Beint í efni

Ár Drekans gott fyrir mjólkurframleiðsluna!

10.11.2012

Þó svo að Kínverjar noti núorðið gregoríska tímatalið, rétt eins og flestir aðrir, þá eiga þeir enn að og nota sitt gamla tímatal einnig – þó svo að það sé meira til hátíðarbrigða. Kínverska tímatalið er sk. sólbundið tungltímatal sem tekur mið af gangi bæði sólar og tungls. Í því eru í einum mánuði einungis þrjár vikur en hver þeirra 10 dagar að lengd. Dagatalið er svo með 12 mánuði og árið því aðeins 360 daga. Í kínverska tímatalinu hafa árin dýraheiti sem ganga í tólf ára hring, en árin eru þannig: ár rottunnar, nautsins, tígursins, kanínunnar, drekans, slöngunnar, hestsins, hrútsins, apans, hanans, hundsins og svínsins.

 

Mikil hjátrú er tengd þessu gamla tímatali og er það oft notað til þess að stjórna ákvörðunum fólks s.s. hvenær heppilegt sé að gifta sig eða t.d. að taka í notkun nýja byggingu. Í ár, og fram til 9. febrúar á næsta ári, er ár Drekans. Það þykir afar gott barneignaár og segir hjátrúin að þeir sem fæðast á ári Drekans nái betri árangri en þeir sem fæddir eru á öðrum tíma og er þá komið að kjarna þessarar umfjöllunar.

 

Nú virðist sem mikil aukning eigi sér stað í barneignum í Kína! Þannig greina yfirvöld frá því að 5% aukning hafi átt sér stað í fjölda barneigna í ár og munar um minna en árlega fæðast um 16,4 milljónir barna í Kína en útlit er fyrir að í ár verði fjöldinn 17,2 milljónir. Þessi mikli fjöldi kallar á stóraukna sölu á barnamjólk og barnamat og hefur innflutningur á mjólkurdufti til landsins í ár verið 414.000 tonn (til ágústloka) sem er aukning um 20% frá fyrra ári. Næsta Drekaár hefst svo 10. febrúar 2024/SS.