Beint í efni

Yfirlýsing stjórnar NautBÍ vegna endurskoðunar búvörusamninga

18.01.2024

Á fundi samninganefnda þann 14. janúar sl. var komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrði lengra komist í samtali um endurskoðun búvörusamninga. Strax frá upphafi var það afdráttarlaus afstaða samninganefndar ríkisins að ekki kæmi til greina að setja aukna fjármuni inn í samningana.

Með samkomulaginu eru ekki gerðar neinar tillögur að breytingum á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. En í samkomulaginu er að finna sérstaka bók samninganefndar bænda við samninginn og er hún eftirfarandi: „Þar sem engir nýir fjármunir verða settir inn í samning um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar lítur samninganefnd bænda svo á að ekki séu forsendur til að gera breytingar á samningnum, en lögð er áhersla á að hefja vinnu hið fyrsta við heildarendurskoðun samnings sem taki gildi 1. janúar 2027.“

Stjórn NautBÍ hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum með afstöðu stjórnvalda til endurskoðunar, sérstaklega í ljósi stöðunnar sem leidd var í ljós með niðurstöðu ráðuneytisstjórahópsins. Deildin mun áfram vekja athygli á brestum í fjárhagsstöðu nautgripabænda og berjast fyrir bættri afkomu með öllum tiltækum leiðum. Í allri vinnu við endurskoðun samninganna hefur það verið skýr afstaða stjórnarinnar að skoða ætti nautgriparæktarsamninginn með tilliti þróun innan greinarinnar og áhrif hans metin, en ekki var vilji hjá samninganefnd ríkisins til að fara í þá vinnu. Var það talið mikilvægt í ljósi bæði rekstrarskilyrða og þess að mikil hætta er á samdrætti í framleiðslu nautakjöts.

Stjórn NautBÍ telur afar mikilvægt að undirbyggja vel samtal sem nú fer í hönd um nýja búvörusamninga sem eigi að taka gildi í síðasta lagi 1. janúar 2027. Bændaforystan verður að fá skýr skilaboð inn í þá vinnu frá grasrótinni. Samhliða þessari vinnu verður þrýst á stjórnvöld að koma með fjármuni inn í greinina til að efla hana til framtíðar í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Einnig verði leitað lögfræðilegra svara við því hvort endurskoðun með þeim hætti sem farið var í núna, þar sem m.a. var ekki gefið færi á að ræða aukið fjármagn inn í samninginn, sé framkvæmd sem sé í samræmi við búvörulög, önnur lög, reglur og samninga sem kunna að eiga við.

Samningsaðilar voru sammála um að þó endurskoðun sé frá að þá þurfi að ræða sérstaklega stöðu nautakjötsframleiðslunnar. Einnig bindur stjórn NautBÍ vonir við að nýr verðlagsgrundvöllur kúabúa líti dagsins ljós á allra næstu mánuðum sem mun hjálpa mikið í vinnunni sem er framundan.