03. maí 2022

Enn hækkar afurðarverð til bænda – SS hækkar sína verðskrá í annað skipti í ár

Enn hækkar afurðarverð til bænda – SS hækkar sína verðskrá í annað skipti í ár

SS birti nýja verðskrá í lok apríl sem tók gildi núna 2. maí. Heldur þar áfram sú þróun sem sést hefur undanfarið frá sláturleyfishöfum, en nýmælin hér eru þau að SS hækkaði síðast í lok febrúar og aftur núna í byrjun maí, eða réttum tveimur mánuðum eftir síðustu hækkun. Er þetta í takti við þá öru þróun sem er að verða á matvælamarkaði og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum upp á síðkastið, en einnig er þessum hækkunum ætlað að mæta stórauknum kostnaði bænda vegna framleiðslu kjötsins. Má þar nefna hækkun á öllum aðföngum, svo sem kjarnfóðri, gríðarlegri hækkun áburðar, hækkun á olíu og svo mætti lengi telja. Víst er að þessum keðjuverkunum hækkana er ekki lokið enda jafnvægi á erlendum mörkuðum lítið sem ekkert um þessar mundir og verðhækkanir þar gríðarlegar.  Þannig er nokkuð ljóst að þessar verðhækkanir á afurðarverði nú duga vart fyrir hækkunum aðfanga bænda og raunkostnaður framleiðslunnar töluvert hærri, ef marka má greiningu RML á afkomu nautgriparæktarinnar frá síðasta ári. 

Nú hækkar SS alla flokkana sína eitthvað. Í ungnauti er verðhækkunin á gripum undir 200 kg um 1,5% meðan hún er í kringum 2,8% í flokkunum milli 200 og 260 kg.  Í yfir 260 kg flokki er hún frá 3,8-3,9% heilt yfir og skýrist munurinn væntanlega af aurarúnun fyrst og fremst. 

Í ungkúm (KU) flokki hækkar undir 200 kg. flokkurinn um 3,4% meðan yfir 200 kg. flokkurinn hækkar um 3,4-3,5%.  Aftur skýrist þessi smámunur líklegast af aurarúnun fyrst og fremst.  Hér er jöfn hækkun á báða flokka. 

Kýrnar (K flokkur) hækkar um 4,1-4,3 % sama hvort litið er undir eða yfir.

Naut undir 200 kg. lækka um 5,3-5,4% að staðaldri meðan naut milli 200 og 260k og yfyri 260 kg. hækka um 4,4-4,7%.

Alíkálfar hækka um 3,6-4%. 

Það þarf varla að rýna lengi í þessar breytingar til að átta sig á því hvaða skilaboð SS er að senda til sinna bænda, en lakari flokkarnir lækka eða hækka mun minna en betri flokkarnir.

Líkt og áður sagði er búið að vera mikið flökt á verðskrám sláturleyfishafa undanfarið og ljóst að bæði þeirr sem og bændur þurfa að vera vakandi yfir verðhækkunum og markaðsmálum nautakjöts, líkt og áður greindi.

Verðskráin hefur verið uppfærð á vef Bændasamtakanna hér.