13. janúar 2023

SAM: 148 milljón lítra mjólkurframleiðsla árið 2022

SAM: 148 milljón lítra mjólkurframleiðsla árið 2022

Samkvæmt yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) nam heildarinnvigtun ársins 2022 um 147,97 milljónum lítra. Heildarinnvigtun ársins á undan, 2021, nam 148,8 milljónum lítra sem þýðir að heildarinnvigtun mjólkur hefur dregist saman um 0,6% eða 860 þúsund lítra á milli ára.

Þetta ætti því miður ekki að koma á óvart þar sem samdráttur fyrri hluta ársins var mikill og munaði mest rúmlega 2,5 milljónum lítra á framleiðslu áranna 2021 og 2022 í júlí. Seinni hluta ársins bættu kúabændur þó heldur í þegar umframmjólkurverð var hækkað og framleiddu íslenski kúabændur að meðaltali 340 þúsund lítrum meira í hverjum mánuði síðustu fimm mánuði ársins 2022 samanborið við 2021. Í desember 2022 nam innvigtun mjólkur 12,1 milljónum lítra sem er 3% meiri framleiðsla en í desember 2021.

Sala ársins 2022 á fitugrunni var 147,2 milljónir lítra sem er aukning um 1,1% frá því árinu áður. Sala mjólkur á próteingrunni jókst einnig á milli ára og endaði í 128 milljónum lítra, sem er aukning um 3,1% frá 2021. Jákvætt er að sjá að bæði salan er að aukast en jafnframt er munurinn á fitu- og próteinsölu að minnka.

Sé litið til síðustu þriggja mánuði ársins 2022 varð 3,8% aukning í sölu á próteingrunni á meðan aukningin var örlítið minni eða 1,2% á fitugrunni. Samanburður á desember mánuði milli áranna 2022 og 2021 gefur okkur að sala á próteingrunni var 4,7% meiri í desember 2022 og sala á fitugrunni var 7,4% meiri árið 2022 samanborið við árið á undan. Ekki er ólíklegt að jólahlaðborð og veisluhöld spili þarna stóran part en í fyrra var minna um slíka viðburði sökum Covid-19 ástands.

  

Til fróðleiks og samanburðar má hér sjá helstu lykiltölur mjólkurframleiðslu og -sölu síðan 2005:

Ár Innvigtun mjólkur
(millj. lítra)
Sala á próteingrunni
(millj. lítra)
Sala fitugrunni
(millj. lítra)
2022 148 128 147,2
2021 148,8 123,6 144,3
2020 151,2 122,5 142,8
2019 151,8 126,2 147
2018 152,4 129,5 144,8
2017 151,1 132,3 144,1
2016 150,2 129 139,2
2015 146 122,6 132,8
2014 133,5 121,2 129
2013 122,9 117,6 120,8
2012 125,1 115,5 114,1
2011 124,8 113,7 111,5
2010 123,2 114,7 110,7
2009 125,6 117,7 115,6
2008 126,1 117,1 112,3
2007 124,8 114,9 108,9
2006 117,1 113,2 103,9
2005 109,5 112,3 100,8