Beint í efni

Yfirlýsing stjórnar NautBÍ vegna tillagna ráðuneytisstjórahóps

08.12.2023

Vegna tillagna ráðuneytisstjórahóps

Stjórn NautBÍ fagnar því að hluti bænda fái leiðréttingu á sinni fjárhagsstöðu, með þeim aðgerðum sem ráðuneytisstjórahópurinn leggur til. Þó er alveg ljóst að margir nautgripabændur hvort sem er í mjólkurframleiðslu, kjötframleiðslu eða blönduðum rekstri sitja eftir án þess að fá nokkra bót á sínum málum. Þannig er til dæmis ekki tekið sérstaklega á stöðu þess hóps sem er í skuldavanda vegna gríðarlegra stýrivaxtahækkana, nema þeirra sem staðið hafa í framkvæmdum á allra síðustu árum. Þá segja 100 milljónir til holdanautabænda lítið í heildartapi nautakjötsframleiðslunnar sem er áætlað um 1.600 milljónir á árinu 2023.


Niðurstaða ráðuneytisstjórahópsins staðfestir þær greiningar á afkomuvanda bænda sem Bændasamtökin hafa unnið eftir í kjarabaráttunni undanfarið. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað eru hins vegar mikil vonbrigði þar sem þær mæta ekki stöðunni nema að litlu leiti. Þar að auki er erfitt að sjá að þær séu í beinu samræmi við markmið hópsins, sem var að greina fjárhagsstöðu bænda og koma með tillögur til aðgerða á grundvelli þeirra gagna. Þessi niðurstaða getur því aðeins talist vera áfangi í þá átt að leiðrétta stöðuna.

Bændasamtökin munu því áfram þurfa að þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir til að tryggja rekstrargrundvöll landbúnaðar til framtíðar.