Beint í efni

Vöxtur hjá Arla fyrstu sex mánuði ársins

23.09.2011

Framleiðenda samvinnufélagið Arla er á flugi þetta árið og nú hafa verði gerðar opinberar rekstrarniðurstöður fyrstu sex mánuða ársins. Veltuaukning nemur 12% frá fyrra ári, sem skýrist af samrunanum við Hansa-Milch og einnig verðhækkunum á mörkuðum. Félagið skilaði einnig 14% hærra afurðaverði til kúabændanna sem eiga félagið í Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi en á sama tíma árið 2010 en meðalverð til bænda var 2,71 dkr/kg eða 58,44 íkr/kg greitt við mjólkurhúsdyr.

 

Velta félagsins fyrstu sex mánuðina var 27 milljarðar danskra króna eða sem nemur um 582 milljörðum íslenskra króna. Þrátt fyrir afar háar tölur er markmið stjórnar félagsins að auka veltuna enn frekar og að árið 2015 verði ársvelt þess 75 milljarðar danskra króna eða nærri 1.620 milljörðum íslenskra króna! Þessu markmiði hyggst stjórnin ná með samruna við önnur félög, uppkaup á öðrum félögum og með söluaukningu.

 

Aukning í Mið-Austurlöndum

Af 12% veltuaukningu fyrstu sex mánuði ársins má rekja 7% til söluaukningar og munar þar mestu um starfsemi Arla í Mið-Austurlöndum og norðurhluta Afríku þar sem veltuaukning í sölu nam 18% frá fyrra ári. Helstu vörurnar á þessum mörkuðum eru neytendapakkað mjólkurduft og bræddur rjómaostur. Þessar vörur eru seldar með vörumerkinu Puck® sem er með afar sterka stöðu í Mið-Austurlöndunum.

 

Vænta 2,5% hagnaðar af veltu

Stjórn Arla gerir ráð fyrir að hagnaður félagsins árið 2011 muni nema 2,5% af veltu þess eða um 1,3 milljörðum danskra króna (28 milljarðar íslenskra króna). Svo þetta verði mögulegt þurfa þó markaðir að haldast stöðugir og aðgengi að mörkuðum að vera tryggt. Liður í þessu var samruninn við þýska afurðafélagið Hansa-Milch en þá tengdist Arla ekki einungis félagi með 650 kúabændum heldur einnig 80 milljón manna neytendamarkaði! Eins og áður hefur verið greint frá er reiknað með samruna við þýska afurðafélagið Allgäuland Käsereien einnig á þessu ári, en það félag er með 1.800 innleggjendur. Í kjölfarið munu eigendur Arla verða alls 9.630, þar af 3.650 í Danmörku og 3.530 í Svíþjóð/SS.