Samþykktir

Samþykktir Bændasamtaka Íslands - pdf

Þingsköp Búnaðarþings - pdf

Samþykktir Bændasamtaka íslands

Samþykkt á Aukabúnaðarþingi 10. júní 2021.

I. kafli. Almenn ákvæði. 

1. gr.

Heiti og heimili.

Samtökin heita Bændasamtök Íslands (skammstafað BÍ). Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík. 

2. gr.

Hlutverk og markmið.

Bændasamtök Íslands eru heildarsamtök íslenskra bænda. Þeirra hlutverk er að gæta hagsmuna bændastéttarinnar, móta stefnu í málefnum bænda og landbúnaðarins í heild og vinna að framförum og hagsæld í landbúnaði. Í samræmi við þetta hlutverk greinist starfsemi þeirra í eftirfarandi meginþætti:  

1. Þau beita sér fyrir bættum kjörum bænda á öllum sviðum. Fylgjast grannt með afkomu bænda og rekstrarskilyrðum landbúnaðarins og kappkosta með því að tryggja þeim lífskjör í samræmi við aðrar stéttir þjóðfélagsins. 

2. Þau fara með fyrirsvar og samningsumboð framleiðenda búvara skv. búnaðarlögum og búvörulögum og annast samningagerð af hálfu bænda um kjör starfsfólks í landbúnaði. Þau annast ýmis verkefni fyrir ríkisvaldið og aðra aðila sem tengjast hagsmunum bænda og landbúnaði skv. samningum þar um. 

3. Eru málsvari bændastéttarinnar út á við. Annast samskipti við ríkisvaldið,  hliðstæð samtök erlendis og aðra aðila sem máli skipta gagnvart hagsmunum bænda og landbúnaðar.  

4. Þau veita umsagnir um lagafrumvörp sem snerta landbúnaðinn og bændastéttina og beita sér fyrir nýmælum í löggjöf og breytingum á eldri lögum til framfara. 

5. Þau annast leiðbeiningaþjónustu og sinna faglegri fræðslu í þágu landbúnaðarins. 

6. Þau annast útgáfustarfsemi og miðlun upplýsinga sem varða bændur og hagsmuni þeirra.

 

3. gr.

Aðild.

Aðild að samtökunum geta átt: 

a.     Fulla og beina aðild að BÍ geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni eða vegna eigin nota. Aðild samkvæmt þessum staflið veitir full réttindi fyrir tvo einstaklinga.  

b.     Full aðild skal einnig heimil þeim sem sannarlega standa að búrekstrinum umfram tvo einstaklinga, sbr. staflið a.  

c.      Félög sem starfa þvert á búgreinar.  

d.     Aukaaðild að BÍ geta átt lögaðilar og þeir einstaklingar, 18 ára og eldri, sem búsettir eru á Íslandi og styðja markmið samtakanna. 

Félagsmenn samkvæmt stafliðum a) og b) skulu skrá sig í deildir búgreina. Félagsmenn skrá veltu síns búrekstrar og gera grein fyrir veltu eftir búgrein. Aðeins þeir sem ekki skulda gjaldfallin félagsgjöld eða samið hafa um greiðslu þeirra njóta réttinda sem félagsmenn. Einungis félagsmenn með fulla aðild, sbr. stafliði a) og b) og starfsmenn BÍ geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir BÍ. 

Stjórn BÍ hefur heimild til að víkja félagsmönnum úr samtökunum sem hafa ítrekað eða með stórfelldum hætti í búrekstri sínum gerst brotlegir gegn samþykktum þessum, löggjöf sem snýr að því að tryggja velferð dýra og manna, svo sem lögum um dýravelferð, lögum um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, kjarasamningum og öðrum reglum eftir því sem við á. 

4. gr.

Aðildarfélög.

Stjórn BÍ metur umsóknir nýrra aðildarfélaga skv. c-lið 1. mgr. 3. gr. og gerir tillögu til Búnaðarþings um afgreiðslu þeirra. Ekki skal veita félagi aðild ef annað félag er þegar aðili sem telja má að starfi á sama svæði, nema sérstök rök hnígi til þess.  

Búnaðarþing skal staðfesta aðild og samþykktir nýrra aðildarfélaga með minnst 2/3 hlutum atkvæða þingfulltrúa en stjórn BÍ staðfestir breytingar á samþykktum þeirra. 

Aðildarfélög skulu skila samþykktum ársreikningi árlega til stjórnar BÍ. Í samþykktum þeirra skal jafnframt vera ákvæði um hvernig staðið skuli að vali á búnaðarþingsfulltrúa þeirra. 

Um úrsagnir aðildarfélaga úr samtökunum fer eftir samþykktum hlutaðeigandi félags. Tilkynna skal úrsögn skriflega til skrifstofu BÍ með minnst sex mánaða fyrirvara. Búnaðarþing getur með minnst 2/3 hlutum atkvæða þingfulltrúa vikið aðildarfélagi úr BÍ ef starfsemi þeirra er ekki í samræmi við samþykktir þessar eða ef það þykir óhjákvæmilegt af öðrum ástæðum. 

5. gr.

Félagsgjöld, fjárhagsáætlun og endurskoðun.

Tekjur BÍ eru: 

1.      Tekjur af sjóða- og/eða félagsgjöldum. 

2.      Arður af eignum. 

3.      Þjónustugjöld og annað eigið aflafé. 

4.      Framlög af fjárlögum til starfsemi sem samtökunum er falin með lögum eða með stjórnvaldsfyrirmælum sem stoð hafa í lögum. 

Stjórn BÍ leggur árlega fram tillögur að félagsgjöldum fyrir Búnaðarþing til staðfestingar. Heimilt er að innheimta félagsgjöld með föstu gjaldi, þrepaskiptu gjaldi miðað við veltu eða veltutengdu gjaldi með eða án lágmarks og hámarksgjalds. Heimilt er að veita sérstaka afslætti af félagsgjaldi.  

Fjárhagsáætlun hvers ár skal unnin af stjórn BÍ og liggja fyrir 1. nóvember. Hún skal taka mið af þriggja ára fjárhagsáætlun sem samþykkt hefur verið á Búnaðarþingi.  

Stjórn skal jafnframt gefa út gjaldskrá samtakanna árlega. Í henni skal tilgreina helstu þjónustuþætti sem félagsmönnum og öðrum standa til boða, ásamt verði þeirra til félaga í BÍ, aukafélaga og annarra. 

Ef BÍ taka að sér verkefni sem greitt er fyrir að hluta eða öllu leyti af opinberu fé, skulu þau skýrt afmörkuð í skipulagi samtakanna og hafa sérgreindan fjárhag. 

Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Löggiltur endurskoðandi skal framkvæma venjubundna endurskoðun og skoðunarmaður skal auk þeirrar endurskoðunar sem talin er nauðsynleg, kynna sér starfsemi samtakanna yfirleitt og gera sérstaklega grein fyrir þeim frávikum er kunna að verða frá fjárhagsáætlun Búnaðarþings. Þeir skulu hafa aðgang að öllum skjölum samtakanna og er stjórn og starfsmönnum þeirra skylt að veita þeim þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar starfsins. 

 

II. kafli. Stjórn og starfsemi. 

6. gr.

Kosning formanns og stjórnar.

Í stjórn BÍ sitja sjö félagsmenn. Formaður er kosinn á tveggja ára fresti með rafrænni kosningu meðal allra félagsmanna.  

Framboð til formanns skal liggja fyrir eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir Búnaðarþing og skal kosning eiga sér stað á 5 daga tímabili sem skal lokið eigi síðar en 6 vikum fyrir Búnaðarþing. Niðurstaða formannskosningar skal liggja fyrir a.m.k. mánuði fyrir Búnaðarþing.  

Nái enginn frambjóðenda til formanns kosningu með 50% atkvæða eða meira, er kosið aftur rafrænni kosningu meðal allra félagsmanna um þá tvo frambjóðendur sem flest atkvæði hlutu.  

Sex stjórnarmenn eru kosnir á Búnaðarþingi til tveggja ára í senn.  

Náist ekki niðurstaða um hverjir séu rétt kjörnir stjórnarmenn í einni umferð í kosningu, skal kosið aftur bundinni kosningu á milli þeirra sem jafnir eru. Ef jafnt verður að nýju skal hlutkesti varpað um hver eða hverjir eru rétt kjörnir stjórnarmenn.  

Að loknu kjöri aðalmanna skal kjósa sjö menn í varastjórn til eins árs í senn. Sá sem flest atkvæði hlýtur er fyrsti varamaður og svo koll af kolli. 

Stjórn skal kjósa sér varaformann. 

Uppstillingarnefnd starfar milli Búnaðarþinga. Í uppstillingarnefnd skal kjósa formann, auk tveggja fulltrúa. Hlutverk uppstillingarnefndar er að tryggja framboð til stjórnar úr öllum helstu geirum landbúnaðarins sem taki einnig tillit til landfræðilegrar dreifingar og kynjahlutfalla. Uppstillingarnefnd starfar skv. starfsreglum sem staðfestar eru á Búnaðarþingi. 

7. gr.

Hlutverk og störf stjórnar.

Stjórn BÍ fer með málefni samtakanna milli Búnaðarþinga og fylgir ályktunum þeirra eftir. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra samtakanna. Enn fremur skipar stjórnin fulltrúa BÍ til trúnaðarstarfa fyrir samtökin eftir því sem lög, reglur og samningar segja til um. Ef um er að ræða mikilsverðar ákvarðanir í kjaramálum eða öðrum hagsmunamálum bændastéttarinnar er stjórn heimilt að leita eftir afstöðu búnaðarþingsfulltrúa eða félagsmanna með atkvæðagreiðslu. 

Stjórnarfundir skulu haldnir svo oft sem þörf krefur. Í fjarveru stjórnarmanns skal kalla til varamann. Formaður skal boða til stjórnarfunda og þá telst stjórnarfundur löglega boðaður ef a.m.k. þrír stjórnarmenn krefjast þess að fundur fari fram um tiltekin málefni. Meirihluti stjórnar ræður ákvörðunum stjórnar. Atkvæði formanns ræður niðurstöðu ef atkvæði falla jafnt. Stjórnarfundir teljast lögmætir til hvers konar ákvarðanatöku ef til stjórnarfundar er boðað með a.m.k. tveggja daga fyrirvara og a.m.k. 4 stjórnarmenn eða varamenn þeirra eru viðstaddir fund. Stjórn er heimilt að halda fundi með aðstoð fjarfundarbúnaðar í gegnum rafræna miðla. 

Formaður stýrir fundum stjórnar og er málsvari samtakanna út á við, nema stjórn ákveði að fela öðrum stjórnarmönnum eða starfsmönnum það hlutverk í sérstökum tilvikum. Í forföllum formanns kemur varaformaður fram fyrir hönd samtakanna. 

Stjórnin heldur gjörðabók er fundarmenn undirrita. 

8. gr.

Framkvæmdastjórn.

Framkvæmdastjóri BÍ er prókúruhafi samtakanna og annast daglega yfirstjórn þeirra í samræmi við ákvarðanir stjórnar. 

Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk samtakanna í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun hverju sinni. Stjórn BÍ skal að öðru leyti ráða skipulagi á starfsemi þeirra, að höfðu samráði við framkvæmdastjóra. 

9. gr.

Samráð og verkaskipting.

Stjórnir aðildarfélaga skulu vera stjórn BÍ til aðstoðar um allt það er að samtökunum lýtur og sinna þeim verkefnum er hún kann að fela þeim. Skal jafnan leitast við að verkaskipting sé sem skýrust milli BÍ og einstakra aðildarfélaga og dótturfélaga þannig að saman fari ábyrgð og forræði á þeim málaflokkum sem undir hvorn aðila heyra. 

Stjórn BÍ skal halda úti samráðshóp með búnaðarsamböndunum. Í samráðshópnum skal stjórn BÍ sitja auk fulltrúa allra starfandi búnaðarsambanda. Samráðshópurinn skal funda a.m.k. tvisvar sinnum á ári.  

BÍ skulu gæta þess að halda góðum tengslum við félagsmenn sína og þau félög sem aðild eiga að samtökunum, m.a. með því að trúnaðarmenn BÍ sitji aðalfundi þeirra. Þá skal boða til almennra bændafunda í samráði við aðildarfélög, eða eftir því sem þau telja þörf á. 

Stjórn BÍ er heimilt að gera þjónustusamninga við félög og félagasamtök sem á einhvern hátt tengjast landbúnaði.  

 

III. kafli. Búgreinadeildir. 

10. gr.

Störf búgreinadeilda.

Innan BÍ starfa búgreinadeildir einstakra búgreina og er einn starfsmaður samtakanna jafnframt tengiliður við hverja deild.  

Stjórnir deilda ásamt formanni eru kjörnar á Búgreinaþingi viðkomandi búgreinar til eins árs í senn, sbr. 2. mgr. 12. gr. Stjórnir deilda fara með þau málefni sem snúa að viðkomandi búgrein í samræmi við stefnu BÍ. Ákvarðanir er gætu varðað hagsmuni annarra búgreina ber að hafa samráð um við stjórn BÍ.  

Búgreinadeild skal uppfylla annað tveggja skilyrða um a) fjölda félagsmanna eða b) lágmarksveltu búgreinar, sem ákveðin eru á Búnaðarþingi skv. tillögu stjórnar BÍ.  

11. gr.

Búgreinaráð.

Formenn stjórna deilda búgreina sitja í búgreinaráði sem er stjórn BÍ til stuðnings, aðhalds og ráðgjafar.  

Búgreinaráð skal funda eins oft og þurfa þykir með stjórn BÍ eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti. 

 

IV. kafli. Búgreinaþing.

12. gr.

Búgreinaþing hverrar búgreinadeildar skal haldið árlega, eigi síðar en þremur vikum fyrir Búnaðarþing. Stjórn deildar, í samráði við stjórn og framkvæmdastjóra BÍ, boðar til Búgreinaþings, með a.m.k. 30 daga fyrirvara. Heimilt er að halda Búgreinaþing með aðstoð fjarfundabúnaðar. 

Á Búgreinaþingi skal kjósa formann og tvo til fjóra fulltrúa í stjórn deildar.  

Mál skulu berast stjórn deildar tveimur vikum fyrir þingsetningu. Búgreinaþing getur samþykkt að taka fyrir mál sem síðar koma fram. Stjórn deildar getur með rökstuðningi endursent mál til frekari úrvinnslu. Miða skal við að fundargögn berist fulltrúum eigi síðar en viku fyrir setningu þingsins.  

Fullgildir félagsmenn BÍ innan hverrar búgreinadeildar hafa einir atkvæðisrétt og kjörgengi á Búgreinaþingi sinnar deildar. Á Búgreinaþingum fjölmennari deilda, sbr. 5 mgr., hafa fulltrúar viðkomandi búgreinar á Búgreinaþingi einir atkvæðis- og tillögurétt en kjörgengi hafa allir fullgildir félagsmenn BÍ innan deildarinnar.

Stjórnir fjölmennari búgreinadeilda, þ.e. sauðfjárbænda, kúabænda, skógarbænda og hrossabænda ákvarða fjölda fulltrúa sinnar deildar sem sitja Búgreinaþing með tillögu- og atkvæðisrétt og skulu tryggja landfræðilega dreifingu þeirra. Stjórnir deilda búgreina eru ábyrgar fyrir að kosning búnaðarþingsfulltrúa fari fram á tilsettum tíma. 

Aukabúgreinaþing skal halda þegar stjórn deildar telur nauðsynlegt og þegar 1/3 félagsmanna innan deildarinnar krefjast þess skriflega, enda hafi þeir tilkynnt í hvaða tilgangi hans er krafist. Skal fundur haldinn eigi síðar en mánuði eftir að krafan berst stjórn deildar í hendur og skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara á sannanlegan hátt. 

V. kafli. Búnaðarþing.  

13. gr.

Búnaðarþing er árlegur aðalfundur BÍ og fer með æðsta vald í öllum málefnum samtakanna. Það skal halda eigi síðar en 1. apríl. Verkefni þingsins eru m.a að afgreiða reikninga samtakanna fyrir liðið ár, marka stefnu þeirra í málum sem varða landbúnaðinn í heild, samþykkja fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og drög að fjárhagsáætlun til næstu þriggja ára og kjósa stjórn og endurskoðendur og skoðunarmenn samtakanna. 

Stjórn BÍ boðar til Búnaðarþings með minnst tveggja mánaða fyrirvara og ákveður þingstað og tímasetningu. Heimilt er að halda Búnaðarþing með aðstoð fjarfundabúnaðar. 

Búgreinadeildir og aðildarfélög geta sent mál sem snerta landbúnaðinn í heild til umfjöllunar á þinginu. Stjórn BÍ tekur ákvörðun um hvort mál sem varða málefni einstakrar búgreinar skuli tekin fyrir á þinginu. Mál skulu berast stjórn BÍ tveimur vikum fyrir þingsetningu. Stjórn BÍ er heimilt að víkja frá þessum fresti og er jafnframt heimilt að endursenda mál til frekari úrvinnslu. Hlutaðeigandi skal hafa viku frest til að gera úrbætur. Búnaðarþing getur samþykkt að taka fyrir mál sem síðar koma fram.   

Framboð til stjórnarsetu í samtökunum skal liggja fyrir að minnsta kosti tveimur vikum fyrir Búnaðarþing. 

Miða skal við að fundargögn berist fulltrúum eigi síðar en viku fyrir setningu þings. 

Kjörbréfanefnd er kosin á Búnaðarþingi og starfar milli þinga. Hún skal ljúka störfum áður en þing hefst og skila áliti sínu eigi síðar en viku fyrir þingsetningu.  

Skylt er að kalla saman aukaþing ef að minnsta kosti helmingur þingfulltrúa óskar þess. Stjórn BÍ skal boða til aukaþings með minnst tveggja vikna fyrirvara. 

14. gr.

Fulltrúar á Búnaðarþingi eru 63. Fulltrúar búgreinadeilda eru samtals 54. Fjöldi fulltrúa skiptist milli búgreina þannig að hver deild hefur að lágmarki 1 fulltrúa en eftir það hefur velta greinarinnar í félagsgjöldum helmings vægi á móti fjölda félagsmanna.  

Búnaðarsambönd fá samtals sex fulltrúa eftir ákveðinni landshlutabundinni skiptingu: 

Bsb. Kjalarnesþings, Bst. Vesturlands, Bsb. Vestfjarða tilnefna einn fulltrúa. 

Bsb. Húnaþings og Stranda, Bsb. Skagfirðinga tilnefna  einn fulltrúa. 

Bsb. Eyjafjarðar, Bsb. S-Þingeyinga, Bsb. N-  Þingeyinga tilnefna  einn fulltrúa. 

Bsb. Austurlands tilnefnir einn fulltrúa. 

Bsb. A-Skaftafellssýslu, auk svæðis Bsb. Suðurlands að Jökulsá á Sólheimasandi tilnefna einn fulltrúa. 

Bsb. Suðurlands frá Jökulsá á Sólheimasandi að svæði Bsb. Kjalarnesþings tilefna einn fulltrúa. 

Önnur aðildarfélög sem starfa þvert á búgreinar tilnefna einn fulltrúa hvert: 

Samtök ungra bænda. 

Beint frá býli. 

VOR Vernd og ræktun – félag framleiðenda í lífrænum búskap. 

 

Jafnmargir varafulltrúar skulu kjörnir með sama hætti. Sami aðili getur ekki verið aðal- eða varafulltrúi fyrir nema eina búgreinadeild eða aðildarfélag á þinginu. 

Stjórnir búgreinadeilda og aðildarfélaga skulu tilkynna stjórn BÍ hverjir séu réttkjörnir þingfulltrúar af þeirra hálfu eigi síðar en tveimur vikum fyrir Búnaðarþing. Kæra út af kosningu þingfulltrúa skal berast stjórn BÍ eigi síðar en viku fyrir þingsetningu. 

Auk kjörinna fulltrúa búgreinadeilda og aðildarfélaga eiga sæti á þinginu; stjórn BÍ, kosinn endurskoðandi og skoðunarmaður reikninga og þeir starfsmenn samtakanna er stjórnin ákveður. Kjörnir fulltrúar hafa einir atkvæðisrétt, en aðrir sem rétt eiga til setu á þinginu hafa málfrelsi og tillögurétt í þeim málum er snerta starfssvið þeirra sérstaklega. 

Hvert aðildarfélag ber sjálft allan kostnað af fulltrúum sínum á Búnaðarþing.  

 

15. gr. Dagskrá Búnaðarþings

Á Búnaðarþingi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir eða lögð fram:  

a.     Þingsetning og ræða formanns. 

b.     Álit kjörbréfanefndar.  

c.     Kosning forseta þingsins og tveggja til vara. 

d.     Kosning tveggja ritara og tveggja skrifara.  

e.      Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar. 

f.       Reikningar samtakanna næstliðið reikningsár, endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og kjörnum skoðunarmönnum og samþykktir af stjórn samtakanna, fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár og drög að fjárhagsáætlun næstu þriggja ára. 

g.     Skýrsla um starfsemi samtakanna fyrir næstliðið ár og starfsáætlun samtakanna fyrir yfirstandandi ár.  

h.     Stefnumótun samtakanna.  

i.       Mál sem lögð hafa verið fram.  

j.        Breytingar á samþykktum.  

 

16. gr.

Stjórn BÍ ræður þinginu skrifstofustjóra úr hópi starfsmanna þeirra. 
Skrifstofustjóri þingsins er forseta til aðstoðar við þinghaldið. Hann annast m.a. skráningu þingskjala, umsjón með skrifstofuvinnu vegna þinghaldsins, útgáfu og dreifingu þingskjala. Þá skal hann í samráði við stjórn hlutast til um nauðsynlega gagnasöfnun vegna afgreiðslu þeirra mála er berast á tilsettum tíma fyrir þingsetningu. 

 

VI. kafli. Önnur ákvæði. 

17. gr.

Búnaðarþing skal setja sér sérstök þingsköp. Þingsköp Búgreinaþings skulu staðfest á Búnaðarþingi. 

18. gr.

Samþykktum þessum má aðeins breyta á Búnaðarþingi og þarf til þess samþykki a.m.k. 2/3 hluta þingfulltrúa 

19. gr. 

Ákvæði til bráðabirgða.

a.     Þrátt fyrir 2. mgr. 13. gr. skulu Búgreinafélög sem eru aðildarfélög að BÍ mynda búgreinadeildir frá sameiningu fram að Búnaðarþingi 2022. Þegar fyrir liggja upplýsingar um vægi búgreina innan BÍ verður deildaskipting endurskoðuð með tilliti til lágmarksfjölda og veltu hverrar búgreinar. 

b.     Við sameiningu búgreinafélaga við BÍ halda kjörnir fulltrúar þeirra kjörgengi út yfirstandandi kjörtímabil.  

c.      Sitjandi fimm manna stjórn Bændasamtaka Íslands starfar fram að Búnaðarþingi 2022. 

d.     Við sameiningu búgreinafélaga við Bændasamtök Íslands og fram að Búnaðarþingi 2022 er stjórn viðkomandi búgreinafélags sjálfkjörin stjórn deildar. 

 

Þannig samþykkt á Aukabúnaðarþingi 10. júní 2021.