Beint í efni

Ársfundur BÍ verður haldinn 15. mars

25.02.2019

Ársfundur Bændasamtaka Íslands verður haldinn á Hótel Örk í Hveragerði föstudaginn 15. mars nk.

Í kjölfar fundarins verður haldin ráðstefna þar sem meðal annars verður fjallað um sérstöðu íslensks landbúnaðar, smitsjúkdóma og sýklalyfjaónæmi, lífræna ræktun og nýsköpun til sveita. Um kvöldið verður haldin bændahátíð þar sem íslenskar búvörur verða í öndvegi og dansað fram á nótt.

Þetta er í annað sinn sem ársfundur BÍ er haldinn með þessu sniði. Búnaðarþing er haldið á tveggja ára fresti en ársfundur þess á milli. Dagskráin er á þá leið að fyrir hádegi eru hefðbundin aðalfundarstörf en eftir hádegi er blásið til opinnar ráðstefnu milli kl. 13–16. Markhópurinn er fyrst og fremst bændur en allt áhugafólk um landbúnað er hjartanlega velkomið.

Meðal þeirra sem halda erindi eru Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði og Eygló Björk Ólafsdóttir, formaður VOR, hagsmunafélags framleiðenda sem stunda lífræna ræktun. Þá verður fjallað um viðhorf til landbúnaðar og upplýsingagjöf til neytenda. Tveir bændur sem eru framarlega í nýsköpun segja frá sinni starfsemi, þau Örn Karlsson á Sandhóli og Hulda Brynjólfsdóttir í Lækjartúni. Örn hefur markaðssett repjuolíu og hafra sem hafa slegið í gegn í verslunum en Hulda rekur smáspunaverkmiðjuna Uppspuna sem hefur vakið mikla athygli fyrir framleiðslu á garni. Oddný Anna Björnsdóttir bóndi og verkefnastjóri segir frá þróun REKO á Íslandi, milliliðalausum viðskiptum með mat.

Hægt er að skrá sig fyrir miðum á bænda­hátíðina með því að fylla út eyðublað hér undir. Verð fyrir félagsmenn BÍ er kr. 8.900- Fullt verð kr. 11.900