Yakult opnar verksmiðju í Bandaríkjunum
18.11.2011
Japanska fyrirtækið Yakult, sem framleiðir einmitt samnefndan hollustudrykk, hefur komið sér vel fyrir á bandaríska markaðinum frá því að fyrirtækið hóf starfsemi þar árið 2007. Nú selur fyrirtækið 118 þúsund drykkjarflöskur daglega þar í landi, sem þó telst ekki mikill fjöldi t.d. miðað við 3,4 milljón flösku daglega sölu í Mexíkó og 1,7 milljón flösku sölu í Brasilíu.
Forsvarsmenn fyrirtækisins telja þó að bandaríski markaðurinn muni skjótt taka vel við sér og því hefur verið byggð ný verksmiðja sem getur afkastað 250 þúsund flöskum á dag til þess að byrja með en getur farið upp í allt að 760 þúsund flöskur daglega.
Yakult er framleitt úr undanrennu og gerlinum Lactobacillus casei (sem er skildur LGG gerlinum Lactobacillus rhamnosus GG) og hefur góð áhrif á meltingu og er selt í litlum flöskum 60-85 ml. Markaðssetning Yakult í Bandaríkjunum er að mörgu leiti afar áhugaverð, en fyrirtækið hefur fyrst og fremst markaðssett drykkina með kynningarstarfi og samstarfi við meltingarfærasérfræðinga og aðra sérfræðinga á sviði neyslu matvæla. Fyrirtækið heldur úti sérstakri heimasíðu, www.Yakultusadietitians.com, sem er með ákveðnum grunn upplýsingum um kosti Yakult en síðan er að hluta til læst og eingöngu ætluð sérfræðingum! Nánar má lesa um Yakult á heimasíðu þess í Bandaríkjunum www.yakultusa.com /SS.