Fjármál og rekstur

Bændasamtökin eru frjáls félagasamtök og í bókhaldi þeirra er skilið á milli þeirra fjármuna sem koma frá ríkinu vegna lögbundinna verkefna og fjármuna sem fara í að reka hagsmunabaráttu bænda. Rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins, sem hið opinbera gerir við Bændasamtökin, má lesa í heild sinni hér á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Í fjárlögum er liður sem heitir „Búnaðarlagasamningur“. Fjármunirnir sem þarna um ræðir renna meðal annars til ráðgjafarstarfs í landbúnaði, jarðabóta í sveitum, til Framleiðnisjóðs (sem er þróunar- og nýsköpunarsjóður landbúnaðarins) búfjárræktarstarfs og fleira sem er óskylt rekstri hagsmunabaráttu bænda.

Fram til áramótanna 2016/2017 var hagsmunabarátta BÍ rekin fyrir tekjur af búnaðargjaldi sem ríkið innheimti af bændum. Nú greiða bændur félagsgjöld til sinna samtaka sem nýtt eru í sama tilgangi og búnaðargjaldið áður. 

Tekjur Bændasamtakanna eru í meginatriðum þrenns konar. 1) Tekjur samkvæmt búnaðarlögum og félagsgjöld frá bændum, (2) þjónustu- og sölutekjur af rekstri, (3) útleiga húsnæðis og fjármunatekjur. 

Fjármál og skrifstofa annast alla daglega fjármálaumsýslu og rekstrarstjórn skrifstofu. Deildin sér um allt bókhald samtakanna, heldur utan um fjárreiður og gegnir því hlutverki að ávöxtun og varsla fjármuna skili hámarks árangri. Fjármálasvið hefur með höndum ráðningar og stuðlar að þjálfun starfsmanna, gerir ráðningarsamninga og sér um launagreiðslur.