Yfirlýsing Landssambands kúabænda vegna aðgerða til að lækka matvælaverð
09.10.2006
Stjórn Landssambands kúabænda hefur haft til athugunar þá hugmynd að kúabændur taki á sig kostnað í tengslum við aðgerðir stjórnvalda til lækkunar matvælaverðs. Málið bar brátt að, en hefur verið kynnt fyrir trúnaðarmannahópi Landssambands kúabænda. Niðurstaða stjórnar LK er eftirfarandi yfirlýsing:
Landssamband kúabænda er tilbúið að taka þátt í samræmdum aðgerðum til lækkunar á matvælaverði, en í þeim aðgerðum felst m.a. lækkun virðisaukaskatts á íslenskar búvörur. Í þessu skyni mun Landssamband kúabænda fallast á nokkra raunlækkun á lágmarksverði fyrir mjólk til framleiðenda á árinu 2007, eftir því sem um kann að semjast, sjá lið 2 hér eftir.
Forsendur þessa eru:
1. Að stjórnvöld raski ekki, með neikvæðum hætti, starfs- og samkeppnisumhverfi íslenskrar mjólkurframleiðslu og mjólkurvinnslu með opinberum ákvörðunum umfram það sem milliríkja- og alþjóðlegir samningar leiða af sér fram til 31. ágúst 2012. Enda er það forsenda áframhaldandi hagræðingar í framleiðslu mjólkur og vinnslu mjólkurvara.
2. Að stjórnvöld gangi til samninga við Landssamband kúabænda um hvernig verði hraðast unnið að lækkun á framleiðslukostnaði mjólkur.
Greinargerð:
Það er mat stjórnar Landssambands kúabænda að hár framleiðslukostnaður sé meginvandi íslenskrar mjólkurframleiðslu. Lækkun hans er forsenda þess að hægt sé að lækka verð á mjólk til bænda. Ef mjólkurverðið lækkar að óbreyttum kostnaði kemur það óhjákvæmilega fram sem skerðing á launum kúabænda.
Stjórnin vekur sérstaka athygli á því að fyrir áratug var ljóst að ef mjólkurframleiðslan ætti að geta þróast eðlilega þyrfti að eiga sér stað veruleg fjárfesting í fjósum og öðrum búnaði tengdum framleiðslunni. Kúabændur hafa unnið stórvirki í þessu efni á síðustu árum og endurnýjað eða byggt frá grunni fjölda fjósa með tilheyrandi vélbúnaði. Þetta hefur leitt til verulegrar skuldasöfnunar en talið er að heildarskuldir kúabænda séu nú um 25 milljarðar. Það er því ljóst að fjölmörg kúabú eru þannig stödd eftir mikla uppbyggingu að þau þola ekki tekjuskerðingu. Framtíð mjólkurframleiðslu á Íslandi er í verulegri hættu ef þessi bú hætta starfsemi.
Í núgildandi samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar sem undirritaður var í maí 2004, var gengið út frá því að ákveðin framleiðniaukning yrði í mjólkurframleiðslunni. Ríkissjóður nýtur þess með því að stuðningur við greinina er skertur á samningstímanum um ca. einn milljarð. Þetta skerðir enn svigrúm bænda til að taka á sig lækkun á afurðaverði. Þá er áformað að draga úr þeim hluta stuðningsins sem fer beint til lækkunar mjólkurverðs og greiða þann hluta sem grænar greiðslur sem dregur úr nytsemi greiðslnanna fyrir framleiðendur og neytendur.
Með hliðsjón af framansögðu skiptir öllu máli að ná niður framleiðslukostnaði með öllum tiltækum ráðum án þess að fórna hreinleika og heilbrigði afurðanna.
Ferjubakka II 7. október 2006