Samþykktir Kúabændafélagsins Baulu á Vesturlandi.

1.      Kúabændur í Borgarfirði, á Mýrum og á sunnanverðu Snæfellsnesi mynda með sér Kúabændafélagið Baulu á Vesturlandi.

 

2.      Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna þeirra, sem stunda framleiðslu mjólkur og nautgripakjöts í atvinnuskyni á félagssvæðinu, og vera félagslegur vettvangur þeirra á því sviði.Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

a) koma fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart öðrum aðilum, svo sem afurðastöðvum, ýmsum þjónustuaðilum, opinberum stofnunum og félagasamtökum.

b) vera aðili að Landssambandi Kúabænda,

c) annast aðra starfsemi til hagræðis og styrktar fyrir félagið.

 

3.      Félagsmenn geta þeir orðið, sem stunda nautgriparækt í atvinnuskyni á félagssvæðinu.

 

4.      Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok aprílmánaðar ár hvert og aukafundir eftir því sem tilefni eru. Skylt er stjórn félagsins að boða til aukafundar ef 1/10 félagsmanna krefst þess skriflega, enda sé þá fundarefni tilgreint.  Aðalfundur skal boðaður með minnst viku fyrirvara.

Á dagskrá aðalfundar skal vera:

 

1. Skýrsla stjórnar.

2. Afgreiðsla ársreikninga.

3. Tillögur og erindi löglega upp borin.

4. Kosningar. Kjósa skal:

a) 5 menn í stjórn til eins árs og 3 til vara.

b) Annan tveggja skoðunarmanna reikninga til tveggja ára og varamann hans.

c) Fulltrúa á fundi Landssambands Kúabænda.

5. Ákvörðun árgjalds.

6. Ákvörðun þóknunar stjórnarmanna og skoðunarmanna.

7. Önnur mál.

 

5.      Stjórn félagsins skipa 5 menn sbr. 4. grein. Hún fer með málefni þess milli félagsfunda og skal sjá um að þau séu í sem bestu horfi.  Að afloknu stjórnarkjöri hverju sinni skiptir stjórn með sér verkum formanns, varaformanns og ritara.  Allar fundargerðir stjórnar skulu skráðar í gerðabók og undirrita viðstaddir stjórnarmenn þær að færslu lokinni. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna er á fundi.

 

6.      Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi, og þá því aðeins að breytingartillögur hafi verið kynntar með fundarboði,  nægir þá til þess einfaldur meirihluti atkvæða.