Nýtt matskerfi fyrir nautgripakjöt, EUROP-mat, hefur verið tekið upp með breytingu á reglugerð nr. 882/2010 um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða. Breytingin tekur gildi 1. júlí 2017.

EUROP-matið gefur kost á nákvæmari flokkun en það séríslenska kerfi sem hefur verið í notkun síðan 1994, einkum á nákvæmari flokkun eftir holdfyllingu.

EUROP-matið er hugsað sem 15 flokka kerfi, annars vegar flokkun í holdfyllingu, hins vegar í fitu. Talað er um fimm aðalflokka í hvoru tilviki. Holdfyllingarflokkarnir eru auðkenndir með bókstöfunum E U R O P, þar sem E er best og P lakast. Fituflokkarnir eru auðkenndir með tölustöfunum 1 2 3 4 5 eftir aukinni fitu.

Hverjum flokki er hægt að skipta í þrjá undirflokka með plús og mínus (efri, miðju, neðri), t.d. O+, O, O- í holdfyllingu og 2+, 2, 2- í fitu.

Skrokkar af öllum nautgripum eldri en þriggja mánaða verða metnir á sama hátt samkvæmt EUROP- matinu, óháð aldri og kyni. Mat á ungkálfum (UK) að þriggja mánaða aldri verður óbreytt.

Kynningarbækling um EUROP-nautakjötsmatið má nálgast hér

Í búvörusamningum var gert ráð fyrir því að nýtt kjötmat væri komið til framkvæmda 1. janúar 2017 og sláturálag yrði greitt yrði eftir því. Vegna seinkunar gildistöku reglugerðarinnar lagði LK fram þá tillögu að nautgripaskrokkar sem framleiddir voru frá og með 1. janúar 2017 og til gildistökudags EUROP matsins, njóti sláturálags skv. ákvæðum 20. gr. reglugerðar nr. 1150/2016, ef þeir uppfylli eftirtalin skilyrði;

a) Nautgripakjöt falli í gæðaflokkana UNI úrval eða UNI fituflokka A, B og C.

b) Lágmarksþyngd grips sé 250 kg,

c) gripur sé yngri en 30 mánaða.

Var sú tillaga samþykkt af framkvæmdanefnd búvörusamninga og verður því greitt eftir þeirri flokkun fram til 1. júlí nk.

Reglugerðina í heild sinni má nálgast hér.

Fundargerð framkvæmdanefndar búvörusamninga