Zebu – hinar heilögu kýr
07.10.2010
Kúakynið Zebu er eitt af best þekktu kúakynum heimsins, en margir vita þó afar lítið um þetta sérstæða kúakyn. Líklega er Zebu þekktast fyrir það að vera það kyn sem er algengast í Indlandi og þar eru kýr friðaðar. Í fréttamyndum frá Indlandi sjást því oft Zebu kýr ráfandi um með hinn sérkennilega fituhnúð á makkanum. Zebu er í raun afar merkilegt kúakyn með fjölþætta nýtingarmöguleika og með eindæmum harðgert gagnvart hita.
Uppruni
Zebu kynið, sem tilheyrir Bos primigenius tegund nautgripa, á ættir að rekja til Suðvestur Asíu og voru asískir forfeður þess
án fituhnúðs, en hann kom inn í stofninn frá indverskum landkynum í gegnum kynblöndun og úr varð Zebu kynið. Zebu fór fljótlega að verða vinsælt og á síðustu 100 árum hefur kyninu fjölgað mikið.
Saga Zebu
Saga Zebu nær aftur til 17. aldar, en til eru heimildir um blöndun inderskrar kynja við kúakyn í Brasilíu frá þeim tíma. Blöndunin gekk vel og í Brasilíu varð fljótlega mikill áhugi á hinu indverska kúakyni. Frá 1890 til 1921 voru fluttir meira en 5000 nautgripir frá Indlandi til Brasilíu en þá kom upp kúafár og innflutningur lifandi dýra lagðist af í 9 ár. Á þessum tíma var í raun lagður grunnur af útlitskilgreiningu Zebu, en miklu máli skipti fyrir brasilíska bændur að fá hreinræktaða indverska gripi (sjá nánar í kaflanum um Útlit). Þegar einangrunartímanum sleppti hófst innflutningur á ný á hinum forn-indversku kynum Gir, Guzerat og Nelroe sem í raun mynduðu stofnana sem urðu svo að hinu sk. hreinræktaða Zebu kyni.
Stundum eru gömlu indversku kynin kölluð Zebu, þ.e. Brahman, Gir, Guzera og Nelore en Zebu er eins og áður segir einnig til sem skilgreint hreinræktað kyn.
Nokkur önnur kyn í heimium í dag hafa orðið til eftir kynblöndun við Zebu, þekktust þeirra eru líklega holdakynin Sanga (Sanganer) og Canchim.
Útlit
Zebu nautgripir geta verið all fjölbreytilegir að lit eftir því hvar þá er að finna. Oftast eru þeir rauðir eða gráir, en finnast allt í það að vera hvítir s.s. Nelore stofninn í Brasilíu sem sumir íslenskir kúabændur hafa séð með eigin augum. Zebu eru stórhyrndir, með óvenju stór eyru og áberandi miklar húðfellingar á hálsi. Þá eru Zebu gripir, eins og áður segir, með fituhnúð á makkanum sem gefur gripunum mikinn svip.
Eiginleikar
Zebu gripir eru fyrst og fremst ræktaðir vegna mjólkur- og kjötframleiðslu, en einnig eru Zebu enn þann dag í dag þó nokkuð notaðir sem dráttardýr. Í Indlandi þó eingöngu sem dráttardýr og til mjólkurframleiðslu, enda nautgripir þar heilagir. Ástæða þess að Zebu er jafn vinsælt og það er í Suður-Ameríku, er ekki síst sú staðreynd að kynið hentar afar vel í blendingsrækt við Evrópsku holdanautakynin í jafn heitu loftslagi og þar er að finna.
Útbreiðsla
Í dag er Zebu að finna í öllum heimsálfunum, þó aðallega í Indlandi og Brasilíu. Fjöldi Zebu í heiminum er talinn vera um 430 milljónir gripa, með 155 milljón gripi í framleiðslu í Brasilíu og 270 milljón gripi í Indlandi. Óvíst er hve stór hluti gripanna í Indlandi er í raun ekki í framleiðslu heldur fær að lifa þar óáreittur af trúarlegum ástæðum. Þá eru um 2 milljónir Zebu gripa í Bandaríkjunum.
Helstu atriðin
Hitaþolið kyn
Verst vel bæði smitsjúkdómum og snýkjudýrum
Er harðgert kúakyn
Nýtist vel sem dráttardýr
Gefur af sér mjólk og kjöt
Samantektin um Zebu kúakynið er hluti af kynningum naut.is á hinum fjölbreyttu kúakynjum heimsins sem munu birtast og hafa verið að birtast lesendum naut.is. Samantektin byggir að mestu á upplýsingum af veraldarvefnum, mest frá afar áhugaverðri heimasíðu um ýmis kúakyn www.thedairysite.com