
Yfirlýsing Bændasamtaka Íslands vegna svara við spurningalista ESB
23.10.2009
Íslensk stjórnvöld skiluðu í gær inn svörum við spurningalista framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem er hluti af umsóknarferli að ESB. Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er tekið fram að náið samráð hafi verið haft við félagasamtök og hagsmunahópa og Bændasamtökin nefnd þar til sögunnar ásamt fleirum. Af fréttatilkynningunni má ráða að samtökin hafi verið í hópi þeirra aðila sem fóru yfir svörin.
Ofsagt er að Bændasamtök Íslands hafi farið yfir svör við landbúnaðarkafla spurningarlistans. Samtökin veittu sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytinu aðstoð við hluta af svörum kaflans. Svörin í heild sinni hafa ekki komið til formlegrar yfirferðar hjá Bændasamtökunum enda hvorki tími né aðstæður fyrir hendi til að fara ítarlega yfir efnið.
Samningahópi um landbúnaðarhluta viðræðna við ESB var m.a. ætlað að fara yfir svörin samkvæmt ályktun Alþingis. Hann hefur hins vegar ekki ennþá verið skipaður og ekki hefur BÍ borist formlegt erindi um tilnefningu fulltrúa bænda í hópinn.
F.h. stjórnar BÍ,
Haraldur Benediktsson