
Ýmsar ályktanir samþykktar
31.03.2023
Nefndarstörf hófust að nýju í morgun á Búnaðarþingi og er nú fundað um ályktanir og þær bornar upp til samþykktar. Nú þegar hafa nokkrar verið samþykktar sem sjá má hér neðar. Þegar fleiri verða samþykktar munu þær birtast hér jafnóðum. Ályktanir verða settar í stefnumörkun Bændasamtakanna sem birt verður í heild sinni á næstu dögum.
"Búnaðarþing 2023 felur stjórn Bændasamtaka Íslands að taka þátt í stofnun heildarsamtaka í landbúnaði með samtökum fyrirtækja í landbúnaði (SAFL)"
"Bændasamtökin leggja áherslu á að áfram verði unnið að verkefninu Bændageð sem byggir á vitundarvakningu, forvörnum og jafningafræðslu til bænda, og að þeir sem og aðstandendur hafi og þekki greiðar leiðir til sjálfsbjargar."
"Styðja þarf sérstaklega við þá frumkvöðla sem hefja ræktun á nýjum tegundum, enda þarf að auka fjölbreytni í íslenskri frumframleiðslu matvæla."
“Íslenskur landbúnaður verði sjálfbær grunnur að fæðuöryggi Íslands til að styrkja stoðir áfallaþols samfélagsins.”
“Til að tryggja fæðuöryggi er nauðsynlegt að sveitarfélög skilgreini land sem er hentugt til matvælaframleiðslu sem ræktunar-, og beitiland í aðalskipulagi sveitarfélaga.”
“Búnaðarþing 2023 áyktar að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra landbúnaðarafurða og gerðar eru til innlendrar landbúnaðarframleiðslu.”
“Lækkun eða niðurfelling tolla kippir með öllu stoðum undan íslenskum landbúnaði og eru ótækar án jafngildra móvægisaðgerða.”
“Ályktað er að komið verði á sameiginlegum hagtölugrunni um öll þau atriði er áhrif hafa á íslenskan landbúnað.”
“Búnaðarþing 2023 ályktar um eflingu skjólbeltaræktunar til að styðja við aukna akuryrkju, grænmetisrækt og túnrækt.”
“Stjórnvöld stuðli þegar í stað að samstarfsvettvangi um fjárfestingu, rannsóknir og þróun til endurnýtingar alls lífræns úrgangs sem til fellur á Íslandi sem verði nýttur til framleiðslu innlends tilbúins áburðar til landbúnaðarnota.”
“Uppbygging öflugs og trausts flutningskerfis raforku og fjarskipta sem tryggir jafnt aðgengi að dreifikerfum er forsenda öflugrar byggðar.»