Nokkrar hentugar upplýsingar fyrir ferðafólk

Rétt er að minna á örfá atriði sem ávalt eru vangaveltur um í ferðum á vegum LK.

 

Vegabréf

Það er ekki nauðsynlegt að taka vegabréf með í ferðir til landa sem vegabréfssamningur er við. Hinsvegar er mjög skynsamlegt að taka vegabréfið með t.d. ef þú þarft að taka peninga út úr banka eða kaupa vörur án virðisauka (Tax Free), þar sem það er hægt.

 

GSM-sími

Ef GSM-sími verður með í för þá virkar hann í flestum löndum heims, að því gefnu að símakortið gildi yfirhöfuð erlendis (t.d. GSM-frelsi gerir það ekki). Þegar hringt er í íslenskt GSM-númer í viðkomandi ferðalandi þarf að hringja fyrst til Íslands. Það er gert þannig að fyrst er settur + (plús) eða 00, þá landsnúmer Íslands (354) og síðast númerið sjálft. Rétt er að benda á að hægt er að láta breyta sk. frelsisnúmerum (skafmiðanúmerum) þaannig að þau virki erlendis í ákveðinn tíma. Þetta kostar einhvert breytingagjald, en getur verið þess virði. Benda má á að þetta er m.a. hægt að gera í Leifsstöð. Munið bara að breyta til baka aftur þegar heim er komið, því annars lendið þið í því að borga fast mánaðargjald!

 

Peningaúttekt erlendis

Ef þú hefur kredit-kort eða debet-kort, getur þú farið í hvaða hraðbanka sem er og tekið út. Með debet- og kredit-kortum er hægt að taka peninga út úr banka en upphæðin, sem daglega (á sólarhring) er hægt að taka út, getur verið mismunandi eftir kortum. Þú þarft þó að hafa s.k. pin-númer eða leyninúmer, til að geta notað hraðbanka (ef það er týnt þarf að panta það strax í bankanum – tekur ca. 3 daga). Ef sími er með í för getur verið gott að vista í minni hans leyninúmer debet- og/eða kreditkortanna undir einhverjum nöfnum sem þið þekkið (vista sem fjögurra talna símanúmer!). Debet-kort er oft ekki hægt að nota í verslunum erlendis, en kredit-kort á að vera hægt að nota.

 

Magn farangurs

Varðandi magn farangurs, þá þarftu að kynna þér skilmálana sem gilda hjá viðkomandi flugfélagi en nokkuð breytilegt er í dag hve þunga tösku má taka með sér. Ef þú telur þig tæpa/-n á þessu, þá skaltu bara vigta töskuna á baðvigtinni – hún lýgur ekki… Þú skalt endilega varast að fara yfir mörkin, það taka flugfélögin mikið fyrir.  Þá gilda einnig ákveðnir skilmálar varðandi stærð og þunga á handfarangri og eru kröfurnar nokkuð ólíkar eftir flugfélögum. Sum flugfélög (t.d. lággjalda) fara mjög stíft eftir kröfunum og rukka fyrir umfram stærð/þyngd.

 

Ferðir til Keflavíkur

Varðandi ferðir hérlendis, þá er rétt að greina frá valmöguleikum í því sambandi:

Hægt er að taka Flugrútuna sem fer frá Umferðamiðstöðinni (BSÍ) í Reykjavík með reglubundnum hætti og til baka þegar flugvélarnar koma að utan (brottfarartímarnir fyrir flugrúturnar birtast á skjá hjá töskufæriböndunum í Leifsstöð). Nánari upplýsingar um Flugrútuna má lesá hér: www.flugrutan.is. Einnig má lesa um flugrútun í textavarpi Sjónvarpsins (eða www.textavarp.is).

Það er einnig hægt að fara út á völl með Airport Express rútunni sem fer frá Lækjartorgi og sækir einnig farþega á flest hótel í bænum. Hægt er að lesa um þennan þjónustuaðila hér: www.airportexpress.is. Verðið hjá þessum rútufyrirtækjum er oftast mjög svipað.

Svo er auðvitað hægt að taka leigubíl út á völl og er verðið breytilegt eftir því hvaðan er farið, en þetta er þó lang dýrasti valkosturinn í stöðunni.

 

Geymsla á bíl í Keflavík

Þá er auðvitað hægt að fara á einkabíl og bjóðast nokkrir valkostir við geymslu. Hægt er að geyma bíla úti á flugvelli, sjá nánar hér: www.kefparking.is. Þegar bíllinn er settur á útistæði færðu sérstakan miða sem þú geymir á meðan á för stendur. Við heimkomu er miðinn settur í þar til gerðan sjálfsala sem reiknar út gjaldið sem á að greiða (hægt að borga með peningum, kredit- eða debetkorti). Einnig er hægt að skila miðanum inn til Securitas (hafa afgreiðsluborð við útgang) og greiða þar. Þriðji valkosturinn er að greiða beint úti á útistæðinu, en það er þó einungis hægt með kreditkorti

Þú getur einnig valið að geyma bílinn í bílastæðahúsi, sjá nánar hér: www.bilahotel.is. Á meðan bíllinn er í geymslu er svo hægt að láta þrífa og bóna bílinn og fer verð eftir stærð bíls. Óhætt er að mæla sérstaklega með þessu, enda fátt betra þegar komið er heim úr ánægjulegu fríi að fá í hendurnar nýþrifinn og bónaðan bíl! Rétt er að benda á að ef bóna á bílinn, þarf að fylla út sérstakt eyðublað í Leifsstöð, festa við lykil bílsins og setja í sérstakan kassa (rétt við inngangana).

 

Gisting í Keflavík og geymsla á bíl

Einn valkostur enn er að notfæra sér hótelgistingu í Keflavík fyrir brottför og bjóða sum þessara hótela einnig upp á að geyma bíla fyrir ferðafólk á meðan það er erlendis. Ekki skal fullyrt að eftirfarandi listi sé tæmandi fyrir gistivalkosti í Keflavík: www.hotelkeilir.is, www.hotelkeflavik.is, www.bbkeflavik.com, www.alex.is, www.hotelsmari.is, www.icelandairhotels.com/hotels/flughotel.

 

Einfalt að fylgjast með brottfarartíma heima í stofu

Hægt er að fylgjast með brottfarartíma flugvélarinnar á síðu 421 á textavarpi Sjónvarpsins (www.textavarp.is). Með því móti er hægt að fylgjast með hvort um seinkun er að ræða eða annað slíkt. Komutímar eru á síðu 420.

Einnig má benda á að ýmsar upplýsingar um flug og þjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er að finna á vefsíðunni: www.kefairport.is.

 

Uppfært 14. júlí 2013/SS.