Beint í efni

Yfirlýsing frá Fóðurblöndunni vegna áburðarverðs

10.03.2010

Við innfærslu á tilboðsgerð vegna útboðs áburðakaupa Landgræðslunnar og Vegagerðarinnar urðu starfsmanni Fóðurblöndunnar á þau mistök að setja áburðarverð fram án virðisaukaskatts eins og alltaf hefur tíðkast við þessi útboð, en sú breyting varð að nú áttu þau að vera verð með virðisaukaskatti. Tilkynnt var um málið til útboðsaðila um leið og málið uppgötvaðist og er áfram unnið í málinu.

Fóðurblandan harmar þetta en átelur vinnuaðferðir forsvarsmanna netmiðlisins www.naut.is sem birti frétt um málið án þess að gera tilraun til að bera hana undir Fóðurblönduna. Tilgangur fréttaflutningsins virðist því miður hafa verið að gera Fóðurblönduna tortryggilega í augum bænda.

F.h. Fóðurblöndunnar hf.

Sigurður Þór Sigurðsson

 

Athugasemdir framkvæmdastjóra LK:

 

Landssamband kúabænda vísar fráleitum ásökunum Fóðurblöndunnar á bug. Allra nauðsynlegra upplýsinga vegna þessa var
leitað hjá Landgræðslunni og Ríkiskaupum, um magn áburðar í útboðinu, efnainnihald, vsk. og greiðsluskilmála. Það sætir
furðu ef bæði fyrirtækin sem skiluðu inn tilboðum í áburðarkaup Landgræðslu ríkisins, virðast hafa gert sömu mistökin. Mismunurinn á tilboðsverði og verði til bænda er amk. í báðum tilfellum óeðlilega mikill.
Þessi mistök uppgötvast ekki fyrr en löngu eftir að tilboðunum var skilað inn og þau lesin upp hjá Ríkiskaupum, þegar fjallað er um þessi mál hér á vef Landssambands kúabænda. Vænisýki Fóðurblöndunnar hf í garð Landssambands kúabænda nær með þessu nýjum hæðum. Framkvæmdastjóri LK er hins vegar ýmsu vanur í þeim efnum. Er skemmst að minnast þegar gagnrýni hans á fóðurverð hér á landi, var lagt að jöfnu við aðgerðir opinberrar eftirlitsstofnunar gagnvart fyrirtækinu.

 

Það gefur hins vegar fullt tilefni til tortryggni, ekkert síður í garð Skeljungs en Fóðurblöndunnar, þegar lesa mátti það í Bændablaðinu sem út kom 25. febrúar sl., að hérlendir áburðarsalar gætu ekki gefið út verð á áburði til bænda hér á landi, vegna þess að ekki væri komið verð frá erlendum birgjum. Samt sem áður gátu Fóðurblandan hf og Skeljungur hf skilað inn tilboðum til kaupenda sem taka nálægt 1.000 tonnum af áburði, nærri þremur vikum áður. Þeirri spurningu er ósvarað enn, hvaða forsendur voru þar lagðar til grundvallar?