Vorverkin ganga hægt í USA
18.05.2011
Á tímabilinu apríl til nóvember ár hvert, gefur bandaríska landbúnaðarráðuneytið, USDA, út vikulega skýrslu um stöðu og horfur í akuryrkjunni þar vestra. Þar kemur m.a. fram hversu miklu er búið að sá af hverri korntegund, framgangur þeirra og þroski. Í skýrslunni sem kom út þann 16. maí sl. kemur fram að sáning á t.d. maís, soja og vorhveiti gengur fremur rólega og að ástand mikilvægra tegunda á borð við vetrarhveiti sé heldur dapurt. Athugunin byggir á skýrslum u.þ.b. 5.000 aðila, sem vegna starfa sinna eru í nánum tengslum við bændur og eru í góðri aðstöðu til að meta stöðuna í akuryrkjunni á hverjum tíma.
Staða á sáningu einæru tegundanna er sem hér segir:
Í maís hefur verið sáð í 63% akra, á sama tíma í fyrra hafði verið sáð í 75%, fimm ára meðaltal í þessari sömu viku er 87%.
Í 36% sojabaunaakra hefur verið sáð, á móti 31% fyrir ári. 5 ára meðaltal er 37%.
Sáð hefur verið í 43% byggakra, á móti 76% fyrir ári síðan, sem er jafnt 5 ára meðaltali.
Af vorhveiti hefur aðeins verið sáð í 36% akra, á móti 76% í fyrra. 5 ára meðaltal er 78%. Sama staða er uppi í Kanada, þar er vorhveiti og sumarrepja talsvert á eftir áætlun.
Í vetrarhveiti hefur staðan farið versnandi undanfarnar vikur, 32% akra eru metnir í góðu eða mjög góðu ástandi, á sama tíma fyrir ári voru 66% akra í þessum flokki. 5 ára meðaltal er 50%. Í flokknum lélegt eða mjög lélegt eru 44% akranna, á móti 8% fyrir ári síðan.
Hinum megin Atlantsála eru uppskeruhorfur heldur ekkert sérstakar, t.a.m. hefur verið mjög þurrt í Frakklandi að undanförnu. Það er því ekki margt sem gefur tilefni til að kornverð á heimsmarkaði fari lækkandi á næstu mánuðum./BHB