Beint í efni

Bændavaktin

Búnaðarþing er haldið 14-15. mars á Hótel Reykjavík Natura. Á Bændavaktinni er beint fréttastreymi frá þinginu en fréttir eru uppfærðar reglulega eftir þróun mála. Við hlökkum til að veita ykkur innsýn í þessa mikilvægu starfsemi í grasrót bænda.

14:30

Líður að þinglokum
Nú er afgreiðslu helstu mála lokið og við kveðjum hér á vaktinni.
Við þökkum samfylgdina síðustu tvo daga.

Starfsfólk Bændasamtaka Íslands.


13:55

Ólöf Ósk kynnir niðurstöður varamannakosningar fyrir hönd kjörstjórnar
Eftirtaldir hlutu kjör:
  1. Steinþór Logi Arnarsson
  2. Ásta Arnbjörg Pétursdóttir
  3. Eydís Rós Eyglóardóttir
  4. Jón Helgi Helgason
  5. Björn Ólafsson


13:45

Afgreiðsla mála heldur áfram

Á milli kosninga er haldið áfram að fara yfir tillögur nefnda.

  • Tillaga um eflingu á fræðslu um félagskerfi bænda í samstarfi við LBHÍ og Háskólann á Hólum var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum
    -------------
  • Búnaðarþing beinir því til stjórnar BÍ að tryggt verði fjármagn til fagþinga þeirra búgreina sem ekki geta sótt í fagfé. Slík fagþing eru mikilvæg til að efla félagsleg tengsl, fræðast og ræða helstu málefni. Tillagan var samþykkt samhljóða.
    -------------
  • Búnaðarþing beinir því til stjórnar BÍ að fulltrúar á deildarfundum og búnaðarþingi fái greiddan ferða- og gistikostnað/dagpeninga vegna fundarsetu frá og með 2025. Fram kom í framsögu formanns nefndarinnar að komi í hlut stjórnar BÍ að útfæra málið nánar. Tillagan var samþykkt samhljóða.

13:30

Sigrún Hanna kynnir niðurstöður kosningar meðstjórnenda fyrir hönd kjörstjórnar
Eftirtaldir hlutu kjör:
  • Axel Sæland
  • Herdís Magna Gunnarsdóttir
  • Petrína Þórunn Jónsdóttir
  • Reynir Þór Jónsson
  • Sigurbjörg Ottesen
  • Eyjólfur Ingvi Bjarnarson

Áður hafði verið kosið til formanns í kosningum meðal allra félagsmanna og hlaut Trausti Hjálmarsson kjör sem formaður.


13:00

Kosið í stjórn
Kosningar meðstjórnenda og varastjórnenda eru nú að hefjast.


FRÉTT

Sólskins grænmeti tekur upp Íslenskt staðfest
Sólskins grænmeti og Íslenskt staðfest hafa gert með sér samkomulag um að merkið muni nú prýða vörur frá Sólskins grænmeti. Vigdís Häsler, stjórnarformaður Íslenskt staðfest og Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, eigandi Sólskins grænmeti, undirrituðu samkomulagið á Búnaðarþingi.

Sólskins grænmeti er nýr framleiðandi í gúrku og tómatarækt.

Íslenskt staðfest fagnar því að nýr framleiðandi hafi tekið upp merkið þar sem meirihluti íslenskra neytenda kallar eftir því að innlend matvæli séu upprunamerkt.

Íslenskt staðfest er merkið sem tryggir að þú fáir íslenskt þegar þú velur íslenskt.


12:00

Afgreiðslu mála lokið í bili

Nú er komið að hádegishléi. Þingfulltrúar halda nú í hádegismat eftir vel unnin störf fyrir hádegi.

Næsta mál er kosning stjórnarfólks fyrir árið 2024. Samkvæmt áætlun hefst hún klukkan 13:00


10:00 - 12:00

Samþykktar tillögur

Hér koma fram helstu tillögur sem samþykktar eru á þinginu:

  • Einróma samþykki um breytingu á málsgrein um afkomu í stefnumörkun Bændasamtakanna. Sú breyting bætir við víðari skilgreiningu á hvar orösk fyrir afkomuvanda bænda er að finna. Tilefni sé að rýna í alla virðiskeðjuna og regluverkið sem umlykur hana.
    -------------
  • Búnaðarþing samþykkir einróma tillögu um að innlendir matvælaframleiðendur í eigu bænda ættu að taka upp Íslenskt Staðfest.
    -------------
  • Búnaðarþing biðlar til stjórnvalda að skilgreina landbúnað sem þjóðhagslega mikilvægan innvið. Því fylgir að áætlun verði gerð og svo uppfyllt um nauðsynlegar neyðarbirgðir matar í landinu auk þess sem að aðfangakeðjur í landbúnaði verði tryggðar. Samþykkt um þetta var staðfest einróma.
    -------------
  • Drögum að nýjum kafla í stefnumörkun um skipulagsmál vísað til stjórnar BÍ til frekari umræðu og útfærslu milli þinga. Í drögunum er meðal annars fjallað um að aukning fæðuöryggis og traust matvælaframleiðsla sé þjóðaröryggismál og það sé frumskylda að standa vörð um landbúnaðarland. Gott ræktunarland eigi að nota til matvælaframleiðslu.
    -------------
  • Umhverfisnefnd leggur til að skipaður verði vinnuhópur um endurskoðun og uppfærslu umhverfisstefnu Bændasamtakanna. Tillagan samþykkt samhljóða.
    -------------
  • Búnaðarþing 2024 samþykkti samhljóða að fela stjórn Bændasamtaka Íslands að skipa laganefnd sem starfi fram til Búnaðarþings 2025. Laganefnd fái það verkefni að ráðast í heildarendurskoðun á samþykktum BÍ.
    -------------
  • Búnaðarþing 2024 leggur til að deildarfundir búgreina og Búnaðarþing verði sameinað í einn þriggja daga viðburð sem beri heitið Búnaðarþing. Skipaður verði starfshópur til þess að útfæra tillöguna og undirbúa nauðsynlegar breytingar á samþykktum BÍ í samráði við laganefnd BÍ. Starfshópurinn skili fullmótaðri tillögu ásamt kostnaðargreiningu til afgreiðslu á Búnaðarþingi 2025.
    -------------
  • Í nýjum kafla í stefnumörkun um nýliðun sem Búnaðarþing samþykkti samhljóða segir m.a.: Bændasamtökin beiti sér fyrir breytingum á skattalögum líkt og þekkist í Noregi og löndum ESB. Samhliða að koma á fót gjörbreyttu og bættu lánaumhverfi.
    Mikilvægt er að leita leiða til að halda áfram ábúð á jörðum, það þarf að vera hagur bænda að selja til áframhaldandi landbúnaðarnota en ekki bara hæstbjóðanda.
    -------------
  • Í endurskoðuðum kafla stefnumörkunar um velferð og réttindi bænda segir m.a.: Bændasamtökin, í samráði við stjórnvöld, vinni að því að koma upp skipulagðri afleysingaþjónustu fyrir bændur um land allt.
    Skortur á afleysingaþjónustu er streituvaldandi og getur leitt til þess að bændur ganga of nærri sér, bæði andlega og líkamlega.
    Bændasamtökin, í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands, efli jafnréttisfræðslu í landbúnaðartengdu námi, á miðlum Bændasamtakanna og til félagsmanna þannig að aðilar sem koma að búrekstri hafi jafnan rétt þegar kemur að launum, leyfum og öðrum réttindum.
    Bændasamtökin vinni áfram að því að stuðla að jafnrétti þeirra sem koma að búrekstri innan stjórnkerfisins og efli ímynd kvenna sem bændur.
    ------------
  • Samþykkt var ályktun um tollvernd. í henni voru ítrekaðar fyrri áhyggjur bænda varðandi verklag og regluverk tengt eftirliti og úthlutun tollkvóta en einnig gjöld tollskrár sem staðið hafa óbreytt síðan 1996.
    ------------

10:00

Afgreiðsla mála hafin

Nefndir eru búnar að skila af sér tillögum og fulltrúar þingsins eru samankomnir í þingsal dagsins.


09:30

Nefndarstörfum lokið

Nefndir á Búnaðarþingi hafa lokið störfum og eru þingfulltrúar að gera sig tilbúna umræður og afgreiðslu mála.


09:00

Dagur 2 hefst

Góðan daginn kæru lesendur!

Nefndir eru að leggja lokahönd á tillögur.


17:25

Dagur 1 klárast

Þá eru nefndir að ljúka störfum hver af annarri og er dagurinn að klárast hjá okkur hér á Reykjavík Natura.
Bændavaktin hlakkar til að ræsa vélarnar aftur á morgun og kveður í bili.

Dagur 2 hefst klukkan 09:00


16:00

Nefndir funda af kappi

Síðasta verk dagsins er nefndarvinna þar sem nefndir sitja á fundum í sölum á víð og dreif um hótelið og vinna í sínum gögnum af miklum krafti.


15:00

Frambjóðendur til stjórnar kynna sig

Frambjóðendur til stjórnar og varastjórnar flytja ræður.


14:10

Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning

Sigurður Þór Guðmundssson, þingfulltrúi biður um orðið. Hann óskar fráfarandi stjórn til hamingju með að hafa snúið rekstrinum við þannig að samtökin standa nú traustum fótum. Skemmst sé að minnast ársfundar sem haldinn var á árinu 2018 og þeirri stöðu sem þá var lýst af fjárhag samtakanna en öllum mátti vera ljóst að staðan var ekki góð þá.
Nú sé auðveldara fyrir nýja stjórn að taka við rekstrinum. Mörg verkefni eru framundan en núna höfum við félagsskap sem getur unnið að hagsmunamálum fyrir okkur. Sigurður bendir á hversu mikils virði það sé að samtökin geti haft starfsfólk og getu til að vinna verkefnin, það sé raunin í dag, sem betur fer.
Sigurður Þór endar ræðuna á ósk um að þingheimur klappi fyrir félagsmönnum og þakki góðu fólki sem hefur unnið ötulega fyrir samtökin.

Steinþór Logi Arnarsson þakkar starfsfólki Bændasamtakanna, sem og stjórn Bændasamtakanna fyrir virkilega vel unnin störf síðastliðið ár og mikilvægi þess að búa að góðu fólki sem hefur eldmóðinn og hjartað á þeim stað sem raun ber vitni.
Hann nefnir að landbúnaðurinn standi enn og aftur á krossgötum og nefnir í því samhengi nýlega atburði í Evrópu þar sem bændur hafa víða efnt til mótmæla sem sé merki um þá stöðu sem ríkir í landbúnaði í dag.


13:35

Fjármálastjóri Bændasamtakanna fer yfir ársreikning og fjárhagsáætlun

Örvar Þór Ólafsson, fjármálastjóri, fer yfir ársreikning samtakanna. Reksturinn hefur gengið vel að sögn Örvars.

Félagsmönnum er að fjölga sem hefur jákvæð áhrif á tekjuhliðina og gengið hefur vel að halda aftur af kostnaðarhækkunum.

Rekstur Bændablaðsins er áfram í járnum en mikil ásókn er í auglýsingar sem hefur komið til móts við miklar kostnaðarhækkanir.

Hagsmunagæslan kostar mannauð og aðkeypta þjónustu.

Félagsstarfið er eins hagkvæmt í rekstri og mögulegt er.

Stöðugleika hefur verið náð í rekstri með samstilltu teymi starfsfólks.


13:10

Framkvæmdastjóri fer yfir skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri, kemur á framfæri þökkum til stjórnar fyrir samstarfið síðustu ár. Stjórn hélt fimmtán stjórnarfundi á árinu 2023. Þá situr stjórn einnig alla þriðjudagsfundi, svo kallaða Samráðsfundi landbúnaðarins, ásamt formönnum ellefu búgreinadeilda, starfsfólki skrifstofunnar, framkvæmdastjóra RML og formanni Ungra bænda. Þá eru reglulega haldnir samráðsfundir með hagsmunafélögum og stofnunum til að fara yfir málefni landbúnaðarins.

Formaður stjórnar ferðaðist vítt og breitt um landið, sótti hátt í 230 fundi, hjá Búnaðarsamböndum, menntastofnunum, í fyrirtæki, til samtals við bændur, stjórnvöld, fastanefndir þingsins og ráðuneyti, og eru þá ótaldir innanhúss fundir á skrifstofunni með starfsfólki.

Áhersla stjórnar á árinu 2023 var að samtökin skyldu vera leiðandi afl í upplýstri umræðu um íslenskan landbúnað og varpa skýru ljósi á afkomu bænda með öflugri hagsmunabaráttu.

Hagsmunagæslan á að snúa að stjórnvöldum, starfsfólkið á það sammerkt að það brennur fyrir atvinnugreinina og fyrir bændur.

Á árinu 2024 ætla BÍ að vera til sóknar. Íslenskur landbúnaður ber ábyrgð á neyðarbirgðum landsmanna.

Framkvæmdastjóri lýkur yfirferð á skýrslunni með því að minna á mikilvægi þess að aðgreina íslenskar vörur með því að nota Íslenskt staðfest.


13:00

Mínútuþögn í minningu Björns Halldórssonar sem féll frá fyrir stuttu. Björn var mikilsvirkur baráttumaður í félagsstarfi og fyrir hagsmunum bænda og hann sinnti nú síðast stöðu stjórnarformanns RML.

Fjölmargir þingmenn mættu á þingsetningu


12:00

Þingsetningu lokið

11:52

Vefsíðan Loftslagsvænn landbúnaður formlega opnuð

Katrín Jakobsdóttir opnaði formlega vefsíðu Loftslagsvæns landbúnaðar.


11:50

Landbúnaðarverðlaun 2024

Katrín Jakobsdóttir veitti landbúnaðarverðlaunin 2024. Hjónin Eyvindur Ágústson og Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir, bændur á Stóru-Mörk III, hlutu þau fyrir framúrskarandi búrekstur á liðnu ári. Þau lögðu ríka áherslu á að jafna kolefnisspor búrekstursins með þátttöku í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður. Þess má geta að í kjölfarið var vefsíða Loftslagsvæns landbúnaðar opnuð með af ráðherra.


11:26

Starfandi matvælaráðherra flytur ávarp

Katrín Jakobsdóttir vakti athygli á mikilvægi þess að neytendur taki þátt í því að efla íslenskan landbúnað og að slík þróun hefjist í matvöruverslunum. Einnig lagði hún áherslu á mikilvægi þess að tækifæri til að upphefja íslenska framleiðslu séu fullnýtt, t.a.m. með upprunavottun Íslenskt Staðfest. Talaði hún um hlutverk landbúnðarins í að efla viðnámsþrótt íslensks samfélags og mikilvægi þess að efla afkomu bænda og hlutverk þess í að verja matarvæla og fæðuöryggi íslendina.


11:20

Forsetinn kveður

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands ávarpaði Búnaðarþing. Í lok ávarpsins bað hann viðstadda að rísa á fætur og syngja með sér "Í Hlíðarendakoti" eftir Þorstein Erlingsson undir gítarspili. Gífurleg og góð stemning myndaðist í salnum í kjölfar framtaksins.


11:10

Forseti flytur ávarp

Í ávarpi sínu hvatti forsetinn bændur til dáða í störfum sínum. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að dvelja ekki í fortíðarþrá heldur taka upplýstar ákvarðanir með framgang landbúnaðar að leiðarljósi.


11:00

Ræða formanns

Gunnar Þorgeirsson þakkar fyrir síðustu fjögur ár í formannsstóli Bændasamtakanna. Hann ræðir um bændamótmælin í Evrópu og telur að íslenskir bændur væru einnig að mótmæla ef Bændasamtökin hefðu ekki barist gegn framlengingu úkraínufrumvarpsins á síðasta ári. Í lokin þakkar Gunnar gott samstarf við fulltrúa Bændasamtakanna og vekur athygli á þeirri ástríðu sem hann sér í þeirra starfi.

Þingið er sett

Fráfarandi formaður, Gunnar Þorgeirsson, setur þingið og býður forseta velkominn í pontu.


Dagskrá þingsetningar

Kynning á síðunni Loftslagsvænn landbúnaður

Berglind Ósk Alfreðsdóttir kynnir síðu Loftslagsvæns landbúnaðar. Með því lýkur setningu Búnaðarþings árið 2024.


Starfandi matvælaráðherra flytur ávarp

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, starfandi matvælaráðherra, flytur einnig ávarp.

Katrín lýkur ávarpi sínu, opnar vefgátt fyrir Loftslagsvænan landbúnað og veitir landbúnaðarverðlaun.


Forseti flytur ávarp

Í framhaldinu flytur hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarp um menningarverðmæti atvinnugreinarinnar. Líklega verður þetta síðasta embættisverk Guðna sem forseti okkar Íslendinga. Það er okkur mikill heiður að forseti ávarpi þingið.


Búnaðarþing hefst klukkan 11:00

Búnaðarþing verður sett með formlegri ræðu starfandi formanns. Verður þetta síðasta ræðan sem Gunnar Þorgeirsson fer með sem formaður Bændasamtakanna en nýkjörinn formaður, Trausti Hjálmarsson, mun taka við af Gunnari að þingi loknu.