
Vörn á vinnustað vegna kórónuveirunnar
12.05.2021
Bólusetningar geta komið í veg fyrir að vinnustaðir lamist vegna kórónuveirusmita. Hægt er að draga verulega úr áhættunni sem fylgir veirunni ef stór hluti starfsfólks er bólusettur. Bólusetningar ganga vel og opnir bólusetningadagar eru vikulega fyrir ákveðna aldurshópa hjá heilsugæslunni. Mikilvægt er að allir fái þær upplýsingar ásamt hvatningu til að mæta. Ferlið sjálft tekur aðeins um 30 mínútur og þá er biðlað til atvinnurekenda að sýna sveigjanleika svo að starfsfólk geti mætt í bólusetningu.
Boð í bólusetningu kemur með sms-i í símann ef fólk er skráð á heilsugæslu. Ef fólk er ekki skráð með símanúmer hjá heilsugæslu þá þarf það að fylgjast með tilkynningum um opna bólusetningadaga fyrir sinn aldurshóp. Þá dugar að mæta með skilríki og kennitölu til að fá bólusetningu. Allir sem búa og starfa á Íslandi eiga rétt á bólusetningu, sér að kostnaðarlausu.
„Það er ánægjulegt að fá út leiðbeiningar fyrir vinnuveitendur og starfsfólk og það er mikilvægt að atvinnurekendur aðstoði sína starfsmenn sem koma erlendis frá, til skemmri og lengri tíma, að skrá sig á heilsugæslu í sínu sveitarfélagi. Það er einnig mikilvægt að við sem erum með starfsfólk af erlendu bergi í landbúnaði hvetjum þá til að fara í bólusetningu og kynna þeim fyrir því fræðsluefni sem til er á mörgum tungumálum inni á covid.is-síðunni. Það er ávinningur fyrir alla að þessir hlutir séu í lagi og lykillinn hér liggur hjá vinnuveitandanum,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Allra hagur að flestir þiggi bólusetningu
Bólusettir einstaklingar með vottorð um fulla bólusetningu eru undanþegnir tvöfaldri skimun með 5-6 daga sóttkví á milli við komuna til Íslands. Því er töluverður ávinningur fyrir bæði starfsfólk og vinnustaði að sem flestir séu bólusettir. Vinnutap og smithætta vegna ferðalaga erlendis er í lágmarki svo lengi sem fólk er bólusett gegn kórónuveirunni.
Bólusett fólk sem hefur verið útsett fyrir smiti getur fengið mótefnamælingu og ef mótefni er til staðar þá þarf það ekki að fara í sóttkví (nema dvalið sé á heimili með öðrum sem eru í sóttkví eða einangrun). Mikilvægt er þó að vera vakandi fyrir einkennum og forðast að vera í kringum viðkvæma hópa. Persónulegar sóttvarnir draga verulega úr fjarveru vegna sóttkvíar og veikinda af völdum veirunnar.
Vinnustaðir um land allt hafa lent í töluverðum erfiðleikum þetta rúma ár sem faraldurinn hefur geisað, sér í lagi þegar upp kemur smit innan vinnustaðar og starfsmenn lenda í sóttkví eða þaðan af verra: veikjast af kórónuveirunni í lengri tíma með tilheyrandi einangrun. Vinnusamir einstaklingar með einkenni hafa mætt til vinnu í stað þess að halda sig til hlés og fara í sýnatöku. Þegar smit hafa síðan uppgötvast hafa margir smitast til viðbótar með töluverðum áhrifum á starfsemina.
Það er því hagur allra, starfsfólks, vinnustaða og samfélagsins í heild, að sem flestir þiggi bólusetningu og fái hvatningu og svigrúm til að mæta á tilsettum tímum í bólusetningu.
Efni á fjölmörgum tungumálum til útprentunar er að finna á covid.is undir Kynningarefni.