Hagtölur

Hagstofan birtir upplýsingar um fjölda búfjár, uppskeru og kjötframleiðslu. Upplýsingar um fjölda búfjár byggjast á árlegri skráningu búfjáreigenda í gagnagrunninn Bústofn, en upplýsingum um framleiðslu kjöts og mjólkur er aflað frá afurðastöðvum. Fleiri  hagtölur í landbúnaði má finna á hagstofan.is og mast.is.

Hvert er framleiðsluvirði landbúnaðarins?
Heildarframleiðsluvirði landbúnaðar árið 2018 var 60,9 milljarðar króna. Framleiðsluverð er það verð sem framleiðandi fær í sinn hlut frá kaupanda en innifelur ekki vörutengda styrki, s.s. beingreiðslur. Virði afurða búfjárræktar er áætlað 42,2 milljarðar króna, þar af voru vörutengdir styrkir og skattar um 11,5 milljarðar króna. Virði afurða nytjaplönturæktar er 14,4 milljarðar, þar af voru vörutengdir styrkir og skattar 519 milljónir króna. Aðfanganotkun landbúnaðarins í heild er áætluð 40,8 milljarðar árið 2018.
 
Íbúum landsins fjölgaði um 2% árið 2019. Ferðamönnum fækkaði um 14,2% og voru tæpar tvær milljónir. Heildarsala á innlendu kjöti jókst um 0,6% á árinu 2019. Alls seldust um 29.000 tonn af innlendu kjöti á árinu. Heildarsala á mjólkurafurðum jókst um 1,5% á árinu 2019. Innflutningur á kjöti og kjötvörum jókst um 17,6% og varð rúm 4.400 tonn árið 2019. Hlutdeild innflutts kjöts er orðin 13,4%  miðað við allt innlent kjöt en hún er afar mismunandi eftir tegundum. Innflutningur á mjólkurvörum jókst um 7,8% og varð rúm 1.300 tonn. Um þriðjungur af því er ís.

Heildarútgjöld hins opinbera til landbúnaðar voru 16 milljarðar króna árið 2019. Það eru 1,74% af útgjöldum ríkisins. 
 
Fjöldi býla og umfang starfseminnar
Rúmlega 6.700 lögbýli eru skráð á Íslandi og þar af er einhver skráður til heimilis á 3.350 býlum. Bú sem framleiða vörur af ýmsu tagi voru rúmlega 3.150 árið 2015. Á þessum búum eru framleiddar búvörur á borð við mjólk, kjöt, garðyrkjuafurðir, egg og fleira. Auk þessa eru bændur sem stunda ferðaþjónustu, skógrækt og landgræðslu, hlunnindanýtingu eða sinna annarri vinnu utan bús. Fleiri lögbýli eru nýtt til landbúnaðar þótt enginn sé þar heimilisfastur. Það sem út af stendur eru eyðibýli eða jarðir sem nýttar eru til sumardvalar eða annarrar starfsemi. Um 3.400 manns voru starfandi í landbúnaði árið 2018, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, eða 1,7% fólks á vinnumarkaði.
 
Um 10 þúsund störf tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti, meðal annars á bújörðum, í kjötafurðastöðvum, mjólkurvinnslum, hjá þjónustufyrirtækjum og víðar.
 
Hvað þarf að framleiða mikinn mat?
Mikil fólksfjölgun í heiminum á næstu áratugum mun kalla á aukna eftirspurn eftir mat. Reiknað er með að jarðarbúar verði um 9 milljarðar árið 2050. Árið 2012 gaf Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) út að matvælaframleiðsla þyrfti að aukast um 70% fram til ársins 2050 vegna aukins mannfjölda. Í ljósi þessarar stöðu verður varðveisla og nýting ræktunarlands sífellt mikilvægari þáttur. Til viðbótar munu loftslagsbreytingar valda verulegum breytingum á nýtingu lands á ákveðnum svæðum.

Á Íslandi er til staðar mikið ræktunarland, gnægð af vatni og mikil verkþekking. Hægt er að auka matvælaframleiðslu á Íslandi töluvert frá því sem nú er. Áhugi á staðbundinni framleiðslu og heilnæmum afurðum fer vaxandi og það skapar tækifæri fyrir bændur. Vaxtarmöguleikar í aukinni landbúnaðarframleiðslu felast meðal annars í ferðaþjónustu og auknum útflutningi búvara. 

 
 

 

Bændasamtökin birtu eftirfarandi auglýsingu í Bændablaðinu í október 2017 í tengslum við kosningar til Alþingis. Þar voru helstu hagtölur voru tíundaðar ásamt stefnumálum bænda.