Nokkrar hentugar upplýsingar fyrir ferðafólk

Rétt er að minna á örfá atriði sem ávalt eru vangaveltur um í ferðalögum. 

 

Vegabréf

Það er ekki nauðsynlegt að taka vegabréf með í ferðir til landa sem vegabréfssamningur er við. Hinsvegar er mjög skynsamlegt að taka vegabréfið með t.d. ef þú þarft að taka peninga út úr banka eða kaupa vörur án virðisauka (Tax Free), þar sem það er hægt.

 

Farsímar 

Frasímar virka orðið í all flestum löndum heims. Flest farsímafyrirtæki bjóða orðið upp á sambærilega farsímaþjónustu og verð í öllum löndum innan EU/EES eins og hér á landi. Sé stefnan sett á lönd utan EU/EES ráðleggjum við ykkur að afla ykkur upplýsingar um verðskrár og þjónustu hjá ykkar símafyrirtæki, en flest fyrirtæki bjóða upp á svokallaða ferðapakka. 

Hér að neðan má finna helstu upplýsingar um útlönd hjá eftirfarandi fyrirtækjum: 

Nova

Vodafone 

Síminn 

Þegar hringt er í íslenskt númer í viðkomandi ferðalandi þarf að muna eftir því að setja + (plús) eða 00, þá landsnúmer Íslands (354) og síðast númerið sjálft. 

Ef breyta þarf áskriftarleiðum á meðan ferðlaginu stendur, minnum við ykkur á því að breyta því til baka aftur þegar heim er komið (ef það gerist ekki sjálfkrafa) til að forðast óþarfa gjöld. 

 

Peningaúttektir og notkun greiðslukorta erlendis

Felstir ferðast orðið með kredit- og debetkort með sér í fríið, ásamt því að taka með sér einhvern gjaldeyri (mismunandi eftir löndum). Hægt er að fara í banka eða hraðbanka til að taka út pening en upphæðin sem má taka út á sólarhring getur verið breytileg eftir kortum, gott er að kynna sér skilmála á sínu korti. Flest allar stærri verslanir bjóða orðið upp á að greiða með greiðslukortum en taka þær þó ekki allar við debetkortum. Ef greiða á með greiðslukorti þarf oftast að slá inn fjögurra stafa pin-númer eða leyninúmer, sama númer og gefa þarf upp þegar peningar eru teknir út í hraðbönkum. Sumar verslanir bjóða orðið einnig upp á snertilausar lausnir (símaveski) en þá þarf að auðkenna greiðsluna með pin-númeri, fingrafari eða andlitsauðkenningu. Ráðlagt er þó að greiða með reiðufé á mörkuðum (enda taka þeir oft ekki greiðslukort) sem og minni óþekktum verslunum. 

Ef illa gengur að muna pin-númerið getur verið gott að vista í minni hans leyninúmer debet- og/eða kreditkortanna undir einhverjum nöfnum sem þið þekkið (vista sem fjögurra talna símanúmer!). 

 

Magn farangurs

Varðandi magn farangurs, þá þarftu að kynna þér skilmálana sem gilda hjá viðkomandi flugfélagi en nokkuð breytilegt er í dag hve þunga tösku má taka með sér. Ef þú telur þig tæpa/-n á þessu, þá skaltu bara vigta töskuna á baðvigtinni – hún lýgur ekki… Þú skalt endilega varast að fara yfir mörkin, það taka flugfélögin mikið fyrir.  Þá gilda einnig ákveðnir skilmálar varðandi stærð og þunga á handfarangri og eru kröfurnar nokkuð ólíkar eftir flugfélögum. Sum flugfélög (t.d. lággjalda) fara mjög stíft eftir kröfunum og rukka fyrir umfram stærð/þyngd.

 

Ferðir til Keflavíkur

Varðandi ferðir hérlendis, þá er rétt að greina frá valmöguleikum í því sambandi:

Hægt er að taka Flugrútuna sem fer frá Umferðamiðstöðinni (BSÍ) í Reykjavík með reglubundnum hætti og til baka þegar flugvélarnar koma að utan (brottfarartímarnir fyrir flugrúturnar birtast á skjá hjá töskufæriböndunum í Leifsstöð). Nánari upplýsingar um Flugrútuna má lesa hér: https://www.re.is/is/tour/flybus/

Það er einnig hægt að fara út á völl með Airport Direct rútunni sem fer frá Reykjavík Terminal umferðarmiðstöðinni í Skógarhlíð 10 með einu stoppi í Hamraborg í Kópavogi. Farþegar geta bætt hóteltengingu við bókunina sína, þá eru þeir sóttir eða skutlað á hótel, gististað eða næstu sérmerktu rútustoppistöð í miðborg Reykjavíkur. Hægt er að lesa um þennan þjónustuaðila hér: https://airportdirect.is/is. Verðið hjá þessum rútufyrirtækjum er oftast mjög svipað.

Svo er auðvitað hægt að taka leigubíl út á völl og er verðið breytilegt eftir því hvaðan er farið, en þetta er þó lang dýrasti valkosturinn í stöðunni.

 

Geymsla á bíl í Keflavík

Þá er auðvitað hægt að fara á einkabíl og bjóðast nokkrir valkostir við geymslu. Hægt er að geyma bíla úti á flugvelli, sjá nánar hér: https://www.isavia.is/keflavikurflugvollur/bilastaedi-og-samgongur/bilastaedi. Ráðleggjum við ferðalöngum að bóka bílastæði á netinu áður en ferðlagið hefst. Bílastæðið er þá bókað í samræmi við þinn flugtíma en verðin eru breytileg, því lengri sem fyrirvarinn er, því betra verð. Við bókun færðu sendan kóða í tölvupósti sem þú skannar í snjallsímanum þínum í hliðið, bæði við út og innkeyrslu. Einnig má prenta út kóðann og skanna hann þannig. 

Ef bílastæði eru ekki bókuð fyrirfram, eru verðin hærri en þá færðu sérstakan miða þegar bílinn er settur á útistæði sem þú geymir á meðan för stendur. Við heimkomu er miðinn settur í þar til gerðan sjálfsala sem reiknar út gjaldið sem á að greiða (hægt að borga með peningum, kredit- eða debetkorti). Glatist bifreiðastæðamiði er krafist aukagreiðslu. 

Fjölmörg fyrirtæki bjóða einnig upp á að geyma bílinn fyrir þig á meðan ferðlaginu stendur. Sum þeirra bjóða einnig upp á þrif og bónun á bílnum og fer verð eftir stærð bíls. Óhætt er að mæla sérstaklega með þessu, enda fátt betra þegar komið er heim úr ánægjulegu fríi að fá í hendurnar nýþrifinn og bónaðan bíl! 

Ráðleggjum við þó ferðalöngum að kynna sér sérstaklega þjónustu þessara aðilla áður en bókun er gerð. 

Eftirfarandi fyrirtæki bjóða upp geymslu á bílum (í stafrófsröð) á meðan ferðalagi stendur (listinn er ekki tæmandi): 

Base Parking Keflavíkurflugvelli 

Betri Þrif 

Bílaþrif Hvalvík 

CarPark Keflavíkurflugvelli

Geysir Bílahótel 

Lagning Keflavíkurflugvelli

Avis Flugstæði (fyrir þá sem eru með Avis langtímaleigu) 

Hertz Keflavíkurflugvelli (fyrir þá sem eru með Hertz langtímaleigu) 

  

Gisting í Keflavík og geymsla á bíl

Einn valkostur enn er að notfæra sér hótelgistingu í Keflavík fyrir brottför og bjóða sum þessara hótela einnig upp á að geyma bíla fyrir ferðafólk á meðan það er erlendis.

Ekki skal fullyrt að eftirfarandi listi sé tæmandi fyrir gistivalkosti í Keflavík en hér eru nokkrir gististaðir sem bjóða upp á þessa þjónustu: 

B&B Guesthouse

Gistiheimili Keflavíkur (skutl upp á flugvöll ekki innifalið) 

Hótel Keilir

Konvin Hotel 

 

Einfalt að fylgjast með brottfarartíma heima í stofu

Inn á heimasíðu Keflavíkurflugvallar má finna ýmsar upplýsingar um flug og þjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.