World Dairy Summit í Höfðaborg í Suður-Afríku
05.11.2012
Árleg ráðstefna Alþjóðasamtaka mjólkuriðnaðarins, World Dairy Summit, stendur þessa dagana yfir í Höfðaborg í Suður-Afríku. Á ráðstefnuna, sem sett var í morgun, mæta fulltrúar kúabænda, mjólkuriðnaðar og fyrirtækja í tengdum greinum frá öllum heimshornum og eru þeir alls um 1.200 talsins. Ráðstefnunni er skipt upp í 11 deildir og taka þær á margvíslegum þáttum er varða mjólkurframleiðsluna. Í dag var farið yfir stöðu mjólkurframleiðslunnar á heimsvísu, framboð og eftirspurn, verðþróun og horfur framundan. Einnig var ítarlega fjallað um ýmsar áskoranir sem mjólkurframleiðslan stendur frammi fyrir, hvernig á að auka framleiðsluna um 30% á næstu 18 árum, hvernig er hægt að minnka vatnsnotkun, útblástur gróðurhúsalofttegunda, hvernig á að takast á við hátt aðfangaverð, hvernig er hægt að auka framleiðni, hvernig er hægt að auka nýliðun, fjárfestingar o.s.frv. Áður fyrr snerust ráðstefnur þessar nær eingöngu um úrvinnsluhliðina en á síðari árum er sjónum beint í mjög auknum mæli að frumframleiðslunni sjálfri.
Á morgun verður ítarlegar fjallað um stefnumótun og hagfræði, bústjórn og matvælaöryggi. Þá er farið yfir ýmsa þætti varðandi sýnatökur og efnagreiningar, mjólkurframleiðslu í nýmarkaðslöndum, næringu og heilsufarsþætti, sjálfbærni og græna hagkerfið, vinnslutækni, búfjárheilbrigði og velferð og markaðsmál mjólkurafurða. Ráðstefnuna sækja þrír Íslendingar, Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri SAM, Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS og Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda. Ráðstefnunni lýkur n.k. fimmtudag, 8. nóvember.
Nánar verður fjallað um ráðstefnuna í næsta Bændablaði./BHB