Beint í efni

Yfirlýsing Auðhumlu vegna líftölumælinga

15.03.2023

Auðhumla sendi fyrr í dag frá sér yfirlýsingu vegna líftölumælinga, en hana má finna hér að neðan:

Ágætu mjólkurframleiðendur,

Rannsóknarstofa mjólkuriðnaðarins (RM) efna- og gæðamælir sem kunnugt er alla hrámjólk sem Auðhumla svf. kaupir af mjólkurframleiðendum.

Að undanförnu hefur tæki RM sem mælir líftölu í mjólk farið nokkuð út fyrir hefðbundin fasa og sýnt heilt yfir heldur hærri gildi en vant er. Ákveðinn vafi leikur á réttmæti þessara niðurstaðna, en um er að ræða notað tæki sem RM fékk að láni erlendis frá á meðan beðið er eftir nýju framtíðar mælitæki sem vonast er til að komi til landsins í aprílmánuði.

Á meðan vafi leikur á réttmæti niðurstaðna líftölumælinga mun Auðhumla svf. ekki nota þessar tölur til verðfellingar á hrámjólk. 

Gæðaráðgjafar Auðhumlu svf., sem fyrst vöktu athygli á þessum frávikum, munu nú fara aftur yfir líftölumælingar í febrúar- og marsmánuði  og aftar í tíma ef ástæða þykir til. Ef endurskoðunin sýnir að hrámjólk hafi verið verðfelld á grundvelli mælinga sem vafi leikur um réttmæti á, mun slíkt verða leiðrétt og viðkomandi mjólkurframleiðendur upplýstir um það.

Það skal ítrekað að aðeins leikur vafi á niðurstöðum tækisins sem mælir líftöluna. 

Engar efasemdir eru um niðurstöður tækisins sem mælir efnainnihald mjólkur, þ.e. fitu, prótein, fríar fitusýrur, úrefni og kasein og að auki frumutölu mjólkur. Þessar niðurstöðutölur standa því óhaggaðar.

Þó líftölumælingarnar verði ekki notaðar til verðfellingar munu þær þó áfram verða birtar til leiðbeininga um stöðu og þróun á líftölu.

Gæðaráðgjafar Auðhumlu svf. munu því halda sínu verklagi óbreyttu gagnvart framleiðendum þar sem líftala hækkar óeðlilega milli mælinga.