Lífræn mjólkurframleiðsla Sjúkdómar | Réttindi | Eyðublöð vegna beingreiðslna í mjólk og gripagreiðslna | Fagtímarit | Kynbætur og ræktun | Upplýsingar um dýralyf og hjálparefni | Stefnumótun | Ferðir og ferðalög | Ýmsar skýrslur | NMSM | Búvörusamningar | Aðbúnaðarreglugerð    | Verðskrár nautgripakjöts  | Verðskrá fóðurs

 

Kúabúskapur á Íslandi í hnotskurn

NautgripirHagstofa 2018
Fjöldi mjólkurframleiðenda551 (jan. 2020)
Fjöldi mjólkurkúa26.386
Holdakýr2.640
Kvígur6.009
Geldneyti23.402
Heildarframleiðsla á ári RML 2019
Mjólk151,8 milljón lítrar
Nautakjöt4.826 tonn
Meðalmjólkurnyt á ári6.416 kg
Fjöldi nautgripa eftir landshlutum 2018
Höfuðborgarsvæði og Suðurnes1.324
Vesturland og Vestfirðir12.559
Norðurland vestra13.589
Norðurland eystra18.232
Austurland4.856
Suðurland30.825
Samtals81.385

 

Íslenska kýrin

Uppruni íslensku kýrinnar hefur verið rakinn aftur til landnáms um 874 en hún er skyldast norska kyninu „Sidet Trønder og Nordlandsfe“. Minniháttar innflutningur frá Danmörku á 18. og 19. öld hafði engin áhrif á kynið. Öll mjólkurframleiðsla í landinu byggist á þessu landnámskyni og eru mjólkurkýr í landinu nú samtals um 26.400.

Íslenska mjólkurkýrin er smávaxin, meðalkýrin vegur aðeins um 470 kg. Kýrnar eru marglitar og hafa fjölbreyttari liti en nokkur annar nautgripastofn í Evrópu. Nú á dögum er lítið um hyrndar kýr vegna markviss úrvals gegn hornum síðustu áratugi. Meðalmjólkurnyt skýrslufærðra kúa á Íslandi árið 2019 er 6.416 kg með 4,25% fitu og 3,41% próteini. Í fáeinum tilvikum getur ársnytin hjá einstaka kúm farið upp í 11.000–13.000 kg.

Próteineiginleikar íslensku mjólkurinnar eru sérstæðir og jákvæðir fyrir hollustu og gæði. Hin sérstaka próteinsamsetning gerir það að verkum að íslenska mjólkin hentar einstaklega vel til ostagerðar. Einnig eru tilgátur uppi um að próteinsamsetningin gefi vörn gegn sykursýki í börnum.
Utan Íslands eru aðeins fáeinar kýr af íslenskum stofni, þ.e. á Grænlandi og í Danmörku, en sæði hefur verið flutt til Svíþjóðar í smáum stíl til notkunar í gömlum nautgripakynjum í útrýmingarhættu.

 

Innflutt nautgripakyn

Á Íslandi erum við með þrjár tegundir af holdanautum; Galloway, Limousin og Aberdeen Angus. Öll holdanautakyn á Íslandi eru af breskum og frönskum uppruna. Fyrsti Galloway-innflutningurinn var árið 1933 og byggðist á einum nautkálfi. Galloway-sæði var flutt inn á áttunda áratug 20. aldar og á tíunda áratugnum voru ræktaðir upp stofnar af Aberdeen Angus og Limousin holdagripum með innflutningi fósturvísa. Aðeins eru til fáeinar hjarðir holdakúa sem ganga með kálfum, einkum af Galloway-kyni.

Í árslok 2017 voru fluttir inn fósturvísar af Angus Aberdeen til landsins og settir upp í kýr á einangrunarstöð að Stóra-Ármóti í Flóahreppi. Er það í fyrsta sinn í 20 ár sem nýtt erfðaefni kemur í holdanautgripastofninn hér á landi. Komu fyrstu kálfarnir í heiminn haustið 2018 og hafa fleiri bæst við síðan. Flytja má gripi úr einangrunarstöðinni við 9 mánaða aldur og sæði úr nautkálfum verður einnig dreift. Bændur geta einnig keypt fósturvísa frá stöðinni.

 

Nautakjöt

Í Kjötbókinni er að finna fróðleik um nautakjöt, lambakjöt,svínakjöt,hrossakjöt og fuglakjöt; ítarlega lýsingu á viðkomandi tegund, beinabyggingu og heiti vöðva. Einnig næringarinnihald, stærð og þyngd stykkja, kjötmat, framleiðsluupplýsingar, auk fræðsluefnis úr rannsóknum á viðkomandi kjöttegund. Þar er ennfremur að finna tengla fyrir uppskriftir og á einstaka stað sýnikennsla um úrbeiningu.

Kjötbókin er gefin út af Matís með stuðningi búgreinafélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

 

Hver er munurinn á nautakjöti og nautgripakjöti?

Framleiðsla á nautakjöti hér á landi er að mestu leyti með alíslenskum gripum þar sem nautkálfar eru settir á og aldir sem hliðarbúgrein við mjólkurframleiðslu. Annað nautgripakjöt sem kemur inn til slátrunar eru kýr, kvígur og ungkálfar.


 

Neysla Íslendinga á mjólkurafurðum

Neyslumynstur Íslendinga hefur breyst nokkuð á liðnum árum en í heildina hefur mjólkurframleiðsla aukist. Landsmenn neyta minna magns af mjólk og skyri en meira af ostum og viðbiti (smjöri o.fl.).

Aukning í neyslu osta og viðbits útkýrir aukna mjólkurframleiðslu, en um 10 lítra af mjólk þarf til að framlieða eitt kíló af osti og rúma 20 lítra af mjólk þarf til að framleiða eitt kíló af smjöri.

 

Meðalneysla Íslendinga á mann

Vörur20042013
Drykkjarmjólk130 lítrar110 lítrar
Skyr16,7 kg10 kg
Ostar15 kg18 kg
Viðbit5,4 kg6,5 kg

151,8 milljónir lítra á öllu landinu

Mikil uppbygging og tæknivæðing hefur átt sér stað og töluverð aukning hefur orðið á framleiðslugetu íslenskra mjólkurkúa. Þær breytingar má að mestu leyti rekja til tveggja þátta, annars vegar fóðrunar og aðbúnaðar og hins vegar mismunandi áherslna og árangurs í kynbótastarfi. Nú (árið 2020) eru milli 26-27 þúsund mjólkurkýr á Íslandi á 551 kúabúi og  samtals mjólka þær um 151,8 milljónir lítra á ári.

19862020
Kúabú1.820551
Mjólkurkýr34.00026.386
Lítrar af mjólk110 milljónir151,8 milljónir
Stærð meðalbúa60.000 lítrar279.900 lítrar
Meðalnyt3.396 kíló6.416 kíló

 

Litafjölbreytni

Íslenski kúastofninn er einn litríkasti stofn kúa í heiminum í dag. Íslenski stofninn samanstendur af sex viðurkenndum grunnlitum; rauðum, svörtum, bröndóttum, kolóttum, gráum og sægráum, og hafa þeir allir sín blæbrigði. Auk þess getur hvítur litur komið fram í formi fjölmargra litamynstra víðs vegar um skrokkinn, t.d. sem skjöldótt, huppótt, sokkótt, leistótt, grönótt, hjálmótt, krossótt, hvítt í hala eða týru, eða hvítri stjörnu.

Rauður grunnlitur er algengastur innan íslenska kúastofnsins en um 43% íslenskra kúa eru rauðar. Bröndóttar kýr eru næstalgengastar eða um 29% en sjaldgæfastar eru sægráar kýr sem ná aðeins að spanna um 1,5% kúastofnsins og gráar kýr sem eru um 1,8% kúastofnsins.  

 

Afkvæmi og kynbótastarf

Kýr ganga með kálfa í rúma níu mánuði (287 daga að meðaltali). Það er enginn ákveðinn fengitími en tími milli gangmála (gangferli) er að meðaltali 21 dagur og hvert gangmál (beiðmál) er að meðaltali 20 klukkustundir. Þegar kýr er með kálfi er talað um að kýrin sé kelfd. Yfirleitt eiga kýr einn kálf í einu en þær geta þó átt tvo í einu þótt það sé fremur sjaldgæft. Ef að kýr eignast kvígu og naut í sama burði er kvígan nær undantekningalaust ófrjó.

Meðalaldur kvígna við burð var 29 mánaða árið 2014 en rannsóknir hafa leitt í ljós að hagkvæmast er að kvígur beri um 24 mánaða gamlar. Mikilvægt er að kýr beri með því sem næst eins árs millibili og til að halda því þarf kýrin að hafa fest fang að nýju innan 80 daga frá burði.

Í dag er um 70% kúa og kvígna sæddar með sæði frá Nautastöð Íslands en 30% með heimanauti. Þegar kýr og kvígur eru sæddar kemur viðurkenndur frjótæknir á bæinn og sér um sæðinguna.

 

 

Uppeldi kálfa og aðbúnaður

Uppeldi kálfs hefst í raun um leið og meðgangan hefst. Það er mikilvægt að huga að heilsu móður á meðgöngunni til að geta átt von á hraustum og lifandi kálfi í heiminn. Nýfæddir kálfar hafa hlutfallslega mikla vaxtargetu og því rétt að nýta hana til fulls með réttri fóðrun frá upphafi. Kálfar fá engin mótefni í gegnum naflastreng í móðurkviði og treysta því alfarið á að fá broddmjólk sem er rík af nauðsynlegum mótefnum. Það er því mjög mikilvægt að kálfurinn fái broddinn sem fyrst, innan tveggja tíma frá fæðingu.

Kálfar í náttúrulegu umhverfi sjúga 5-8 sinnum á dag og til þess að ná sem bestum árangri þarf að líkja eftir þessu ferli. Við náttúrulegar aðstæður geta kálfar drukkið allt að 12 lítra af mjólk á dag. Eitt er þó víst að eigi að reyna að fylgja náttúrulegu atferli þarf mikla mjólkurgjöf eða jafnvel frjálsan aðgang. Einnig er mælt með frjálsum aðgangi að kálfakjarnfóðri sem er yfirleitt sætara og auðmeltanlegra en hefðbundið kjarnfóður fyrir mjólkurkýr. Kjarnfóður ætti að gefa alveg þar til kálfarnir eru orðnir 4–5 mánaða gamlir. Hey fyrir kálfa má ekki innihalda mikið tréni og þarf að vera þurrt þar sem próteingæði þess eru meiri en í votheyi. Þurr og próteinrík há er því kjörið kálfafóður. Vatn á alltaf að vera hjá kálfum en það stuðlar að betra heilbrigði, lægri dánartíðni og auknu kjarnfóðuráti.
Aðbúnaður kálfa hefur tekið nokkrum breytingum á síðastliðnum árum. Leikföng fyrir kálfa njóta sífellt meiri vinsælda  og víða eru komnir kúaburstar fyrir smákálfa.

Kálfar þurfa mjúkt og þurrt undirlag sem leiðir kulda illa. Hálmur er mjög heppilegur og einangrar vel undir kálfum. Þetta er sérstaklega nauðsynlegt að hafa í huga þar sem kálfar þurfa mun hærra hitastig í fjósum en mjólkurkýr, eða um 9°C.

Kálfarnir eiga að geta legið með útrétta fætur og hafa minnst 1 m gólfflöt/grip. Þegar kálfarnir eru orðnir 8 vikna eiga þeir að vera í hópstíum. Jötupláss á að vera 30 cm á kálf og mest mega 4 kálfar deila átplássi, sé stöðugur aðgangur að fóðri.

 

Fjórir magar og fjórir spenar

Kýrin er stórt og þunglamalegt dýr. Kýrin er lágfætt og kviðmikil. Flestar kýr eru kollóttar, þ.e. þær eru ekki með horn. Kýr sem eru með horn eru kallaðar hyrndar.

Mjólkin verður til í júgrinu og mjólkast út um spenana. Örsmáar frumur fjarlægja vatn og næringarefni úr blóðinu og umbreytir í mjólk sem geymist í ákveðnu hólfi þar til kýrin er mjólkuð. Júgrið hefur fjögur hólf, hvert fyrir sinn spena.

Kýrin er jórturdýr og hefur fjóra magasekki sem kallast vömb, keppur, laki og vinstur. Kýrin jórtrar með því að elgja upp lítið meltri tuggu (selja henni upp í munnholið), tyggja hana þá aftur og kyngja henni síðan enn á ný og þá taka bakteríur vambarinnar við og brjóta niður trénið í átunni.

Síðast uppfært 17. mars 2020/MG