Hótel saga

Hótel Saga er í eigu Bændasamtakanna en ákveðið var af stórhuga bændum á fimmta áratugnum að eiga hótel og athvarf í höfuðstaðnum. Hótelið var tekið í notkun árið 1962 og er fyrir löngu orðið þekkt kennileiti í bæjarmyndinni í Reykjavík. Skrifstofur Bændasamtakanna eru á þriðju hæð hótelsins. 

Reksturinn er í tveimur félögum sem bæði eru í eigu BÍ. Þau eru Bændahöllin ehf. sem rekur fasteignina og Hótel Saga ehf. sem rekur sjálft hótelið. 

Ingibjörg Ólafsdóttir er hótelstjóri og framkvæmdastjóri Bændahallarinnar ehf. 

Hótel Saga er lokuð um óákveðinn tíma vegna afleiðinga kórónaveirufaraldursins frá og með 1. nóvember 2020.Sögumolar
Árið 1958 veitti þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Gunnar Thoroddsen, lóðarleyfi við Hagatorg fyrir Bændahöllina. Framkvæmdir við byggingu Bændahallarinnar hófust í júlí 1956 þegar fyrsta skóflustungan var tekin. Fyrstu hæðir hússins voru teknar í notkun fyrir hótelrekstur árið 1962. Byggingu fyrri áfanga Bændahallarinnar lauk árið 1965. Eldri byggingin er á sjö hæðum auk kjallara og Stjörnusalarins, sem er áttunda hæðin. Á áttunda áratugnum var ákveðið að byggja við Bændahöllina að norðanverðu sjö hæða byggingu. Framkvæmdir við viðbygginguna hófust árið 1982 og lauk 1985.

Fasteignin er um 20.000 fermetrar að stærð og allt að eitt þúsund manns koma í Bændahöllina á hverjum einasta degi. Í Bændahöllinni eru 236 hótelherbergi á vegum Hótel Sögu. Þar er rakari, hárgreiðslustofa, bankaútibú, stór ráðstefnudeild og umfangsmikill veitingarekstur. 

Árið 2012, í tilefni 50 ára starfsafmælis Hótel Sögu, var gefið út fylgiblað með Bændablaðinu, Hótel Saga í 50 ár.