Beint í efni

Yfirlýsing frá stjórn LK vegna búvörulagafrumvarps

05.08.2010

Í ljósi umræðu um frumvarp til breytinga á búvörulögum undanfarna daga, hefur stjórn Landssambands kúabænda sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

 

1. Vorið 2009 voru samþykktar á Alþingi Íslendinga breytingar á búvörusamningum milli bænda og ríkisins, þar sem fjárframlög vegna þeirra voru skert verulega. Þessar skerðingar standa nú í tæpum 2 milljörðum króna. Jafnframt voru samningarnir framlengdir og gildir mjólkursamingurinn til 31. desember 2014. Samningar þessir byggja á búvörulögum nr. 99/1993. Í þeim hafa frá upphafi verið ákvæði um að mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks skuli flutt á erlendan markað, á ábyrgð viðkomandi framleiðanda og afurðastöðvar.

 
2. Bændur samþykktu framangreindar breytingar á samingunum í trausti þess að lagagrunnur þeirra stæðist, enda grundvallar atriði að sömu lög gildi fyrir alla mjólkurframleiðendur. Í frumvarpinu er ekki verið að gera neinar grundvallarbreytingar á lagaumhverfi greinarinnar, aðeins að gera það kleyft að fylgja gildandi lögum eftir.
 

3. Fram hafa komið tvö lögfræðiálit um málið, annað á þá leið að áhöld séu uppi um að framangreind ákvæði búvörulöga standist atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár Íslands, meðan hitt telur ákvæðið standast. Að mati Landssambands kúabænda er það alveg skýrt, að meðan ekki fellur dómur um annað, þá halda lögin gildi sínu.
 

4. Í frumvarpinu er nú gert ráð fyrir að hver og einn mjólkurframleiðandi geti markaðssett allt að 15.000 lítra á innanlandsmarkaði af mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks, ef mjólkin er unnin og markaðssett heima á búinu. Frumvarpið kemur því mjög til móts við heimavinnsluaðila í mjólkurframleiðslu.

 

5. Hér eftir, sem hingað til,verður öllum þeim sem hafa hug á að stofna mjólkurvinnslu kleyft að gera slíkt ef þeir svo kjósa.

 

6. Aðalfundur Landssambands kúabænda hefur á undanförnum árum ítrekað ályktað um nauðsyn þess að framangreindar breytingar á búvörulögum nái fram að ganga. Um þær er því rík samstaða meðal bænda.

 

7. Rétt er í þessu sambandi að minna á að Verðlagsnefnd búvöru ákveður lágmarksverð mjólkur til bænda og jafnframt hámarks heildsöluverð helstu vöruflokka mjólkurafurða. Þetta er gert til að gæta hagsmuna neytenda og bænda gagnvart milliliðum í ferlinu. Þetta fyrirkomulag heldur ekki án tilvistar kvótakerfisins. Eigi hinsvegar að gera breytingar á þessu kerfi er lykil atriði að það sé gert að undangenginni aðlögun og að allir framleiðendur hafi þar jafna möguleika.

 

8. Undangengin misseri hefur verið í gangi stefnumótunarvinna að hálfu Landssambands kúabænda um hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera til að auka samkeppnishæfni greinarinnar á komandi árum. Í þeirri vinnu er allt rekstrarumhverfi greinarinnar undir, þar með talið kvótakerfi mjólkurframleiðslunnar. Samkvæmt samningum milli ríkisins og bænda verður það í gildi a.m.k. til 31. desember 2014. Því er nauðsynlegt að lagaumhverfið haldi á meðan svo er.

 

9. Í umræðum um málið undanfarna daga hefur það óneitanlega vakið talsverða athygli, að sumir, jafnvel málsmetandi menn, telja nauðsynlegt af samkeppnisástæðum að glufur séu í gildandi lögum. Að mati Landssambands kúabænda er alveg skýrt að búvörulög, eins og öll önnur landslög, eiga að vera skýr og gilda eins fyrir alla.
 
Fyrir hönd stjórnar Landssambands kúabænda,

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK.