Beint í efni

Yara skilar metafkomu – áburðarverð í nýjum hæðum

15.07.2008

Yara International ASA, sem er stærsti framleiðandinn á tilbúnum áburði í veröldinni, tilkynnti í dag um afkomu fyrirtækisins á 2. ársfjórðungi 2008. Í stuttu máli er hún sú besta sem um getur í sögu fyrirtækisins, en Yara var hluti af Norsk Hydro til ársins 2004. Hagnaðurinn á þessum 90 dögum voru 68 milljarðar íslenskra króna. Vegna mikillar eftirspurnar reyndist unnt að hækka verð á afurðum fyrirtækisins verulega, langt umfram hækkanir á aðföngum. Gengi hlutabréfa í Yara hefur hækkað um 129% á undanförnu ári, úr 167 NOK á hlut í 383 NOK á hlut. Nánar má lesa um afkomutilkynninguna hér og hérna má sjá þróun hlutabréfaverðs í Yara.

Verð á áburði hefur haldið áfram að hækka og það gífurlega. Eins og sjá má hér, hefur verð á ammóníum hækkað úr 390 USD/tonn um áramót í 545 USD/tonn þann 10. júlí sl. Úrefni hefur farið úr 382 USD/tonn í 727, kalsíumammóníumnítrat úr 321 í 460 USD/tonn. Fosfórsýran á þó án vafa metið í verðhækkun, þar fór verðið úr 563 USD/tonn þann 20. desember sl. í 1727 USD/tonn þann 20. mars sl., þar sem það hefur verið síðan.