Beint í efni

WTO viðræðurnar í frosti

09.07.2010

Í kjölfar G-20 fundarins í Toronto í Kanada, þar sem forsvarsmenn stærstu ríkja heims funduðu um ýmis mál, er ljóst að nýr WTO samningur á enn langt í land. Eins og kúabændum er vel kunnugt um, hefur staðið til að gera nýjan viðskiptasamning á milli helstu ríkja heims með því að ljúka sk. DOHA viðræðum. Enn sem komið er geta mikilvægustu viðskiptalöndin þó ekki komið sér saman um veigamestu atriðin og því þokast málið lítið sem ekkert áfram.

 

Fram kom í máli Barak Obama Bandaríkjaforseta

að Bandaríkin hafi fullan hug á því að klára þessar viðræður með nýjum WTO samningi, en Karel De Gucht, viðskiptaráðherra Evrópusambandsins, segir boltann þó vera hjá Bandaríkjamönnum. Það sé ekki neinn tilgangur að halda viðræðum áfram fyrr en umboð bandarískra samningamanna sé skýrt og fyrir liggi hvert stefna beri í viðræðunum.

 

Bandaríkin halda enn fast í þá stefnu að þróunarlöndin eigi að opna fyrir frekari innflutning vara en önnur lönd, m.a. Brasilía, vilja meina að fyrri hugmyndir, sem lagðar voru fram í desember 2008 gangi meira en nógu langt í þeim efnum.

 

Hvað sem gerist á næstunni, þá er ljóst að enn mun þónokkur tími líða þar til nýr samningur tekur við með tilheyrandi aðlögunartíma fyrir aðildarlönd samningsins.