Nautastöð BÍ

Bændasamtökin eiga nautastöð á Hesti í Borgarfirði en hún er rekin í sérstöku einkahlutafélagi, NBÍ ehf. Stöðin er miðstöð kynbótastarfs í nautgriparækt á Íslandi. Þar er safnað saman nautasæði úr úrvalsnautum til þess að sæða þúsundir kúa um allt land. 

Nautgripasæðingar á Íslandi  hófust í Eyjafirði 1945. Byrjað var að frysta nautasæði í Nautastöðinni á Hvanneyri 1969. Árið 2009 var Nautastöð BÍ flutt í nýtt húsnæði á Hesti í Borgarfirði.

Starfsemi

Naut á nautastöðina eru fengin þannig að kýr sem standast ákveðnar kröfur um ætterni, afurðir og byggingu eru metnar sem nautsmæður. Eigendurnir eru hvattir til þess láta sæða þessar kýr með sæði úr nautum sem á sama hátt eru metin sem nautsfeður vegna góðra eiginleika dætra þeirra. Þegar kýrnar eignast nautkálfa er Nautastöðinni boðnir þeir til kaups. Þannig kaupir Nautastöðin u.þ.b. 70 kálfa á ári. Kálfarnir eru sóttir þegar þeir eru orðnir 30 daga gamlir og eru þá settir í sérstakt einangrunarhús nokkrir saman þar sem þeir eru í fjórar vikur áður en þeir eru fluttir inn í sjálfa nautastöðina. Að jafnaði eru 75 naut á stöðinni frá tveggja mánaða til tveggja ára.

Þegar nautin eru u.þ.b. árs gömul er byrjað að þjálfa þau til sæðistöku og taka úr þeim sæði. Teknir eru  6.600 skammtar úr hverju nauti. Þegar fyrirsjáanlegt er að þeir gefi nægilega gott sæði er farið að senda sæði úr þeim til frjótækna sem starfa hver á sínu svæði í öllum landshlutum. Í fyrstu umferð eru sendir út 900 skammtar úr hverju nauti og þeim dreift í sömu hlutföllum og notkun sæðinga segir til um. Annað sæði er geynt í frysti þar til dætur nautanna fara að mjólka. Þegar nægilega margar dætur hafa mjólkað í 1 – 3 ár eru þær metnar og reiknað út hvað þær hafa mjólkað mikið á ári, hversu hátt hlutfall er af fitu og eggjahvítu í mjólkinni og lagt mat á ýmsa aðra eiginleika og byggingu og skapferli dætranna. Þau naut sem eiga bestu dæturnar eru notuð áfram og þau sem eiga allra bestu dæturnar fá þann heiður að verða nautsfeður. Vegna hættu á skyldleika má ekki nota meira en 6.600 skammta af sæði úr hverju nauti. Sæðinu úr nautunum sem ekki eignuðust nægilega góðar dætur er fleygt.

Árlega eru teknir u.þ.b. 170 þús. sæðisskammtar á Nautastöðinni en aðeins eru notaðir u.þ.b. 50.000 skammtar til þess að koma kálfi í u.þ.b. 28.000 kýr og 8.000 kvígur.

Starfsmenn

Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðumaður, netfang bull@emax.is

Sindri Gíslason, fjósameistari