Beint í efni

Vinnuhópur, sem skipaður er fulltrúum BÍ, Orkuseturs og Hey Iceland (fyrrum Ferðaþjónusta bænda ehf.), lagði drög að samstarfsverkefni um uppsetningu á rafhleðslustöðvum til sveita vorið 2017. Markmið hópsins var að hvetja bændur til þess að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla. Eftir fundahöld og gagnaöflun var ákveðið að hefja formlegt samstarf og auglýsa eftir áhugasömum bændum til að taka þátt í verkefninu. Í lok október 2017 var "Hleðslu í hlaði" formlega hleypt af stokkunum þegar skrifað var undir samstarfssamning fyrir fyrirtækið Hleðslu ehf. sem sérhæfir sig í uppsetningu og rekstri rafhleðslustöðva. Framundan er innleiðing og kynning á verkefninu þar sem Bændasamtökin, Hey Iceland og Orkusetur leggja saman krafta sína.

Markmið Hleðslu í hlaði

• Að stuðla að því að bændur koma upp aðgengi að rafhleðslustöðvum á sínum býlum fyrir almenning og ferðamenn 

• Byggja upp innviði fyrir rafbíla hringinn í kringum landið

• Gera hreina rafbíla að raunhæfum kosti í ferðaþjónustu.

• Draga fram mikilvægi dreifðra byggða

• Auka þjónustu bænda og skapa þeim nýja tekjumöguleika

• Minnka olíunotkun og útblástur í samgöngum

• Laða ferðamenn inn á bæi sem bjóða upp á ýmsar vörur og þjónustu

• Gefa skýr skilaboð um að bændur vilja auka veg rafbíla á Íslandi og stuðla að umhverfisvænni samgöngum

• Að kynna hleðsluþjónustu bænda með margvíslegum hætti þegar hleðslustöðvar verða komnar í gagnið

Þeir aðilar sem hafa sett upp hleðslustöðvar undir merkjum Hleðslu í hlaði og komið þeim í gagnið eru:

Flestar hleðslustöðvar undir merkjum Hleðslu í hlaði er að finna á vefnum Plugshare

Samkomulag við Hleðslu ehf.

Verkefnahópur Hleðslu í hlaði gerði samstarfssamning við Hleðslu ehf. um tæknilausnir og ráðgjöf í sambandi við uppsetningu á hleðslustöðvum. Samningurinn rammar inn samstarf milli samningsaðila um markaðssetningu á hleðslulausnum fyrir félagsmenn BÍ og Hey Iceland, sölu og þjónustu á vörum frá Hleðslu ehf. Markmið hans er að tryggja hagsmuni samningsaðila og endanotenda í viðskiptum með vörur frá samningsaðilum, þ.m.t. að tryggja rétta hönnun á lausn, rétta uppsetningu á vél- og hugbúnaði ásamt þjónustu.

Hleðsla ehf. (kt. 450117-0720) er umboðsaðili GARO hleðslustöðva á Ísland og sérhæfir sig í lausnum fyrir hleðslu á rafmagnsbílum. Fyrirtækið byggir á reynslu starfsmanna við uppbyggingu innviða fyrir rafmagnsbíla í Noregi. Fyrirtækið hefur þjónustu og uppsetningarsamning við Rafmiðlun hf. Hleðsla ehf. er í gegnum samstarfsamning við EV charge partner vottaður þjónustuaðili við GARO, Efacec, Tritium og Renault Z.E.

Hleðsla ehf. var nýlega keypt af N1. 

Hleðsla í hlaði á Facebook

Þeir sem hafa áhuga á uppsetningu rafhleðslustöðva eru boðnir velkomnir í aðgangsstýrðan Facebook-hóp Hleðslu í hlaði. Endilega skráið ykkur inn í hópinn okkar á Facebook þar sem við getum skipst á upplýsingum og leitað ráða hjá hvert öðru. 

Fréttaumfjöllun
Visir.is 4. janúar 2018: Sala á rafbílum nærri tvöfaldast.