Beint í efni

Sleipnisbikarinn nú varðveittur á Hólum

28.10.2022

Í dag undirrituðu Bændasamtök Íslands og Háskólinn á Hólum með sér samkomulag um varðveislu þess síðarnefndar á Sleipnisbikarnum við hátíðlega athöfn á Hólum.

Sleipnisbikarinn er æðsta viðurkenning sem veitt er í hrossarækt en bikarinn hlýtur sá stóðhestur sem efstur stendur í heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi á landsmóti. Bikarinn verður áfram í eigu Bændasamtaka Íslands en kemur það í hlut Háskólans á Hólum að varðveita bikarinn milli landsmóta. Bikarinn kemur til með að verða varðveittur í sýningarsal Söguseturs íslenska hestsins á Hólum þar sem nú er uppi sýningin „uppruni kostanna“. Þannig geta nemendur, kennarar sem og annað áhugafólk um hrossarækt borið gripinn augum þegar það heimsækir Hóla.

Rektor Háskólans á Hólum, Hólmfríður Sveinsdóttir og formaður Bændasamtaka Íslands, Gunnar Þorgeirsson fóru með stutt ávörp um sögu Sleipnisbikarsins áður en samkomulagið var undirritað. Að því loknu var boðið upp á kaffi í húsakynnum háskólans.

Þökkum við starfsfólki Hólaskóla kærlega fyrir dásamlegar viðtökur, skemmtilega athöfn og síðast en ekki síst, fyrir að hafa þegið boðið um að varðveita þennan merka grip fyrir okkur. Vonumst við til þess að nú geti fleiri notið þess að berja gripinn augum.  

 

Saga Sleipnisbikarsins

Skuggi frá Bjarnanesi fékk bikarinn fyrstur íslenskra hrossa árið 1947 á Landbúnaðarsýningu í Reykjavík. Á þeirri sýningu var keppt í tveimur flokkum stóðhesta, vinnuhrossa og reiðhrossa og hlaut Skuggi viðurkenninguna sem besti stóðhesturinn í flokki reiðhesta. Á fyrsta landsmótinu, sem haldið á Þingvöllum, þremur árum seinna, árið 1950 var viðurkenningin veitt í annað sinn og féll það í hlut Hannesar Stefánssonar, bónda á Þverá í Skagafirði að taka á móti viðurkenningunni fyrir besta stóðhest af íslensku reiðhestakyni. Var það hesturinn Hreinn frá Þverá sem vann sér inn viðurkenninguna, en hann er sá hestur sem oftast hlaut viðurkenninguna, alls þrisvar sinnum. Var þá reglunum breytt þannig að enginn stóðhestur getur hlotið viðurkenninguna oftar en einu sinni. Allar götur síðar hefur bikarinn verið afhentur á landsmótum, þeim stóðhesti sem stendur efstur í heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi. Bikarinn hefur alls verið veittur 26 sinnum og má finna lista yfir þá sem hafa hlotið bikarinn hér að neðan.

Þrátt fyrir að að bikarinn hafi fyrst verið veittur á Íslandi árið 1947 er saga hans þó mun eldri. Úr táknum sem grafin eru í bikarinn má lesa að hann sé smíðaður í London á valdatíma Viktoríu drottningar eða á tímabilinu frá 1837-1901, þó ekki seinna en 1857 því þá var hann afhentur í allra fyrsta sinn. Á bikarnum er skjöldur sem gefur til kynna að hann hafi verið notaður sem verðlaunagripur árið 1857 í Malton kappreiðum í norðanverðu Yorkshire-héraði. Þar reið breskur majór að nafni Bell hestinum The Hero til sigurs en á skildinum er grafið „THE UNION HUNT CUP“ won at Malton Races, April 23rd 1857 by THE HERO 7 year old. Carrying 12 stone. Ridden by Major Bell.

Í lok seinni heimsstyrjaldar var bikarinn seldur á uppboði í London og var kaupandinn íslenskur, að öllum líkindum útgerðarmaður. Flutti hann bikarinn með sér til Íslands og fékk það seinna staðfest að gripurinn væri mjög verðmætur enda mikil völundarsmíð og gerður úr fjórum kílóum af hreinu silfri. Í framhaldinu óskaði hann eftir því að ríkið eða önnur opinber stofnun skyldi eiga gripinn og lét  þáverandi hrossaræktarráðunaut, Gunnar Bjarnason vita af gripnum. Fór það svo að íslenska ríkið og Búnaðarfélag Íslands keyptu bikarinn og skiptu kostnaðinum jafnt á milli sín. Búnaðarfélag Íslands hefur alla tíð varðveitt og annast bikarinnar en samtökin sameinuðust Stéttarsambandi bænda árið 1975 og breyttu nafni sínu síðar, eða árið 1995 í Bændasamtök Íslands.  

Sleipnisbikarinn er farandbikar og þeir sem hljóta hann fá gripinn afhentan við hátíðlega athöfn, þar eru teknar myndir af sigurvegaranum, stóðhestinum sjálfum, afkvæmahópnum, eiganda og ræktanda. Í framhaldinu er bikarinn tekur aftur, eigandi stóðhestsins fær skjal með mynd af bikarnum til staðfestingar á árangrinum en bikarinn er fluttur aftur á sinn varðveislustað þar sem hann er geymdur öruggur í læstum glerskáp.

 

Sleipnisbikarhafar

1947: Skuggi frá Bjarnanesi, eigandi: Hestamannafélagið Faxi Borgarfirði

1950: Hreinn frá Þverá, eigandi: Hannes Stefánsson, Þverá Skagafirði

1954: Hreinn frá Þverá, eigandi: Hrossakynbótabú ríkisins, Hólum í Hjaltadal

1958: Hreinn frá Þverá, eigandi: Hrossakynbótabú ríkisins, Hólum í Hjaltadal

1962: Svipur frá Akureyri, eigandi: Haraldur Þórarinsson, Syðra-Laugalandi Eyjafirði

1966: Roði frá Ytra-Skörðugili, eigandi: Hrossaræktarsamband Vesturlands

1970: Neisti frá Skollagróf, eigandi: Jón Sigurðsson, Skollagróf

1974: Blesi frá Núpakoti, eigandi: Hrossaræktarsamband Suðurlands

1978: Sörli frá Sauðárkróki, eigandi: Sveinn Guðmundsson, Sauðárkróki

1982: Hrafn frá Holtsmúla, eigandi: Félagsbúið Holtsmúla, Skagafirði

1986: Ófeigur frá Hvanneyri, eigandi: Hrossaræktarsamband Vesturlands

1990: Hervar frá Sauðárkróki, eigandi: Hrossaræktarsamband Skagfirðinga

1994: Þokki frá Garði, eigandi: Jón Karlsson, Hala

1998: Stígandi frá Sauðárkróki, eigendur: Hrossaræktarsamband A-Hún, Skagafjarðar, V-Hún og Vesturlands  

2000: Orri frá Þúfu, eigandi: Orrafélagið

2002: Þorri frá Þúfu, eigandi: Indriði Ólafsson

2004: Kraflar frá Miðsitju, eigandi: Brynjar Vilmundarson

2006: Keilir frá Miðsitju, eigandi: Gunnar Andrés Jóhannsson

2008: Hróður frá Refsstöðum, eigandi: Mette Mannseth

2011: Gári frá Auðsholtshjáleigu, eigandi: Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir

2012: Álfur frá Selfossi, eigandi: Christina Lund

2014: Vilmundur frá Feti, eigandi: Hrossaræktarbúið Feti

2016: Arður frá Brautarholti, eigandi: Helgi Jón Harðarson og Bergsholt sf.  

2018: Spuni frá Vesturkoti, eigandi: Hulda Finnsdóttir

2020: Skýr frá Skálakoti, eigandi: Guðmundur Jón Viðarsson og Jakob Svavar Sigurðsson

2022: Sjóður frá Kirkjubæ, eigandi: Alexandra Hoop