmundssonar, formanns stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

             Þakkaði boðið á fundinn og samstarfið á liðnu ári. Hann fjallaði síðan um megin hlutverk Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, þ.e. að vinna að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í íslenskum landbúnaði. Sjóðurinn hefur lagt talsverða fjármuni til hliðar vegna þróunarverkefna, t.a.m. fær nautgriparæktin u.þ.b. kr. 14 milljónir til slíkra verkefna á þessu ári. Í þeim efnum  ber samanburðartilraunina hæst, en sjóðurinn hefur þegar lagt fram umbeðna fjármuni vegna  hennar, og einnig bygging kennslu- og rannsóknarfjóss á Hvanneyri, en sjóðsstjórnin hefur þegar samþykkt að veita til hennar kr. 25 milljónum. Hann fjallaði einnig um samstarf sjóðsins við Rannís um ýmis verkefni sem tengd eru nautgriparæktinni, en til þeirra hefur verið varið u.þ.b. kr. 10 milljónum á ári. Að öðru leyti vísaði han til skýrslu stjórnar Framleiðnisjóðs um ráðstöfun fjármuna. Ýmis önnur verkefni sem sjóðurinn styrkir koma kúabændum til góða, t.d. ýmis rannsóknar- og þróunarverkefni í sambandi við fóðuröflun o.fl. Að síðustu þakkaði hann gott samstarf og óskaði fundinum heilla í störfum sínum.

 

          Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri landbúnaðarráðuneytisins.

             Flutti kveðjur landbúnaðarráðherra, sem átti ekki heimangengt vegna ríkisstjórnarfundar, en þar átti m.a. á að ræða vanda búfjárslátrunar. Guðmundur kvað ýmis vandasöm mál liggja fyrir aðalfundinum að þessu sinni. Hann nefndi verðlagsmál nautgriparæktarinnar og greiðslumark, en það hefur nú verið aukið um eina milljón lítra á árinu. Mjög hraður vöxtur hefur verið í kaupgetu landsmanna sem hefur leitt til aukningar í neyslu mjólkur, þrátt fyrir verulega aukningu í innflutningi unninna mjólkurafurða. Stórverslanir hafa vaxandi áhuga á að ná til sín tollkvótum í innflutningi mjólkurvara. Athugun á frjálsri verðmyndun heildsöluverðs mjólkur, sem á að komast á í ár samkvæmt ákvæðum búvörusamnings, er enn ekki lokið. Verðlagsnefnd búvara er nú að láta vinna skýrslu um rekstrarafkomu einstakra mjólkurbúa. Nýr verðlagsgrundvöllur tók gildi 1. janúar sl., en samkvæmt honum hefur hæfileg stærð grundvallarbús verið tvöfölduð frá því sem áður var. Það er mikið áhyggjuefni hversu gífurlega mikinn kostnaðarauka  tæknivæðing í landbúnaði hefur í  för með sér. Vextir og hátt verðlag mjólkurkvóta eru erfiður ljár í þúfu mjólkurframleiðenda og leita verður allra leiða til þess að ná þeim kostnaðarþáttum niður. Landbúnaðarráðherra hefur veitt LK heimild til samanburðarrannsóknar til þess að kanna getu og hæfni íslenska kúastofnsins, en það er félagsleg ákvörðun kúabænda sjálfra hvernig því máli vindur fram. Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi teygir sig í vaxandi mæli til Íslands og mjólkurframleiðendur verða að búa sig undir vaxandi samkeppni, en það gera þeir best með því að leggja áherslu á gæði framleiðslunnar. Að síðustu óskaði hann fundinum velfarnaðar í störfum.

 

          Ávarp Ara Teitssonar, formanns Bændasamtaka Íslands.

             Þakkaði boðið og gott samstarf á liðnu ári. Útlitið er nokkuð bjart, aukning hefur orðið í sölu mjólkurvara, aukinn skilningur á gildi íslensks landbúnaðar og tíðarfar hefur verið bændum hagstætt að undanförnu. Þetta eykur okkur bjartsýni á framtíðina, en það eru enn mörg ljón í veginum. Fagstarfið og fagþjónustan hefur ekki náð að þróast nægilega hratt, en ýmsu hefur þar miðað vel áfram.  Svo virðist sem kúabændur séu sáttir við nýja nautgriparæktarforritið,  Ískúnna, en í því ætti að geta falist grunnurinn í fagstarfi nautgriparæktarinnar til framtíðar.  Vonandi næst að þróa forritið til að það geti staðið undir þeim væntingum. Styrking leiðbeiningaþjónustunnar fellst m.a. í samruna eininga og á þeim vettvangi miðar í rétta átt þótt ýmsum þyki fullhægt farið. Flestum bændum standa nú til boða sérhæfðar rekstrarleiðbeiningar, en þar riðu sunnlendingar á vaðið með Sunnuverkefninu, en nú er unnið að slíkum verkefnum í flestum héruðum landsins, eins og gert var ráð fyrir í búnaðarsamningi.  Samvinna RALA og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri hefur aukist og styrkst verulega á liðnu ári, en það styrkir allt fagstarf í landbúnaðinum. Landbúnaðarráðherra heimilaði á síðasta ári innflutning á nýju kúakyni til samanburðarrannsókna, en ákveðið var að fresta innflutningnum sl. vetur vegna þess að BÍ og LK skynjuðu að við þær aðstæður sem uppi voru, s.s. vegna búfjársjúkdóma í Evrópu o.fl., væri ekki skynsamlegt að halda óbreyttri innflutningsáætlun.  Ekki hefur hins vegar verið ákveðið að hætta alveg við að gera slíka tilraun því þörfin verður vissulega áfram fyrir hendi. Þá fjallaði hann um störf verðlagsnefndar og kvað margar blikur vera á lofti á þeim vettvangi. Afkomutölur í mjólkurframleiðslunni bera það með sér að tekjur kúabænda hækkuðu um 17% á sl. ári, en þrátt fyrir það hefur launagreiðslugetan ekki hækkað, heldur hefur tekjuaukningin að mestu farið í vexti og afskriftir. Segja má að við verðlagningu á mjólkurafurðum sé um þrjár leiðir að velja, þ.e. a) opinbera verðlagningu, þar sem fulltrúar neytenda og ríkisvaldið ráða að mestu ferðinni, en hún er nú að renna sitt skeið og verður vart endurvakin. b) Óheft innlend samkeppni sé látin ráða verðinu, en verðlagsyfirvöld telja það hina einu réttu leið þar sem samkeppnislög gildi um mjólkurframleiðsluna, en sú leið er illframkvæmanleg ef halda á óbreyttu því kerfi sem viðgengist hefur við skipulagningu mjólkurframleiðslunnar. c) Stjórna verðinu á íslenskri mjólkurframleiðslu með innflutningi, en ekki er ólíklegt að sú leið verði ofan á. Við verðum hins vegar að horfast í augu við það að enginn þessara leiða eru án annmarka.  Finna verður leið sem er líkleg til að skapa bændum nægar tekjur og viðunandi rekstrarumhverfi á næstu árum. Þá fjallaði hann um þá umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið og taldi það vera framtíðarverkefni BÍ að vinna ötullega gegn öllum slíkum hugmyndum. Líklega kæmi það íslenskri mjólkurframleiðslu einna verst ef að af inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði. Að undanförnu hefur mismunur í aðstöðu kúabænda eftir landshlutum stöðugt verið að aukast, bæði hvað varðar afurðaverð, auk þess sem arðgreiðslur eru að festast í sessi á sumum svæðum en ekki öðrum, og nú á síðustu mánuðum eru vaxandi landshlutabundnir erfiðleikar í búfjárslátruninni. Að síðustu fjallaði hann um hið góða samstarf sem BÍ hefði átt við samtök bænda á hinum norðurlöndunum á undanförnum árum, ekki síst Norðmenn og Dani. Norðmenn eru nú að kynna sína framtíðarstefnu og vinnuferli til næstu fimm ára, en þar leggja þeir höfuðáherslu á að bændur standi saman um sín félög, jafnt á félagslega sviðinu og afurðasviðinu. Ennfremur að opin, málefnaleg og sanngjörn umræða um málefni landbúnaðarins sé stöðugt í gangi.  Kvaðst hann vonast til þess að þannig yrði umræðan á þeim aðalfundi LK sem nú væri að hefjast.