Beint í efni

WTO viðræðum slitið – mikill ávinningur?

30.07.2008

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var Doha-samningaviðræðunum á vegum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar slitið í gær. Ekki hefur verið ákveðið hvenær og hvort þráðurinn verður tekinn upp að nýju. Líklegt má þó telja að þess verði ekki mjög langt að bíða, þar sem samningaviðræðurnar voru komnar vel áleiðis. Það er því varla spurning um hvort heldur hvenær samkomulag næst. Engum blöðum er um það að fletta, að slíkt mun hafa veruleg áhrif á rekstrarumhverfi kúabænda og því mikilvægt að lagt verði í vinnu við að gera sér grein fyrir, hvað þau drög að samkomulagi, sem eru nánast frágengin hvað Ísland varðar munu hafa á greinina. Ekki er síður mikilvægt að skoða allar faglegar leiðir til að mæta þeim áskorunum sem nýr WTO samningur kann að leiða af sér.

Í sjónvarpsfréttum á RUV í kvöld fjallaði Borgþór Arngrímsson fréttamaður um viðræðuslitin. Lét hann að því liggja að ef samningar hefðu náðst, hefði slíkt skilað landsmönnum „umtalsverðri kjarabót“ í formi tollalækkana. Í sama streng tók Erlendur Hjaltason, stjórnarformaður Viðskiptaráðs og annar tveggja forstjóra Exista, sem fenginn var til viðtals vegna frétta af WTO. Að þessu hefur oft verið látið liggja, að niðurfelling tolla á landbúnaðarvörum muni skila miklum ávinningi fyrir landsmenn. Því er eðlilegt að spurt sé, hvers vegna vörur á borð við föt og skó, ávexti og ýmsar matvörur sem fluttar eru hingað til lands án tolla, eru miklu dýrari hér á landi en í nálægum löndum? Þessir heiðursmenn kunna væntanlega svör við því.