
Vítamín hafa hækkað gríðarlega á stuttum tíma
01.03.2018
Undanfarna mánuði hefur verð á vítamínum hækkað víða um heim og kostar til dæmis E-vítamín í dag þrisvar til sex sinnum meira en það kostaði fyrir ári síðan. Þá hefur A-vítamín hækkað enn meira í verði en þess ber að geta að verð á vítamínum var afar lágt fyrir ári síðan og var verðið þá með því lægsta sem sést hefur, svo það var alltaf viðbúið að verð á vítamínum gæti hækkað.
Skýringin á hækkuninni felst fyrst og fremst í minni framleiðslu á liðnu ári, en stór hluti vítamína hefur verið framleiddur í Kína og þar hafa stjórnvöld hert verulega kröfur til vítamínframleiðslunnar, sem hefur amk. tímabundið dregið úr framleiðslunni. Þá vildi svo óheppilega til að ein verksmiðja fyrirtækisins BASF brann í haust, en í þessari einu verksmiðju í Þýskalandi fór fram framleiðsla á þriðjungi allrar A-vítamínframleiðslu heimsins! Fyrir vikið hefur minna framboð ýtt undir hækkanir á vítamínum.
Vítamín eru ekki seld á uppboðsmörkuðum heldur í beinum viðskiptum og þau fyrirtæki sem voru með langtímasamninga um kaup á vítamínum hafa væntanlega ekki fengið á sig jafn miklar hækkanir og önnur fyrirtæki. Sérfræðingar í fóðurefnakaupum spá því að verð á vítamínum muni halda áfram að hækka á árinu og þrátt fyrir að vítamín og steinefni standi ekki nema undir 3-10% af verði á fóðri þá má fastlega búast við því að verðhækkanir á fóðri geti orðið vegna þessarar stöðu/SS.